Tónlist

Reyndu aftur á táknmáli

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hulda Halldórsdóttir sá um þýðingarnar.
Hulda Halldórsdóttir sá um þýðingarnar.
Lagið vinsæla Reyndu aftur með Mannakornum kom út í breyttri mynd á dögunum. Nú gleður það ekki einungis eyrað heldur augað einnig, því hópur heyrnarlausra hefur þýtt það yfir á táknmál og gefið það út á netinu. Markmiðið er að vekja athygli á táknmáli sem fullgildu móðurmáli.

Fjórir einstaklingar, sem kalla sig Sign Crew, standa að baki verkefninu. Gunnar Snær Jónsson skrifaði handritið og leikstýrði, en hann vildi með þessu sýna fólki nýja hlið á sínu tungumáli.

Hlusta heyrnarlausir á tónlist?

„Oft hefur fólk velt því fyrir sér hvort heyrnarlaust fólk hlusti nokkuð á tónlist. Ég veit það því ég hef fengið þessa spurningu nokkuð oft. Staðreyndin er sú að við höfum mikinn áhuga, en oft á tíðum finnst okkur eins og samfélagið hleypi okkur ekki inn með því að gera senuna óaðgengilega fyrir döff menningu. Þá er ég að meina að það er fullt af íslenskum tónlistarmyndböndum, án íslensks texta,“ segir Gunnar.

Hann segir hugmyndina hafa sprottið fyrir um ári síðan þegar hópurinn var í táknmálskórnum Vox Signum, sem sá um að þýða lög yfir á íslenskt táknmál. „Á þessum tíma leitaði ég oft eftir nýjum hugmyndum til að vekja athygli samfélagsins á táknmáli, sem er móðurmál heyrnarlausra og einnig í útrýmingarhættu,“ útskýrir Gunnar.

Falleg listræn tjáning

„Ég fékk hugmynd um að skapa tónlistarmyndband af íslensku lagi sungnu með táknmáli og setja það inn á Youtube, til að sýna nýja hlið af móðurmáli mínu og hvernig það nýtist með tónlist. Oft hefur fólk ímyndað sér að táknmál sé aðeins fyrir heyrnarlausa, en raunin er sú að það lítur mjög vel út sem listræn tjáning, eins og tónlist. Það má vitna í rapp, þegar söngvarar hreyfa sig stöðugt með höndum til að koma ákveðnum skilaboðum fram með táknum sem þýða eitthvað,“ bætir hann við.

Gunnar segir það tíðkast í útlöndum að bæta enskum texta við tónlistarmyndbönd, til dæmis á Youtube. „Þetta er leiðin sem við viljum nota til að sýna samfélaginu hvernig við döff fólk öðlumst upplýsingar og getum fylgjumst með á netinu, með texta. Því miður er það mjög óvirkt hér á Íslandi en með textun viljum við brjóta niður þennan vegg.“

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan. Þar er Hulda Halldórsdóttir í aðalhlutverki en hún sá einnig um þýðingarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.