Sport

Aníta komin á Ólympíuleikana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aníta Hinriksdóttir keppir á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn næsta sumar.
Aníta Hinriksdóttir keppir á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn næsta sumar. vísir/getty
Aníta Hinriksdóttir, hlaupadrottningin úr ÍR, er komin með keppnisrétt í 800 metra hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu sem fara fram í ágúst á næsta ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, gerði í gær breytingar á lágmörkum í nokkrum greinum fyrir leikana á næsta ári og þar á meðal var lágmarkið lækkað í 800 metra hlaupi kvenna.

Lágmarkinu var breytt úr 2:01,00 mínútur í 2:01,50 mínútur. Aníta Hljóp best í sumar á 2:01,01 sem var mikið svekkelsi því hún var aðeins einum hundraðasta frá lágmarkinu. Sá tími dugar henni nú inn á leikana.

„Þetta kemur til með að gjörbreyta okkar undirbúningi fyrir komandi ár. Nú getum alfarið einbeitt okkur að undirbúningi fyrir leika með það að markmiði að Aníta verði á toppnum þegar leikarnir fara fram,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, í samtali við Morgunblaðið.

Aníta, sem verður tvítug í janúar, keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti fullorðinna í Peking í sumar þar sem hún náði lágmarkinu um ræðir. Nú keppir hún næsta sumar á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn. Aníta varð eins og flestir vita heims- og Evrópumeistari unglinga fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×