"Barnaleg einfeldni“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 23. nóvember 2015 07:00 Forseti Íslands minnti á það í kjölfar hryðjuverkanna í París að hatursfullt tal um íslam og múslima almennt væri einungis vatn á myllu ódæðismannanna og til marks um að þeim hefði tekist ætlunarverk sitt. Fáir lögðu eyrun við þeim tímabæru varnaðarorðum, hvorki andstæðingar forsetans né aðdáendur. Þeim mun meiri athygli vakti hins vegar annað sem hann sagði af þessu tilefni í viðtölum hér og þar. Það var eitthvað á þá leið að öfgafullt íslam sé „mesta vá okkar tíma“ og sá vandi verði ekki leystur með „barnalegri einfeldni“ eða „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“. Umburðarlyndi er dyggðVið þessi orð er ýmislegt að athuga. Fyrst orðalagið: Forseti lýðveldisins á helst ekki að nota orð eins og „umburðarlyndi“ í neikvæðri merkingu. Það mætti meira að segja hæglega rökstyðja það að eitt helsta hlutverk forseta sé einmitt að hvetja landsmenn sína til umburðarlyndis gagnvart hver öðrum, en ekki að etja þeim saman. Kannski erfitt að vera „sameiningartákn“ nú á dögum en samt óþarfi að tala eins og „sundrungartákn“. Forseti lands, „ábyrgðarlaus gagnvart stjórnarathöfnum,“ á helst ekki að tala inn í hugarfar eins hluta þjóðarinnar, og alls ekki þess hluta sem andvígur er „umburðarlyndi“. Umburðarlyndi er megindyggð. Óheppilegt og hálfleiðinlegt er líka orðalagið um „barnalega einfeldni“; þar höfðar forsetinn til þeirra sem tíðrætt er um „naívisma“, sem lýsi sér til dæmis í meintu andvaraleysi gagnvart innflytjendum, eins og þeir séu stjórnmálaflokkur en ekki bara alls konar fólk. Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna og honum ber að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir aðkasti að ósekju. Svona tal er ekki til þess fallið, nema síður sé. Og almennt talað: Það er ósiður að nota orð sem tengjast börnum og hinu barnalega í neikvæðri merkingu eða sem skammaryrði. Þar eimir eftir af gamalla íslenskri barna-andúð. Það sýnir leiðinlegan þankagang og skilningsleysi á því mikla dýrmæti sem felst einmitt í tærum og frjóum barnshuganum og hinu barnslega viðhorfi. Ætli orðið „fréttabörn“ sé ekki ljótasta orð íslenskrar tungu? Hatur er ódyggðÞað er eðlilegt að óttast hið ókunna og ekki endilega til marks um heimsku eða illt innræti. Það er mannlegt viðbragð, og óþarfa sjálfsupphafning að saka það fólk um „rasisma“ sem stendur beygur af ljótum og ankannalegum hugmyndum og þeim sem þær aðhyllast. Öfgafullt íslam er raunveruleg og hrikaleg vá þó að hún sé auðvitað ekki „mesta vá okkar tíma“. Eigi á annað borð að standa í slíkum jöfnuði – sem er afar hæpið að gera – er ýmislegt sem mannkyni stendur meiri hætta af en íslamskir öfgamenn. Þar má nefna loftslagsvána, og gjörtækt hæfileikaleysi mannkyns til að horfast í augu við afleiðingarnar sem lífshættir þess hafa fyrir lífið á Jörðinni og framtíð mannkyns. Þessi vandi er miklu stærri þáttur í ófriðarblikum en nokkurn tímann rausið í Múhameð spámanni í sjálfu sér. Önnur ógn sem þarf að hafa í huga er sú ægilega misskipting auðs sem lýsir sér í eignarhaldi æ færri á æ stærri auðlindum og verðmætum; sú hugmynd að ranglætið borgi sig ævinlega en réttlæti verði aldrei við komið af því að það sé svo óhagkvæmt – hún getur ekki ekki annað en leitt stórfelldan ófarnað yfir mannkynið, stríð og hörmungar. Og svo eru það vondu og spillandi hugmyndirnar: hatrið sem grasserar í skúmaskotum umræðu og samfélaga. Öfgafullt íslam er ein af hrikalegustu birtingarmyndum þess en alls ekki sú eina: þar sem ungt fólk (oft karlmenn) kemur sér saman um að búa sér til andstæðing sem ekki hafi sama rétt til að lifa og þeir sjálfir; og þeir sjálfir séu á guðs vegum þegar þeir taki sér rétt til að binda enda á líf annarra. Við sjáum þetta í mönnum eins og Breivik í Noregi. Við sjáum þetta í Svíþjóð og Finnlandi og fyrrum kommúnistaríkjum þar sem fasískum hreyfingum vex fiskur um hrygg. Við sjáum þetta í vopnavæðingu hatursfullra manna í Bandaríkjunum. Rugluð ungmenni ganga þar inn í skólastofur og skjóta allt sem fyrir verður. Framferði þeirra er hryllilegt og óskiljanlegt en ég er samt ekki í þriðju heimsstyrjöldinni við þau. Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra: Maður er alveg jafn dauður þó að maður hafi verið skotinn af hægri öfgamanni af þeirri tegund sem meira hafa látið að sér kveða með sprengjum en múslimar í Evrópu. Öfgar eru vá. Hatur er ódyggð. Vanþekking, vanmetakennd, andleg fátækt, iðjuleysi, ranghugmyndir… Ekki er víst að aðgerðir „á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“ nái ævinlega að uppræta þetta allt saman og hatrið og dauðadýrkunina en vandséð er að aðgerðir á nokkrum öðrum sviðum séu vænlegri til árangurs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun
