Lífið

Fá hárin til að rísa í grunna endanum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Sundhöllin Myndin Psycho verður sýnd í Sundbíói á laugardaginn.
Sundhöllin Myndin Psycho verður sýnd í Sundbíói á laugardaginn. Vísir/Stefán

„Okkur langaði til þess að hafa einhvern spennandi viðburð sem fengi hárin til að rísa og væri passlega ógnvekjandi. Við vildum líka sýna verk sem væri áhrifavaldur í kvikmyndasögunni,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, verkefnastjóri hjá RIFF, um sundbíó sem verður í Sundhöll Reykjavíkur næstkomandi laugardagskvöld.

Í sundbíóinu verður kvikmyndin Psycho eftir Alfred Hitchcock sýnd í grynnri enda laugarinnar. „Okkur fannst eitthvað svo fyndið að pæla í því hvernig það er að vera nýkomin úr sturtu, vera í vatni og horfa á eina frægustu kvikmyndasenu sögunnar þar sem sturtan í öllu sínu veldi er tekin fyrir,“ segir hún.

Sviðsmyndahönnuðurinn, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, hannaði umgjörð í kringum sýninguna og notaðist við tákn úr myndinni, persónur og sturtusenuna frægu.

„Það verður allavega ekki bara spennandi að fara ofan í laugina og horfa á myndina, það verður líka spennandi að fara í búningsklefann og gera sig til,“ segir Hallfríður og bætir dularfull við: „Það verður svo bara að koma í ljós hvað verður í sturtunum.“

Sundbíóið er hluti af dagskrá Sundlaugarnætur á Vetrarhátíð Reykjavíkur og hefst í Sundhöllinni á laugardaginn klukkan átta, aðgangur er ókeypis og eru gestir hvattir til þess að mæta tímanlega og er aldurstakmark tólf ára.

Hér má sjá umrætt atriði úr Psycho:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.