Grunnstoðir Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 25. nóvember 2015 06:00 Önnur umræða um fjárlögin mun fara fram á næstunni. Breytingatillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarpið nema samtals 6,7 milljörðum króna í útgjaldaaukningu. Fjárlaganefnd fékk frumvarpið með breytingartillögunum í fyrradag ásamt fjáraukalagafrumvarpi. Fréttablaðið greindi frá því í gær að samkvæmt breytingartillögunum eigi að veita 370 milljónir til þjóðkirkjunnar. Þessir fjármunir eru veittir kirkjunni til að virða samning hennar og ríkisins frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Aukið fé mun samkvæmt heimildum blaðsins einnig fara til kirkjunnar á næsta ári. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ríkissjóður eigi vel fyrir þessum útgjöldum. „Ég tel þessu vel varið því allar þessar breytingar eru í þágu grunnþjónustunnar og grunnstoðirnar þurfa að vera í lagi ef við eigum að reka hér öflugt samfélag,“ sagði Vigdís. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir miður að ekki sé tekið á kjaramálum eldri borgara og öryrkja. Hún hefði viljað sjá hækkun til þessara hópa frá 1. maí í samræmi við hækkanir annarra í kjarasamningum ársins. „Aldraðir og öryrkjar eru sannarlega á lægstu laununum í þessu þjóðfélagi. Aldraðir og öryrkjar sitja eftir.“ Í fjárlagafrumvarpinu var lagt til að heildarframlag ríkisins til kirkjumála yrðu 5.848,4 milljónir króna. Þar með talin eru sóknargjöld, jöfnunarsjóður sókna og framlag til kirkjugarða. Framlögin fara með þessari aukafjárveitingu yfir 6.000 milljónir. Það er ávallt hægt að benda á eitthvað sem betur má fara við forgangsröðun í úthlutun ríkisfjármuna. Það er örugglega alltaf hægt að gera betur í að styrkja heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið eða menntakerfið svo fátt eitt sé nefnt. Svo mikið betur er hægt að gera að líklegast mun ekkert teljast vera nóg að gert svo allir séu sáttir. Það má hins vegar vel taka undir með Oddnýju Harðardóttur og harma þessa forgangsröðun. Meira og minna allt þjóðfélagið hefur fengið kjarabætur, og sumir mjög ríflegar á þessu ári. Nema einn hópur. Sem hefur sannarlega setið eftir. Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður kjaranefndar Félags eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu, hefur skrifað margar greinar um þetta efni. Hann hefur bent á að áætlun ríkisins um þróun launavísitölu sem litið var til þegar lífeyrir aldraðra og öryrkja var ákveðinn hefur verið mun lægri en raunhækkanir kjarasamninga. Á sama tíma og strípuð laun þingmanna hækka í 712 þúsund krónur á mánuði fá einhleypir aldraðir og öryrkjar 192 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Auðvitað á að virða gerða samninga. Ekkert síður við þjóðkirkjuna en aðra. En óuppsegjanlegur samningur ríkisins við þjóðkirkjuna til eilífðarnóns er ekki samningur. Það eru fjötrar. Og það er mjög erfitt að taka undir með formanni fjárlaganefndar og líta á þessa ráðstöfun fjármuna ríkisins til kirkjunnar, hátt í 400 milljónir, sem breytingu í þágu grunnþjónustunnar. Hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja væri styrking grunnstoða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Önnur umræða um fjárlögin mun fara fram á næstunni. Breytingatillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarpið nema samtals 6,7 milljörðum króna í útgjaldaaukningu. Fjárlaganefnd fékk frumvarpið með breytingartillögunum í fyrradag ásamt fjáraukalagafrumvarpi. Fréttablaðið greindi frá því í gær að samkvæmt breytingartillögunum eigi að veita 370 milljónir til þjóðkirkjunnar. Þessir fjármunir eru veittir kirkjunni til að virða samning hennar og ríkisins frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Aukið fé mun samkvæmt heimildum blaðsins einnig fara til kirkjunnar á næsta ári. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ríkissjóður eigi vel fyrir þessum útgjöldum. „Ég tel þessu vel varið því allar þessar breytingar eru í þágu grunnþjónustunnar og grunnstoðirnar þurfa að vera í lagi ef við eigum að reka hér öflugt samfélag,“ sagði Vigdís. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir miður að ekki sé tekið á kjaramálum eldri borgara og öryrkja. Hún hefði viljað sjá hækkun til þessara hópa frá 1. maí í samræmi við hækkanir annarra í kjarasamningum ársins. „Aldraðir og öryrkjar eru sannarlega á lægstu laununum í þessu þjóðfélagi. Aldraðir og öryrkjar sitja eftir.“ Í fjárlagafrumvarpinu var lagt til að heildarframlag ríkisins til kirkjumála yrðu 5.848,4 milljónir króna. Þar með talin eru sóknargjöld, jöfnunarsjóður sókna og framlag til kirkjugarða. Framlögin fara með þessari aukafjárveitingu yfir 6.000 milljónir. Það er ávallt hægt að benda á eitthvað sem betur má fara við forgangsröðun í úthlutun ríkisfjármuna. Það er örugglega alltaf hægt að gera betur í að styrkja heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið eða menntakerfið svo fátt eitt sé nefnt. Svo mikið betur er hægt að gera að líklegast mun ekkert teljast vera nóg að gert svo allir séu sáttir. Það má hins vegar vel taka undir með Oddnýju Harðardóttur og harma þessa forgangsröðun. Meira og minna allt þjóðfélagið hefur fengið kjarabætur, og sumir mjög ríflegar á þessu ári. Nema einn hópur. Sem hefur sannarlega setið eftir. Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður kjaranefndar Félags eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu, hefur skrifað margar greinar um þetta efni. Hann hefur bent á að áætlun ríkisins um þróun launavísitölu sem litið var til þegar lífeyrir aldraðra og öryrkja var ákveðinn hefur verið mun lægri en raunhækkanir kjarasamninga. Á sama tíma og strípuð laun þingmanna hækka í 712 þúsund krónur á mánuði fá einhleypir aldraðir og öryrkjar 192 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Auðvitað á að virða gerða samninga. Ekkert síður við þjóðkirkjuna en aðra. En óuppsegjanlegur samningur ríkisins við þjóðkirkjuna til eilífðarnóns er ekki samningur. Það eru fjötrar. Og það er mjög erfitt að taka undir með formanni fjárlaganefndar og líta á þessa ráðstöfun fjármuna ríkisins til kirkjunnar, hátt í 400 milljónir, sem breytingu í þágu grunnþjónustunnar. Hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja væri styrking grunnstoða.