Tíska og hönnun

Tveir heimar koma saman

Samstarf þeirra Elsu og Bryndísar hófst fyrir nokkrum mánuðum. Þær sýna verkið Dulúð í gluggum Iðu í Lækjargötu á HönnunarMars.
Samstarf þeirra Elsu og Bryndísar hófst fyrir nokkrum mánuðum. Þær sýna verkið Dulúð í gluggum Iðu í Lækjargötu á HönnunarMars. Vilhelm
Þær Bryndís Bolladóttir textílhönnuður og Elsa Nielsen grafískur hönnuður leiða saman hesta sína á HönnunarMars þar sem þær tengja saman tvo listheima í verkefninu Dulúð. Bryndís hefur getið sér gott orð með hönnun sinni „Kúla“ sem er hljóðdempandi og fallegt veggverk og Elsa er þekkt fyrir málverk sín sem og vinnslu í stafrænni tækni.

„Í Dulúð vinn ég úr verkum Bryndísar, Kúlunni. Hún er mjög fallegt verk sem hefur tilgang og Bryndís er búin að selja Kúluna víða erlendis. Í verkefninu Dulúð er grunnformið hringur og þar erum við að leika okkur með rýmið og er Kúlan unnin áfram frá veggnum,“ segir Elsa.

Hún segir að möguleikarnir séu endalausir þegar unnið er með grunnform, það sé bara spurning um að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. „Í verkinu er Kúla útfærð í hljóðskúlptúr sem og svífandi í loftinu. Þetta er allt gerlegt, bara spurning um hvað rými kallar á.“

Verkefnið er byggt upp sem saga sem áhorfandinn getur sett sig inni í en verkið er til sýnis í gluggum IÐU í Lækjargötu 2a meðan á HönnunarMars stendur.

Í verkefninu er Kúla Bryndísar unnin áfram af Elsu. Þær leika sér með rýmið og vinna Kúluna frá veggnum.
Hönnunarmars er hvatning 

Þær Elsa og Bryndís voru saman í Listaháskólanum fyrir um fimmtán árum en samstarf þeirra hófst fyrir nokkrum mánuðum. „Bryndís hafði samband við mig vegna verkefnis sem hún var að vinna þá. Út frá því samstarfi ákváðum við að vera saman með eitthvað á HönnunarMars, okkur langaði að flétta saman þessar tvær hönnunargreinar, textílhönnun og grafíska hönnun. Fyrir mér er HönnunarMars hvatning til að vinna óhefðbundnar hugmyndir, það er líka gaman að vera með og sýna það sem maður er að gera.“

Samstarfið fór þannig fram að Elsa vann verk Bryndísar inn í sinn heim myndvinnslunnar og þannig mynduðu þær samtal í myndheimi. „Það kom í ljós að við hugsum á svipuðum nótum því ég sendi henni hugmynd þar sem ég hitti á ákveðinn hlut sem hún hafði lengi verið að spá í að gera. Svo köstuðum við hugmyndinni á milli okkar þangað til Dulúð varð til. Það var ofsalega gaman að tvinna þessa heima saman en í verkefninu erum við báðar að koma inn í nýjan heim. Ólíka heima sem eru samt svo ótrúlega líkir, við vorum alltaf að rekast á eitthvað sem er líkt og við höfðum áður séð,“ segir Elsa.

Hún segir þær stöllur hyggja á frekara samstarf en vill lítið gefa upp um hvað það fjallar. „Já, við erum með ákveðna hluti á teikniborðinu og við erum að hugsa stórt,“ segir hún og hlær.

Grípur í spaðann

Helgin fer að mestu leyti í HönnunarMars hjá Elsu en hún ætlar líka að grípa í badmintonspaðann á ný en spaðann lagði hún á hilluna fyrir nokkru eftir áralangan landsliðsferil. „Ég var plötuð til að keppa aðeins um helgina. Ég er ekki að æfa en ég spila með gamla, góða genginu mínu tvisvar í viku. Svo er ég orðin að uppfyllingarefni í mót þegar vantar. Þannig að helgin mín einkennist af HönnunarMars og smá badminton.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×