Kamelljón skiptir um lit Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 21. nóvember 2015 07:00 Þegar kemur að forsetakosningum 2016 verður Ólafur Ragnar Grímsson forseti búinn að sitja 20 ár á valdastóli. Hann er meðal allra þaulsetnustu þjóðarleiðtoga að konungbornum frátöldum. Forsetinn er pólitískt kamelljón. Þegar hann tók við embætti árið 1996 hafði hann nýverið látið af störfum sem formaður Alþýðubandalagsins, en hafði áður verið í Framsókn með millilendingu í Möðruvallahreyfingunni og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Kjör Ólafs þótti ósigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á síðari árum hefur Ólafur Ragnar sótt stuðning í raðir fyrri andstæðinga. Mestu réð líklega framganga hans í Icesave-málinu. Þar spilaði hann ítrekað rússneska rúllettu og slapp. Það var hans sigurstund og mesta afrek að margra dómi. En að því var lengri aðdragandi. Vinstrimaðurinn Ólafur Ragnar var á árunum fyrir hrun dyggur stuðningsmaður viðskiptalífsins og þótti mörgum nóg um. Ólafi tókst að vinna sér nýtt bakland og skipta um fylgi. Dæmigert fyrir hið pólitíska kamelljón. Annað sem einkennt hefur forsetaferil Ólafs Ragnars er að tala óskýrt um eigin framtíð – halda þjóðinni í óvissu um hvort hann gefi kost á sér til endurkjörs. Vafalaust er þetta merki um sjálfsöryggi forsetans, sem ef til vill telur að vangaveltur um hvað hann hyggst fyrir séu helsta skemmtan landsmanna. Stefið er orðið kunnuglegt, atburðarásin endurtekin. Fyrir kosningarnar 2012 var það „óvissa um stjórnarskrána og stöðu forsetans í henni, umrót í flokkakerfinu og í þjóðmálum varðandi átök um fullveldi Íslands“. Ólafur Ragnar brá sér í það skiptið í gervi bjargvætts þjóðarinnar frá Icesave og nýrri stjórnarskrá. Í viðtali í vikunni, sem tekið var vegna hryðjuverkaárásanna í París, hvatti forsetinn Íslendinga til að vakna til meðvitundar gagnvart öfgafullri íslamstrú. Hann reiddi hátt til höggs og sagði framgöngu íslamista mestu ógn sem hafi steðjað að frjálsu lýðræðislegu þjóðfélagi frá tímum nasismans. Að halda að við Íslendingar værum undanskilin frá þessari ógn væri barnsleg einfeldni, enda væru þess nú þegar dæmi að talsmenn erlends ríkis skiptu sér af innlendum trúarbrögðum. Væntanlega átti Ólafur þarna við Sádi-Arabíu. Þeim sem fylgst hafa með ferli Ólafs Ragnars kemur ekki á óvart að forsetinn sé áberandi og marki sér vígstöðu í málefnum nú þegar styttast fer í kosningar. Við höfum séð það áður. Hins vegar er nýlunda að forsetinn velji sér svo eldfimt og popúlískt mál til að auka vinsældir sínar. Forsetinn sem áður var framsóknarmaður og síðar sósíalisti hefur lokið för sinni. Hann hefur nú spannað allt hið pólitíska litróf. Íslendingar eiga að vera vakandi fyrir hryðjuverkaógninni eins og aðrar þjóðir. En talsmenn þjóðarinnar mega ekki ala á sundrungu og úlfúð til að tryggja sér fylgi þeirra óttaslegnu. Jafnvel þótt eitt kjörtímabil til sé í húfi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Þegar kemur að forsetakosningum 2016 verður Ólafur Ragnar Grímsson forseti búinn að sitja 20 ár á valdastóli. Hann er meðal allra þaulsetnustu þjóðarleiðtoga að konungbornum frátöldum. Forsetinn er pólitískt kamelljón. Þegar hann tók við embætti árið 1996 hafði hann nýverið látið af störfum sem formaður Alþýðubandalagsins, en hafði áður verið í Framsókn með millilendingu í Möðruvallahreyfingunni og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Kjör Ólafs þótti ósigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á síðari árum hefur Ólafur Ragnar sótt stuðning í raðir fyrri andstæðinga. Mestu réð líklega framganga hans í Icesave-málinu. Þar spilaði hann ítrekað rússneska rúllettu og slapp. Það var hans sigurstund og mesta afrek að margra dómi. En að því var lengri aðdragandi. Vinstrimaðurinn Ólafur Ragnar var á árunum fyrir hrun dyggur stuðningsmaður viðskiptalífsins og þótti mörgum nóg um. Ólafi tókst að vinna sér nýtt bakland og skipta um fylgi. Dæmigert fyrir hið pólitíska kamelljón. Annað sem einkennt hefur forsetaferil Ólafs Ragnars er að tala óskýrt um eigin framtíð – halda þjóðinni í óvissu um hvort hann gefi kost á sér til endurkjörs. Vafalaust er þetta merki um sjálfsöryggi forsetans, sem ef til vill telur að vangaveltur um hvað hann hyggst fyrir séu helsta skemmtan landsmanna. Stefið er orðið kunnuglegt, atburðarásin endurtekin. Fyrir kosningarnar 2012 var það „óvissa um stjórnarskrána og stöðu forsetans í henni, umrót í flokkakerfinu og í þjóðmálum varðandi átök um fullveldi Íslands“. Ólafur Ragnar brá sér í það skiptið í gervi bjargvætts þjóðarinnar frá Icesave og nýrri stjórnarskrá. Í viðtali í vikunni, sem tekið var vegna hryðjuverkaárásanna í París, hvatti forsetinn Íslendinga til að vakna til meðvitundar gagnvart öfgafullri íslamstrú. Hann reiddi hátt til höggs og sagði framgöngu íslamista mestu ógn sem hafi steðjað að frjálsu lýðræðislegu þjóðfélagi frá tímum nasismans. Að halda að við Íslendingar værum undanskilin frá þessari ógn væri barnsleg einfeldni, enda væru þess nú þegar dæmi að talsmenn erlends ríkis skiptu sér af innlendum trúarbrögðum. Væntanlega átti Ólafur þarna við Sádi-Arabíu. Þeim sem fylgst hafa með ferli Ólafs Ragnars kemur ekki á óvart að forsetinn sé áberandi og marki sér vígstöðu í málefnum nú þegar styttast fer í kosningar. Við höfum séð það áður. Hins vegar er nýlunda að forsetinn velji sér svo eldfimt og popúlískt mál til að auka vinsældir sínar. Forsetinn sem áður var framsóknarmaður og síðar sósíalisti hefur lokið för sinni. Hann hefur nú spannað allt hið pólitíska litróf. Íslendingar eiga að vera vakandi fyrir hryðjuverkaógninni eins og aðrar þjóðir. En talsmenn þjóðarinnar mega ekki ala á sundrungu og úlfúð til að tryggja sér fylgi þeirra óttaslegnu. Jafnvel þótt eitt kjörtímabil til sé í húfi.