Heilsa

Endurmetum jól og hefðir

ásdís herborg ólafsdóttir skrifar
Vísir/Getty

Margt hjálpast að við það í þjóðfélaginu að skrúfa upp væntingar um hvernig jólin eigi að vera. Það er bara að opna fjölmiðla, sama hvers konar fjölmiðla. Já, í rauninni er bara nóg að hafa augu og eyru opin, alls staðar er eitthvað sem minnir á að jólin eru að nálgast. Ef maður ætti að taka mark á öllum auglýsingunum og írafárinu, þá er ansi margt sem er gjörsamlega ómissandi fyrir jólin. Reyndin er önnur, það er hægt að halda jól á mismunandi hátt, það þarf ekki að fara eftir ákveðinni uppskrift.

Jólahefðir

Einu sinni var ungt par ­nýfarið að búa. Þau ætluðu að halda sín fyrstu jól saman og ákváðu að hafa lambalæri á aðfangadagskvöld eins og tíðkaðist í fjölskyldum beggja. Hún sagði að þau yrðu að fá það sagað í tvennt, hann skildi ekki af hverju það þyrfti og vildi steikja lærið í einu lagi. Nei, það tíðkaðist í hennar fjölskyldu að saga lærið í tvennt og svona skyldi það vera. Hann vildi vita ástæðuna fyrir þessu, hún gat ekki svarað því og hringdi í mömmu sína til að spyrja. Mamma hennar svaraði að svona hefði þetta alltaf verið í hennar fjölskyldu en hún vissi í rauninni ekki af hverju þetta væri betra en að steikja lærið í heilu lagi. 

Hún skyldi hringja í mömmu sína og spyrja. Það sýndi sig að amman hafði verið með svo lítinn ofn að eina leiðin til að koma lærinu fyrir var að saga það í tvennt.

Í síbreytilegum heimi getur verið mjög gott og notalegt og öryggi í því að halda fast í hefðirnar. Fjölskylduhefðir verða aldrei greinilegri en á jólunum en þær geta orkað tvímælis. Fyrir suma getur það þýtt gífurlegt stress að ætla að halda þeim við.

Vísir/Getty

Tilfinningar

Jól hafa mjög mismunandi þýðingu fyrir fólk en það sem ég held að sé hægt að staðhæfa er að þau beina kastljósi að tilfinningum. Þær verði skýrari en á öðrum tímum, allt verður greinilegra, bæði vanlíðan og vellíðan.

Af því það er svo sterk áhersla lögð á það að jólin séu fjölskyldu­hátíð verður það greinilegt ef það eru átök og ósætti innan fjölskyldunnar. Þó að allt sé í sátt og samlyndi er það stundum svo að maður getur ekki haldið jól með þeim sem mann langar til að halda jól með og erfiðar tilfinningar eins og sorg, söknuður og einmanaleiki verða mjög áþreifanlegar.

Mörg eru jólaævintýrin og jólasöngvarnir sem fjalla um nánd og samhyggju og margir hlýja sér við góðar minningar frá jólunum og hlakka til að halda jól með sínum nánustu. Margir koma „heim“ um jólin, hvar sem þeir annars eru staddir í tilverunni.

Margar hamingjurannsóknir sýna fram á að það að gera eitthvað fyrir aðra eykur þína eigin hamingju. Ef þú óskar þér gleðilegra jóla er eitt af því sem þú getur gert að gleðja aðra.



Gleðileg jól:

Hérna er nokkrar tillögur að því hvað þú getur gert til að öðlast gleðileg jól:

  1. Gerðu þér grein fyrir hvaða væntingar þú hefur til jólanna. Eru þær raunhæfar?
  2. Hvaða væntingar hafa aðrir til þín um jólin? Spurðu. Eru þær raunhæfar?
  3. Hvernig getur þú glatt aðra um jólin?

    Ásdís starfar sem sálfræðingur hjá Heilsustöðinni.

Tengdar fréttir

Upplifir þú oft reiði?

Þá er gott að vita að þó að reiði sé sterk tilfinning þá þarf hún alls ekki að vera tjáð með þvílíku offorsi. Hún á sér margar hliðar og getur líka verið uppbyggjandi allt eftir aðstæðum.

Er í lagi að vera einmana?

Öll höfum við upplifað einmanaleika á einhverjum tímapunkti í lífinu sama hvort það er okkar eigin upplifun eða ekki. Það er líka misjafnt hvernig við skilgreinum einmanaleika og öll upplifum við hann á mismunandi hátt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.