Gagnrýni

Hundur í óskilum slær í gegn

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Eiríkur og Hjörleifur koma fram af mikilli innlifun í yndislegri og bráðfyndinni sýningu sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Eiríkur og Hjörleifur koma fram af mikilli innlifun í yndislegri og bráðfyndinni sýningu sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Hundur í óskilum

Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson

Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir

Leikmynd: Axel Hrafnkell Jóhannsson



Árið 2014 hélt hljómsveitin Hundur í óskilum, sem samanstendur af Eiríki Stephensen og Hjörleifi Hjartarsyni, upp á tuttugu ára starfsafmæli sitt. Í tilefni þess settu þeir saman sýninguna Öldin okkar sem frumsýnd var í Samkomuhúsinu á Akureyri fyrr í haust og hafa þeir nú fært sig um set á Nýja svið Borgarleikhússins.

Sýningin er í raun ekki leikrit heldur revía af gamla skólanum þar sem þeir félagar draga saman atburði síðustu fimmtán ára á Íslandi og rekja þróun hljómsveitarinnar úr einföldu árshátíðarbandi í Hundur í óskilum Group sem stofnuð var í góðærinu.

Upphaflega var hugmyndin sú að gera risastóra sýningu með dansmeyjum, þjóðþekktum leikurum og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands en eftir hrun var nauðsynlegt að draga saman seglin og einungis þeir eru eftirstandandi.

Eiríkur og Hjörleifur eru án efa með bestu textahöfundum starfandi á landinu í dag og virðast hafa lítið fyrir því að leika sér með íslenska málið hvort sem það er í formi mismunandi bragarhátta, íslenskra staðaheita eða orðaleikja.

Hofinu á Akureyri er lýst sem „Stalíntertu“ og Harpan í Reykjavík er ekkert annað en „biluð diskóbrauðrist“.

En ballið er rétt að byrja því þeir takmarka sig ekki við móðurmálið heldur syngja þeir Eurovisionlag á norsku, stílfæra amerískt rapplag á íslensku, fara með Queen á dönsku og vippa Stuðmönnum yfir á þýsku, allt með beinum vísunum í íslenskan raunveruleika.

Slíkir orðafimleikar eru bara á færi einstakra hæfileikamanna svo ekki sé nú minnst á hljóðfæraleikinn.

Fyrir utan rafmagnsgítar, bassa og kontrabassa spila þeir á hækjur, þrjár blokkflautur í einu, hárblásara og tromma á sérútbúið pottasett. Risastór og gríðarlega flókin heimasmíðuð hljóðfæri eru færð fram á sviðið, kannski bara í eitt lag, en það er algjörlega þess virði.

Leikmynd Axels Hrafnkels Jóhannssonar samanstendur af forláta viðarbrettum þar sem hljóðfæri er að finna í hverju skúmaskoti og passar hún vel við lágstemmda nálgun þeirra félaga þar sem krafturinn kemur úr sviðsframkomu frekar en prjáli.

Sömu sögu má segja um leikstjórn Ágústu Skúladóttur en hún er til þess gerð að styðja við flutning dúósins frekar en að flækja málin eitthvað frekar. Hundur í óskilum fyllir rýmið með einstakri orku, auðmjúkri framkomu og dúndrandi hljóðfæraleik.

Erfiljóðið sem Hjörleifur fékk ekki leyfi til að gefa út sem minningargrein en fer þess í stað með í sýningunni er besta grínatriði leikársins hingað til.

Danstaktar Eiríks á meðan þeir rappa um Jamaíkuferð Björgúlfsfeðganna eru sömuleiðis algjörlega óborganlegir.

Leikgleði, umkomuleysi og einlægni einkenna alla sviðsframkomu og slíkt er hressandi í listaumhverfi landsins.

DO með bláu höndina, fylgihluturinn Dóri, Jóhanna og Ólafur Ragnar fá öll rækilega á baukinn, líka bankastarfmenn, fégráðugt viðskiptafólk og hinn almenni borgari sem sökkti sér í lífsgæðakapphlaupið. Þeir eru óhræddir við að vera beittir í þjóðfélagsgagnrýninni og hafa einstakt sjónarhorn á íslenska tilveru.

Myndlíkingarnar eru oft teygðar út í hið óendanlega eins og frábær kafli þar sem koma Bobby Fischer til Íslands er framsett sem eins konar manngangur og Keikó kemur einnig við sögu. Þeir leyfa sér stundum aðeins að ganga of langt með fimmaurabrandarana og klósetthúmorinn en það er allt hluti af revíustílnum.

Hundur í óskilum hefur nú starfað í tuttugu ár en aldurinn sést aldeilis ekki á þeim. Eiríkur og Hjörleifur koma fram af mikilli innlifun í yndislegri og bráðfyndinni sýningu sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Niðurstaða: Áhorfendur eiga eftir að veltast um úr hlátri. Stórskemmtileg sýning þar sem hugmyndaauðgi, einlægni og beittur húmor ráða ríkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.