Lífið

Fengu 48 tíma til að gera verk um Charlie

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Viktoría Blöndal
Viktoría Blöndal Vísir/Stefán
„Þau héldu að það myndi enginn þora að taka þetta efni, en við tókum bara sénsinn og fórum með það alla leið,“ segir Viktoría Blöndal nemi í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

Hún og einn annar nemi í sömu deild héldu til Noregs í síðustu viku þar sem þau tóku þátt í 48 klukkutíma leikhúsfestivali, þar sem þau völdu sér viðfangsefnið „Je suis Charlie“ sem Viktoría leikstýrði. „Það voru nokkur tilbúin efni sem við máttum velja úr og við tókum þetta. Það var merkilegt að vinna þetta, ekki viku eftir að hryðjuverkin áttu sér stað og að auki að vinna þetta í Noregi eftir Breivik-málið,“ segir Viktoría.

Með henni í hóp voru nokkrir Norðmenn, ásamt fleirum frá Skandinavíu, og segir hún að í undirbúningnum hafi vaknað upp minningar frá ástandinu sem ríkti í Noregi 2010 og þau hafi tengt þetta mikið saman. „Við reyndum að gera þetta eins fallega og við gátum og af 100 prósent virðingu við þetta fólk. Þegar þú deyrð með blýantinn við hönd og segist ekki ætla að gefast upp, ætlar þú þá ekki að segja neitt?“ segir hún.

Hópurinn vakti mikla athygli úti og segir blaðamaður í dómi sínum á fréttavefnum sa.no að sig hafi langað til að kasta upp, gráta og fengið gæsahúð á sama tíma, svo magnað hafi verkið verið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×