Forseti Íslands minnti á það í kjölfar hryðjuverkanna í París að hatursfullt tal um íslam og múslima almennt væri einungis vatn á myllu ódæðismannanna og til marks um að þeim hefði tekist ætlunarverk sitt. Fáir lögðu eyrun við þeim tímabæru varnaðarorðum, hvorki andstæðingar forsetans né aðdáendur. Þeim mun meiri athygli vakti hins vegar annað sem hann sagði af þessu tilefni í viðtölum hér og þar. Það var eitthvað á þá leið að öfgafullt íslam sé „mesta vá okkar tíma“ og sá vandi verði ekki leystur með „barnalegri einfeldni“ eða „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“. Umburðarlyndi er dyggðVið þessi orð er ýmislegt að athuga. Fyrst orðalagið: Forseti lýðveldisins á helst ekki að nota orð eins og „umburðarlyndi“ í neikvæðri merkingu. Það mætti meira að segja hæglega rökstyðja það að eitt helsta hlutverk forseta sé einmitt að hvetja landsmenn sína til umburðarlyndis gagnvart hver öðrum, en ekki að etja þeim saman. Kannski erfitt að vera „sameiningartákn“ nú á dögum en samt óþarfi að tala eins og „sundrungartákn“. Forseti lands, „ábyrgðarlaus gagnvart stjórnarathöfnum,“ á helst ekki að tala inn í hugarfar eins hluta þjóðarinnar, og alls ekki þess hluta sem andvígur er „umburðarlyndi“. Umburðarlyndi er megindyggð. Óheppilegt og hálfleiðinlegt er líka orðalagið um „barnalega einfeldni“; þar höfðar forsetinn til þeirra sem tíðrætt er um „naívisma“, sem lýsi sér til dæmis í meintu andvaraleysi gagnvart innflytjendum, eins og þeir séu stjórnmálaflokkur en ekki bara alls konar fólk. Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna og honum ber að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir aðkasti að ósekju. Svona tal er ekki til þess fallið, nema síður sé. Og almennt talað: Það er ósiður að nota orð sem tengjast börnum og hinu barnalega í neikvæðri merkingu eða sem skammaryrði. Þar eimir eftir af gamalla íslenskri barna-andúð. Það sýnir leiðinlegan þankagang og skilningsleysi á því mikla dýrmæti sem felst einmitt í tærum og frjóum barnshuganum og hinu barnslega viðhorfi. Ætli orðið „fréttabörn“ sé ekki ljótasta orð íslenskrar tungu? Hatur er ódyggðÞað er eðlilegt að óttast hið ókunna og ekki endilega til marks um heimsku eða illt innræti. Það er mannlegt viðbragð, og óþarfa sjálfsupphafning að saka það fólk um „rasisma“ sem stendur beygur af ljótum og ankannalegum hugmyndum og þeim sem þær aðhyllast. Öfgafullt íslam er raunveruleg og hrikaleg vá þó að hún sé auðvitað ekki „mesta vá okkar tíma“. Eigi á annað borð að standa í slíkum jöfnuði – sem er afar hæpið að gera – er ýmislegt sem mannkyni stendur meiri hætta af en íslamskir öfgamenn. Þar má nefna loftslagsvána, og gjörtækt hæfileikaleysi mannkyns til að horfast í augu við afleiðingarnar sem lífshættir þess hafa fyrir lífið á Jörðinni og framtíð mannkyns. Þessi vandi er miklu stærri þáttur í ófriðarblikum en nokkurn tímann rausið í Múhameð spámanni í sjálfu sér. Önnur ógn sem þarf að hafa í huga er sú ægilega misskipting auðs sem lýsir sér í eignarhaldi æ færri á æ stærri auðlindum og verðmætum; sú hugmynd að ranglætið borgi sig ævinlega en réttlæti verði aldrei við komið af því að það sé svo óhagkvæmt – hún getur ekki ekki annað en leitt stórfelldan ófarnað yfir mannkynið, stríð og hörmungar. Og svo eru það vondu og spillandi hugmyndirnar: hatrið sem grasserar í skúmaskotum umræðu og samfélaga. Öfgafullt íslam er ein af hrikalegustu birtingarmyndum þess en alls ekki sú eina: þar sem ungt fólk (oft karlmenn) kemur sér saman um að búa sér til andstæðing sem ekki hafi sama rétt til að lifa og þeir sjálfir; og þeir sjálfir séu á guðs vegum þegar þeir taki sér rétt til að binda enda á líf annarra. Við sjáum þetta í mönnum eins og Breivik í Noregi. Við sjáum þetta í Svíþjóð og Finnlandi og fyrrum kommúnistaríkjum þar sem fasískum hreyfingum vex fiskur um hrygg. Við sjáum þetta í vopnavæðingu hatursfullra manna í Bandaríkjunum. Rugluð ungmenni ganga þar inn í skólastofur og skjóta allt sem fyrir verður. Framferði þeirra er hryllilegt og óskiljanlegt en ég er samt ekki í þriðju heimsstyrjöldinni við þau. Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra: Maður er alveg jafn dauður þó að maður hafi verið skotinn af hægri öfgamanni af þeirri tegund sem meira hafa látið að sér kveða með sprengjum en múslimar í Evrópu. Öfgar eru vá. Hatur er ódyggð. Vanþekking, vanmetakennd, andleg fátækt, iðjuleysi, ranghugmyndir… Ekki er víst að aðgerðir „á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“ nái ævinlega að uppræta þetta allt saman og hatrið og dauðadýrkunina en vandséð er að aðgerðir á nokkrum öðrum sviðum séu vænlegri til árangurs.