Sport

Einfættur maður stökk lengra en Ólympíumeistarinn á HM fatlaðra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markus Rehm.
Markus Rehm. Vísir/Getty
Þjóðverjinn Markus Rehm náði frábærum árangri á HM fatlaðra í Doha í Katar í dag þegar hann setti nýtt heimsmet og stökk 8,40 metra í langstökki.

Markus Rehm bætti sitt persónulega met með þessu stökki og þetta stökk hefði dugað til að vinna Ólympíumeistaratitilinn í London 2012.

Bretinn Greg Rutherford varð Ólympíumeistari hjá ófötluðum í London þegar hann stökk 8,31 metra og Ástralinn tók silfrið með stökk upp á 8,16 metra.  Greg Rutherford stökk reyndar einum sentímetra lengra en Rehm á nýloknu heimsmeistaramóti í Peking.

Markus Rehm varð sjálfur Ólympíumótsmeistari í sínum flokki í London 2012 og varð þýskur meistaramótsmeistari ófatlaðra 2014. Hann fékk þó ekki að fara á Evrópumótið.

Markus Rehm hefur barist fyrir því að fá að keppa með ófötluðum á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu á næsta ári en það er ekki ljóst hvort hann fái það. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið mun funda um málið á komandi vikum.

Markus Rehm er 27 ára gamall en hann missti hægri fótinn fyrir neðan hné eftir að hann lenti í slysi á báti þegar hann var aðeins fjórtán ára gamall.

„Ég vil fá tækifæri til að keppa á móti ófötluðum íþróttamönnum en ég vil ekki fara með mál mitt fyrir dómstóla. Ég vil færa fatlaða og ófatlaða Ólympíufara nær saman," sagði Markus Rehm við Agence France-Presse.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×