Vond framganga lögreglustjórans Sigurjón M. Egilsson skrifar 6. mars 2015 07:00 Embættisferill Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, er að verða með sérstakasta móti. Þekkt er að fólk sem velst til hárra embætta fyllist valdhroka og framkoma þess mótast af því. Þannig er komið fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur. Hún hyggst verða vondur embættismaður. Sigríður Björk hikar ekki við að ganga á bak eigin orða og svíkja það sem hún hefur sagt. Starfsfólk fréttastofu 365 hefur ítrekað reynt að fá viðtöl við lögreglustjórann. Oftast næst ekki í hana, hún ýmist sögð veik heima eða á lokuðum fundi, og það á sama tíma. Ekki stendur steinn yfir steini í flótta hennar. Stundum hefur fengist jákvætt svar um viðtal, sem er svo jafnharðan svikið. Þessi framganga og önnur er henni og ekki síst embættinu til mikils vansa. Áríðandi er að milli embættis lögreglustjóra og fjölmiðla sé gott samband og stundum samstarf. Eðli beggja er með þeim hætti. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður Björk, þá í embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, hafði virt lög að vettugi. Að hún hafi brotið landslög. Greinilegt er að ákveðið var að slá um hana skjaldborg. Ólöf Nordal innanríkisráðherra gekk fram fyrir skjöldu í því máli. Hvort það skaði Ólöfu að lokum er óvíst, en til þessa hafa allir innan stjórnsýslunnar, sem snert hafa á Lekamálinu, brennt sig – hafa skaðast. Hvort svo fer fyrir Ólöfu er óvíst. Svo mikið er víst að Sigríður Björk hefur með framgöngu sinni aukið líkurnar á að Ólöf eigi eftir að bíta úr nálinni með yfirlýstan stuðning sinn við lögreglustjórann, sem bæði hefur gerst brotlegur við landslög og sýnt að hann er ekki orðheldin manneskja. Þrátt fyrir allt segist Sigríður Björk ekki hafa svo mikið sem hugleitt hvort henni beri að segja af sér embætti. Það er merkilegt. Eftir að hafa verið borin þeim sökum að hafa starfað utan þess lagaramma sem henni ber að virða, hefur henni ekki einu sinni komið til hugar hvort embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu væri betur komið í höndum annarrar manneskju en hennar sjálfrar. Það hefur ekki einu sinni hvarflað að henni. Embætti lögreglustjóra er veigamikið embætti og þar þarf að sitja manneskja sem er hafin yfir allan vafa. Svo er ekki með Sigríði Björk. Ef lögbrot hennar er ekki svo alvarlegt að hún geti setið áfram, verður að segja sem er, að eftirleikurinn er ekki til þess fallinn að efla trú á ágæti lögreglustjórans. Lögreglustjóri á flótta frá fjölmiðlum er ekki mikill bógur. Hvað gerir slík manneskja þegar virkilega reynir á? Dugar þá að láta aðstoðarfólkið ýmist segja lögreglustjórann veikan eða að hann sé fundi? Auðvitað ekki. Embætti lögreglustjórans er hætt að snúast um brýn verkefni, lausnir, þróun og annað sem á að vera knýjandi. Í dag snýst það um manneskjuna sem situr í embættinu, embætti sem hún fékk úthlutað frá þeim innanríkisráðherra sem síðar sagði af sér vegna Lekamálsins, máls sem ætlar engan endi að taka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigurjón M. Egilsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun
Embættisferill Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, er að verða með sérstakasta móti. Þekkt er að fólk sem velst til hárra embætta fyllist valdhroka og framkoma þess mótast af því. Þannig er komið fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur. Hún hyggst verða vondur embættismaður. Sigríður Björk hikar ekki við að ganga á bak eigin orða og svíkja það sem hún hefur sagt. Starfsfólk fréttastofu 365 hefur ítrekað reynt að fá viðtöl við lögreglustjórann. Oftast næst ekki í hana, hún ýmist sögð veik heima eða á lokuðum fundi, og það á sama tíma. Ekki stendur steinn yfir steini í flótta hennar. Stundum hefur fengist jákvætt svar um viðtal, sem er svo jafnharðan svikið. Þessi framganga og önnur er henni og ekki síst embættinu til mikils vansa. Áríðandi er að milli embættis lögreglustjóra og fjölmiðla sé gott samband og stundum samstarf. Eðli beggja er með þeim hætti. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður Björk, þá í embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, hafði virt lög að vettugi. Að hún hafi brotið landslög. Greinilegt er að ákveðið var að slá um hana skjaldborg. Ólöf Nordal innanríkisráðherra gekk fram fyrir skjöldu í því máli. Hvort það skaði Ólöfu að lokum er óvíst, en til þessa hafa allir innan stjórnsýslunnar, sem snert hafa á Lekamálinu, brennt sig – hafa skaðast. Hvort svo fer fyrir Ólöfu er óvíst. Svo mikið er víst að Sigríður Björk hefur með framgöngu sinni aukið líkurnar á að Ólöf eigi eftir að bíta úr nálinni með yfirlýstan stuðning sinn við lögreglustjórann, sem bæði hefur gerst brotlegur við landslög og sýnt að hann er ekki orðheldin manneskja. Þrátt fyrir allt segist Sigríður Björk ekki hafa svo mikið sem hugleitt hvort henni beri að segja af sér embætti. Það er merkilegt. Eftir að hafa verið borin þeim sökum að hafa starfað utan þess lagaramma sem henni ber að virða, hefur henni ekki einu sinni komið til hugar hvort embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu væri betur komið í höndum annarrar manneskju en hennar sjálfrar. Það hefur ekki einu sinni hvarflað að henni. Embætti lögreglustjóra er veigamikið embætti og þar þarf að sitja manneskja sem er hafin yfir allan vafa. Svo er ekki með Sigríði Björk. Ef lögbrot hennar er ekki svo alvarlegt að hún geti setið áfram, verður að segja sem er, að eftirleikurinn er ekki til þess fallinn að efla trú á ágæti lögreglustjórans. Lögreglustjóri á flótta frá fjölmiðlum er ekki mikill bógur. Hvað gerir slík manneskja þegar virkilega reynir á? Dugar þá að láta aðstoðarfólkið ýmist segja lögreglustjórann veikan eða að hann sé fundi? Auðvitað ekki. Embætti lögreglustjórans er hætt að snúast um brýn verkefni, lausnir, þróun og annað sem á að vera knýjandi. Í dag snýst það um manneskjuna sem situr í embættinu, embætti sem hún fékk úthlutað frá þeim innanríkisráðherra sem síðar sagði af sér vegna Lekamálsins, máls sem ætlar engan endi að taka.