Nískupúkar Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 28. nóvember 2015 07:00 Peningar sem notaðir eru til að styðja flóttafólk frá Sýrlandi nýtast best með stuðningi við hjálparsamtök og stofnanir sem reyna að gera flóttafólkinu lífið bærilegt nálægt heimahögunum. Það er vænlegasta leiðin til að koma í veg fyrir þá harmleiki sem heimsbyggðin öll hefur orðið vitni að á Miðjarðarhafinu. Hans Rosling,hinn heimskunni læknir og fræðimaður, sem oft hefur tekist að varpa nýstárlegu ljósi á stóru línurnar í heimsmálunum, benti nýlega á það í sjónvarpsviðtali, að miklu minni fjármunum er ráðstafað til að styðja þau 90 til 95 prósent flóttafólksins sem eru á vergangi í eigin landi eða eru í nálægum löndum eins og Tyrklandi og Líbanon, en til hinna, sem flýja yfir hafið. Rosling gerir ekki lítið úr vanda flóttafólksins í Evrópu og tekur skýrt fram, að almennt sé skynsamlegt að bjóða það velkomið og búa því bestu aðstæður. Það eigi við nú eins og endranær. En flestir sem flýja Sýrland vilji snúa heim þegar ástandið skánar, sem við verðum að leyfa okkur að vona að gerist fyrr en síðar. Þetta sé spurningin um nýtingu þeirra krafta og fjármuna, sem fari í hjálparstarf. Sýrland var til skamms tíma gott land að búa í fyrir langflesta, þó að stjórn Assads hafi ekki verið til fyrirmyndar. Þrátt fyrir ríkjandi svartnætti má ekki gleymast að við þekkjum nýleg dæmi um samfélög sem hafa þolað álíka hremmingar en rétt úr kútnum. Gamla Júgóslavía er nærtækust. Keppikeflið er, að dómi mannvinarins Rosling, að styðja samtök og alþjóðastofnanir, sem hlúa að nauðstöddum á staðnum. Sjái fólki fyrir mat, húsaskjóli, læknishjálp og börnum fyrir skólagöngu. Það leggur miklar byrðar á nærliggjandi lönd, sem þurfa stuðning þjóða sem eru aflögufærar. Með nægilega öflugum stuðningi má koma í veg fyrir að fólk leggi á flótta á manndrápsfleyjum með afleiðingum sem eru þyngri en tárum taki. Þannig má líka draga úr spennunni sem vaxandi straumur flóttafólks veldur í Evrópu. Ástæða er til að velta fyrir sér umræðunni um Þróunarsamvinnustofnun Íslands og framlög Íslendinga til alþjóðlegs hjálparstarfs á Alþingi í vikunni. Þar töluðu margir sig hása. En fáir viku að kjarna málsins: skammarlegri nísku Íslendinga og hræsni ráðamanna á þessu sviði. Við erum eftirbátar næstum allra ríkra þjóða í framlögum til alþjóðlegs hjálparstarfs. Ekki einn einasti stjórnmálamaður, hvorki fyrrverandi ráðherrar né núverandi, hafa af nokkrum sköpuðum hlut að guma á þessu sviði. Í bráðum hálfa öld hafa Alþingi og ríkisstjórnir skipti eftir skipti lofað að standa við fyrirheitin sem gefin voru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 1971 um að verja 0,7 prósentum þjóðartekna til þróunarsamvinnu og alþjóðlegs hjálparstarfs. Nú er hlutfallið 0,2 prósent – í hærra lagi í sögulegu samhengi. Ráðherrar hafa gefið fjölda yfirlýsinga með fögrum fyrirheitum heima og í útlöndum. Þeir hafa brýnt önnur ríki til dáða á alþjóðlegum mannamótum, en alltaf gleymt veskinu heima þegar reikningnum er skipt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Peningar sem notaðir eru til að styðja flóttafólk frá Sýrlandi nýtast best með stuðningi við hjálparsamtök og stofnanir sem reyna að gera flóttafólkinu lífið bærilegt nálægt heimahögunum. Það er vænlegasta leiðin til að koma í veg fyrir þá harmleiki sem heimsbyggðin öll hefur orðið vitni að á Miðjarðarhafinu. Hans Rosling,hinn heimskunni læknir og fræðimaður, sem oft hefur tekist að varpa nýstárlegu ljósi á stóru línurnar í heimsmálunum, benti nýlega á það í sjónvarpsviðtali, að miklu minni fjármunum er ráðstafað til að styðja þau 90 til 95 prósent flóttafólksins sem eru á vergangi í eigin landi eða eru í nálægum löndum eins og Tyrklandi og Líbanon, en til hinna, sem flýja yfir hafið. Rosling gerir ekki lítið úr vanda flóttafólksins í Evrópu og tekur skýrt fram, að almennt sé skynsamlegt að bjóða það velkomið og búa því bestu aðstæður. Það eigi við nú eins og endranær. En flestir sem flýja Sýrland vilji snúa heim þegar ástandið skánar, sem við verðum að leyfa okkur að vona að gerist fyrr en síðar. Þetta sé spurningin um nýtingu þeirra krafta og fjármuna, sem fari í hjálparstarf. Sýrland var til skamms tíma gott land að búa í fyrir langflesta, þó að stjórn Assads hafi ekki verið til fyrirmyndar. Þrátt fyrir ríkjandi svartnætti má ekki gleymast að við þekkjum nýleg dæmi um samfélög sem hafa þolað álíka hremmingar en rétt úr kútnum. Gamla Júgóslavía er nærtækust. Keppikeflið er, að dómi mannvinarins Rosling, að styðja samtök og alþjóðastofnanir, sem hlúa að nauðstöddum á staðnum. Sjái fólki fyrir mat, húsaskjóli, læknishjálp og börnum fyrir skólagöngu. Það leggur miklar byrðar á nærliggjandi lönd, sem þurfa stuðning þjóða sem eru aflögufærar. Með nægilega öflugum stuðningi má koma í veg fyrir að fólk leggi á flótta á manndrápsfleyjum með afleiðingum sem eru þyngri en tárum taki. Þannig má líka draga úr spennunni sem vaxandi straumur flóttafólks veldur í Evrópu. Ástæða er til að velta fyrir sér umræðunni um Þróunarsamvinnustofnun Íslands og framlög Íslendinga til alþjóðlegs hjálparstarfs á Alþingi í vikunni. Þar töluðu margir sig hása. En fáir viku að kjarna málsins: skammarlegri nísku Íslendinga og hræsni ráðamanna á þessu sviði. Við erum eftirbátar næstum allra ríkra þjóða í framlögum til alþjóðlegs hjálparstarfs. Ekki einn einasti stjórnmálamaður, hvorki fyrrverandi ráðherrar né núverandi, hafa af nokkrum sköpuðum hlut að guma á þessu sviði. Í bráðum hálfa öld hafa Alþingi og ríkisstjórnir skipti eftir skipti lofað að standa við fyrirheitin sem gefin voru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 1971 um að verja 0,7 prósentum þjóðartekna til þróunarsamvinnu og alþjóðlegs hjálparstarfs. Nú er hlutfallið 0,2 prósent – í hærra lagi í sögulegu samhengi. Ráðherrar hafa gefið fjölda yfirlýsinga með fögrum fyrirheitum heima og í útlöndum. Þeir hafa brýnt önnur ríki til dáða á alþjóðlegum mannamótum, en alltaf gleymt veskinu heima þegar reikningnum er skipt.