Lífið

Uppistand um konur í kvikmyndum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Snjólaug Lúðvíksdóttir mun meðal annars gera grín að Disney-myndum í kvöld.
Snjólaug Lúðvíksdóttir mun meðal annars gera grín að Disney-myndum í kvöld. Vísir/Vilhelm
Við munum fjalla um hvernig kvenkyns-stereótýpur birtast í kvikmyndum og sjónvarpi og hafa ekkert lagast í gegnum árin,“ segir uppistandarinn Snjólaug Lúðvíksdóttir sem ásamt fleiri kvenkyns uppstöndurum mun koma fram á uppistandi um konur í kvikmyndum í kvöld. Með henni verða þær Edda Björgvinsdóttir, Þórdís Nadia Semichat og Elva Dögg Gunnarsdóttir. Kynnir kvöldsins er Margrét Erla Maack.

„Tölurnar yfir hvað það eru margar konur í aðalhlutverkum og hvað margar konur tala um annað en karlmenn í kvikmyndum eru sorglega lágar,“ segir hún og bætir við að einnig mættu kvenkyns leikstjórar og höfundar á Íslandi og í heiminum öllum vera mun fleiri.

„Þetta verður samt allt á léttu nótunum, það verður enginn bitur eða reiður á sviðinu,“ segir hún og hlær.

„Ég ætla aðeins að gera grín að Disney-myndum og svona strereótýpum sem ég ólst upp við.“ Snjólaug var á sínum yngri árum mikil áhuga kona um Disney-myndir og aðspurð segir hún sínar uppáhaldsmyndir hafa verið Litla hafmeyjan og Öskubuska.

„Þær eiga það sameiginlegt að breyta sér gríðarlega og þá verður karlmaðurinn skotinn í þeim og þannig finna þær hamingju. Það eru kannski ekkert sérstaklega góð skilaboð til ungra stúlkna þannig að ég ætla svona kannski aðeins að ræða það.“

Hún segir þó hlutina á réttri leið og húmor oft vel til þess fallinn að benda á það sem betur má fara. „Þetta er auðvitað að breytast, það eru fleiri konur að koma fram með allri umræðunni og þetta er allt í rétta átt en það er löng leið í það að þetta verði jafnrétti eða eitthvað í líkingu við það. RIFF er til dæmis með fókus á verk um og eftir konur í ár og það hafa aldrei verið fleiri myndir á hátíðinni eftir konur en í ár,“ segir Snjólaug og bætir við að það sé svo sannarlega nóg um að vera hjá konunum.

Oft er rætt um birtingarmyndir og stöðu kvenna í kvikmyndum og yfirleitt á þeim nótum að staða þeirra og hlutverk mættu vera veigameiri og samræður þeirra meira í takt við raunveruleikann.

„Það er oft sem maður tekur ekki eftir því. Maður er orðinn svo samdauna kvikmyndum. Eins og þegar mér var bent fyrst á Bechdel-prófið,“ bendir Snjólaug á en prófið er notað til þess að greina kynjahalla í kvikmyndum. Til þess að standast það þurfa myndirnar að státa af að minnsta kosti tveimur kvenpersónum og þær þurfa að eiga samræður um eitthvað annað en karlmenn. Sem dæmi um vinsælar kvikmyndir sem ekki hafa staðist prófið eru Harry Potter and the Deathly Hallows: Part II, Avatar og Litla hafmeyjan.

„Þegar mér var bent á þetta þá fór ég að taka eftir þessu og þá standast fáránlega fáar myndir þetta próf.“

Það er nóg um að vera í uppistandinu hjá Snjólaugu. Um helgina heldur hún til London ásamt uppistandaranum Bylgju Babýlons og einnig treður hún upp á Reykjavík Comedy Festival. En Snjólaug byrjaði í uppistandinu í London fyrir tveimur árum.

„Ég var að læra handritagerð þar og var komin með leiða á því að senda handrit á framleiðslufyrirtæki því það er bara eins og að senda þau til tunglsins,“ segir hún og segir kosti uppistandsins þá að þar fáist viðbrögð um leið og þú hefur lokið setningunni.

Uppistandið um konur í kvikmyndum er hluti af dagskrá RIFF, það hefst klukkan 21.00 í Stúdentakjallaranum og er aðgangur ókeypis. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×