Gagnrýni

Skrykkjótt en áhugavert ferðalag

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Nína Dögg náði bæði að sýna viðkvæmu hliðar Blanche en líka tilgerðarlega kímnigáfu hennar, segir í dómnum.
Nína Dögg náði bæði að sýna viðkvæmu hliðar Blanche en líka tilgerðarlega kímnigáfu hennar, segir í dómnum. Mynd/Þjóðleikhúsið
Sporvagninn Girnd

eftir Tennessee Williams

Þjóðleikhúsið

Leikstjóri: Stefán Baldursson

Leikendur: Nína Dögg Filippusdóttir, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Edda Arnljótsdóttir, Pálmi Gestsson, Hallgrímur Ólafsson, Ísak Hinriksson, Baldur Trausti Hreinsson og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Leikmynd: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson

Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson

Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson

Taugastrekkt kona stendur með ferðatösku í subbulegri íbúð í New Orleans. Hitinn er nánast óbærilegur í borginni en hún skelfur örlítið. Blanche DuBois tók sporvagn til Ódáinsvalla þar sem örlögin bíða hennar. Verkið er auðvitað Sporvagninn Girnd, eitt af þekktustu leikritum tuttugustu aldarinnar, og er fagnaðarefni að Tennessee Williams rati aftur á fjalirnar.

Stefán Baldursson, fyrrverandi þjóðleikhús- og óperustjóri, snýr aftur á kunnuglegar slóðir óhræddur við að snúa upp á hefðina. Verra er að tilraunirnar ganga sjaldan upp. Sýningin höktir frá byrjun og fyrir hlé vantaði allan kraft í framvinduna. Tempóið í sýningunni nær aldrei stöðugum takti; sumar senurnar eru teygðar og aðrar framsettar í flýti. Óbærilegur hiti New Orleans er sjaldan undirstrikaður á skilvirkan hátt en mollan verður að vera eins og aukapersóna í verkinu.

Nína Dögg Filippusdóttir leikur Blanche DuBois. Hlutverkið er gífurlega erfitt og krefst mikillar hæfni að ná bæði harminum og húmornum sem hún ber með sér. Nína Dögg byrjaði hálf brösulega en óx ásmeginn þegar líða tók á sýninguna, sérstaklega eftir hlé þegar taugaveiklunin nær yfirhöndinni. Þá náði hún bæði að sýna hinar viðkvæmu hliðar Blanche en líka tilgerðarlega kímnigáfu hennar.

Eitt af helstu vandamálum sýningarinnar er að Nínu Dögg vantar sterkari mótleik. Stefán tók virðingarverða áhættu með því að ráða nýútskrifaðan leikara í hlutverk Stanleys en eins og með annað í sýningunni borgar áhættan sig ekki.

Þrátt fyrir ógnandi framkomu nær Baltasar Breki Samper aldrei nægilega góðum tökum á þessu krefjandi hlutverki. Hann spígsporar um íbúðina eins og ljón í búri, tilbúinn í næstu árás en blæbrigðin vantar. Þau koma með reynslunni. Lára Jóhanna Jónsdóttir fer með hlutverk Stellu, systur Blanche sem hefur sagt skilið við fortíðina og vill skapa sér öðruvísi framtíð með Stanley. Hún var heldur ekki nægilega góð og frekar einsleit, bæði í leik og raddbeitingu.

Hinn misheppnaða Mitch leikur Guðjón Davíð Karlsson en hann var heldur ekki nægilega sannfærandi. Hann hittir þó í mark í lokasenunni. En Ísak Hinriksson á skilið hrós fyrir sitt smáa en mikilvæga hlutverk sem ungi pilturinn sem Blanche heillast af í stundarkorn. Önnur hlutverk eru smá en Pálmi Gestsson og Edda Arnljótsdóttir ná vel saman sem brussulegu hjónin á efri hæðinni.

Erfitt er að ræða grundvallarbreytingu á handritinu en lokaátök Blanche og Stanleys fara í mjög óvænta átt og vert er að spyrja hvort svo gróf breyting sé réttmæt. Síðustu setningar senunnar hafa líka verið klipptar út. Innri átök verksins breyta þannig algjörlega um stefnu og lokasena verksins verður óskýr.

Leikmynd Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur var alls ekki nógu góð, bæði var hún óspennandi og óhentug verkinu. Grunnskipulag leikmyndarinnar er mjög skrítin og persónur virtust geta gengið í gegnum veggi. Að setja baðherbergið, þar sem Blanche dvelur löngum stundum, á jafn áberandi stað er spennandi hugmynd en útfærslan var afleit. Lýsingin inni í klefanum var ekki nægilega góð til að hugmyndin fengi að njóta sín, sem og reyndar lýsingin almennt.

Magnús Arnar Sigurðarson gerir ágætlega í ljósahönnuninni en ekkert nýtt er á boðstólum.

Hljóðmyndin var aftur á móti virkilega fín; óvenjuleg en með klassískum áherslum. Saxófónstef eru áberandi en poppið fær líka að njóta sín í vinnu Elvars Geirs Sævarssonar. Þess væri óskandi að búningar Filippíu I. Elísdóttur hefðu verið jafn spennandi. Búningaskipti eru tíð en fáir búningar eftirminnilegir, nema kannski gömlu glamúrfötin hennar Blanche.

Karl Ágúst Úlfsson sér um nýju þýðinguna en nær ekki að framkalla þá dýpt sem liggur í texta Williams þrátt fyrir ágæta kafla. Blanche á ekki heima í þessu umhverfi og orðaval hennar verður að undirstrika það. Örlagasaga hennar um unga drenginn sem hún elskaði verður of augljós í þýðingunni, atburðir eru útskýrðir af Stellu en ekki gefnir í skyn. Belle Reve verður að Draumaslóð sem hljómar eins og götuheiti í úthverfi en ekki glæsilegt ættaróðal.

Blanche DuBois berst við að færa töfra og drauma inn í ískaldan raunveruleikann sem ber hana stöðugt á bak aftur. Nína Dögg stendur sig með prýði en yfirborðskennd leikstjórn og skortur á sterkum mótleik er henni til ama.

Niðurstaða: Óstöðug en áhugaverð sýning. Nína Dögg verður sterkari með hverri senu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×