Lífið

Bestu innlendur plötur 2015: Ár rappsins

Gísli Pálmi trónir á toppi lista Fréttablaðsins yfir plötur ársins.
Gísli Pálmi trónir á toppi lista Fréttablaðsins yfir plötur ársins.
Rapparinn Gísli Pálmi á bestu plötu ársins, að mati álitsgjafa Fréttablaðsins. Platan, sem ber einfaldlega titilinn Gísli Pálmi, kemst á listann hjá ellefu af fimmtán álitsgjöfum og sex þeirra setja hann í efsta sætið. Í öðru sæti kemur rappsveitin Úlfur Úlfur, sem gaf út plötuna Tvær plánetur. Hún kemst á lista tíu álitsgjafa og er í efsta sæti hjá tveimur þeirra.

Í þriðja sæti er Agent Fresco, en platan Destrier kemst á lista átta álitsgjafa, þar af í efsta sæti hjá einum þeirra. Fjórða sætið vermir svo Björk, sem kemst á lista fimm álitsgjafa og er í toppsætinu hjá tveimur þeirra. Í fimmta sætinu er dj. flugvél og geimskip, með plötuna Nótt á hafsbotni.







Gísli Pálmi á plötu ársins, að mati álitsgjafa Fréttablaðsins.
Kom eins og sprengja

Platan Gísli Pálmi kom eins og sprengja inn í íslenskt tónlistarlíf, þegar hún kom út í apríl. Gísli Pálmi sagði frá plötunni í viðtali viðtali við Fréttablaðið í mars og vakti málið strax athygli. Þegar platan kom svo út rokseldist hún og komst á stall með plötunni Kveikur með Sigur Rós, þegar sölutölur á fyrsta degi voru skoðaðar. Það staðfesti Ásmundur Jónsson, eigandi plötuútgáfunnar og verslunarinnar Smekkleysu, sem gaf plötu Gísla Pálma út.

Platan fékk góða dóma hjá gagnrýnendum, meðal annars fjórar stjörnur frá Fréttablaðinu. Textarnir á plötunni vöktu sérstaka athygli, en í þeim lýsir Gísli Pálmi hliðum Reykjavíkurborgar sem fáir hafa innsýn í. Rithöfundurinn Mikael Torfason lýsti plötunni sem „Ísbjarnarblús sinnar kynslóðar“.





Úlfur Úlfur er í 2. sæti á listanum.
Ótrúlegar vinsældir

Rappsveitin Úlfur Úlfur vakti mjög mikla athygli þegar hún gaf út plötuna Tvær plánetur. Platan kom út í júní og fangaði strax hjörtu landsmanna. „Þetta er plata sem við höfum unnið markvisst að. Hún er mun heilsteyptari og hvert lag er í raun kafli í sömu sögunni,“ sagði Helgi Sæmundur Guðmundsson, annar liðsmanna sveitarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Mörg lög á plötunni urðu vinsæl, þá kannski sérstaklega lagið Brennum allt og vakti myndbandið við það sérstaka athygli.

Óhætt er að segja að útgáfutónleikar sveitarinnar hafi verið einstaklega vel heppnaðir, en sveitin troðfyllti Gamla bíó og var stemningin ógleymanleg.





Lof gagnrýnenda

Platan Destrier með Agent Fresco vakti verðskuldaða athygli á árinu. Erlendir gagnrýnendur kepptust við að lofa plötuna eftir að hún kom út í ágúst. Sveitin gerði samning við bandarísku bókunarskrifstofuna Infinity Records og var fyrsta Bandaríkjaferð sveitarinnar skipulögð. Líkt og hjá Gísla Pálma og Úlfi Úlfi voru útgáfutónleikar Agent Fresco ákaflega vel heppnaðir. Gagnrýnandi Fréttablaðsins gaf sveitinni fimm stjörnur fyrir frammistöðuna á tónleikunum og sagði fagmennskuna hafa verið í fyrirrúmi, að tónleikarnir hefðu verið algjörlega frábærir.





Agent Fresco er í þriðja sæti listans.
Björk

Björk er Björk, hún þarfnast engrar nánari kynningar. Platan hennar Vulnicura vakti – eins og venja er þegar Björk á í hlut – heimsathygli þegar hún kom út. Gagnrýnandi Fréttablaðsins gaf Björk fimm stjörnur. Hann kallaði plötuna „ótrúlegt listaverk“.

Björk átti stundum í vandræðum með að tjá sig um efnistök plötunnar í fjölmiðlum, enda verkið einstaklega persónulegt. „Ég stóð mig að því að skapa verk sem býr yfir sárri sorg. Ég er svolítið hissa hversu rækilega ég hafði skráð þetta í nánast tilfinningalegri tímaröð,“ sagði hún á heimasíðu sinni skömmu eftir útgáfuna.

Tyggjótattú

Steinunn Harðardóttir, betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip, hefur alltaf vakið athygli í íslensku tónlistarsenunni. Hún gaf út sína aðra plötu á árinu, sem fékk titilinn Nótt á hafsbotni. Hún segir plötuna vera dekkri en frumburð hennar, Glamúr í geimnum, sem kom út árið 2013. „Ég er rosa ánægð með plötuna. Ég fór út í sveit að taka hana upp og það var svo mikill draugagangur þar, líka frost og ekkert símasamband. Þess vegna er hún frekar dökk og drungaleg.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.