Íslenski boltinn

Tilfinningin er vissulega skrítin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Gíslason í leik með Breiðabliki í Pepsi-deildinni síðasta sumar.
Stefán Gíslason í leik með Breiðabliki í Pepsi-deildinni síðasta sumar. Vísir/Stefán
Stefán Gíslason, leikmaður Breiðabliks og fyrrverandi landsliðsmaður, hefur ákveðið að hætta knattspyrnuiðkun eftir langa baráttu við meiðsli. Stefán, sem lék sem atvinnumaður með sjö félögum í fimm löndum, er 34 ára gamall og lék á sínum tíma 32 A-landsleiki yfir sjö ára tímabil.

„Síðasta árið eða svo hef ég í raun verið stanslaust meiddur,“ sagði Stefán í samtali við Fréttablaðið í gær. „Ég hef getað spilað með en aldrei verið 100 prósent heill. Ég gat til að mynda lítið æft síðasta sumar.“

Stefán hefur verið að glíma við meiðsli í kálfa og aftan í læri og segir líklegt að þau eigi sér upptök í mjöðm eða baki. „Það er búið að skoða þetta í langan tíma og reyna ýmislegt. Ég hef lagt á mig mikla vinnu síðan í nóvember til að ná mér góðum en líkaminn segir bara stopp. Það er erfitt að hamast í þessu, ekki síst andlega, en ég hef verið lengi í þessu og nota líkamann mikið. Þetta er leiðinlegt og maður hefði viljað enda ferilinn öðruvísi en síðasta tímabil fór [hjá Breiðabliki],“ sagði Stefán en Blikar enduðu í sjöunda sæti Pepsi-deilar karla í haust.

Hann segir það furðulega tilhugsun að knattspyrnuferlinum sé lokið en Stefán mun nú snúa sér að þjálfun. „Ég hef verið að melta þetta síðan í síðustu viku og tilfinningin er vissulega skrítin. En ég er ánægður með minn feril. Ég hef yfirleitt spilað mikið hjá þeim félögum sem ég hef verið hjá og spilað með mörgum liðum í mörgum löndun,“ segir Stefán sem mun áfram starfa sem þjálfari hjá Breiðabliki.

„Ég hef verið að taka gráðurnar hjá KSÍ og hef starfað í 2. flokki með þeim Palla [Páli Einarssyni] og Dean [Martin]. Ég er afar áhugasamur og hef metnað til að klára að mennta mig í þjálfarafræðunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×