Sjálfstæðisflokkurinn grípi tækifærið Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 3. október 2015 07:00 Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Kosið verður um embættið á landsfundi í lok mánaðar. Búist er við að Ólöf Nordal taki við og ekki er ólíklegt að hún hljóti rússneska kosningu. Hanna Birna segir að hún treysti sér ekki í harðan pólitískan slag svo skömmu eftir lekamálið. Fyrirsjáanlegt sé að umræður kringum kosninguna myndu snúast um uppgjör þess og því hafi hún ákveðið að draga sig í hlé. Þótt Hanna Birna hafi einstakt lag á að gera sjálfa sig að fórnarlambi í lekamálinu hefur hún nokkuð til síns máls. En Sjálfstæðisflokkurinn hefði gott af snarpri og málefnalegri kosningabaráttu milli öflugra frambjóðenda. Flokkurinn þarf að réttlæta tilvist sína frekar en áður, þegar nýr og óreyndur stjórnmálaflokkur mælist með ríflega 40% fylgi í könnunum. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Nefna má Syriza í Grikklandi, og framgang Jeremys Corbyn í Bretlandi og Donalds Trump og Bernies Saunders í Bandaríkjunum. Alls staðar þurfa hefðbundnari stjórnmálaöfl að svitna meira fyrir atkvæðum nú en áður. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um fjórðungs fylgi – svipað og flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Sú tíð er liðin að flokkurinn geti talið þriðjung þjóðarinnar til kjarnafylgis, og með samstilltu átaki híft flokkinn í um fjörutíu prósentin. Í því felst enginn áfellisdómur yfir núverandi forystu. Það hafa einfaldlega orðið kynslóðaskipti og nýr raunveruleiki blasir við. Flestum ber saman um að Bjarni Benediktsson standi sig vel, þó að aðstæður séu honum hliðhollar. Með hjálp makríls og erlendra ferðamanna er þjóðarbúið á góðu róli: skuldir lækka, hagvöxtur ríkir og kaupmáttur eykst. Uppgjör gömlu bankanna og vonandi afnám gjaldeyrishafta eru í sjónmáli. Bjarni hefur líka á sér yfirbragð röggsemi og er í margra huga leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Bjarni lét einhverju sinni hafa eftir sér að Píratar væru að mörgu leyti óskrifað blað, þó væri varhugavert að dæma fólk úr leik sem hefði sterkt pólitískt umboð. Þar hitti hann naglann á höfuðið. Málflutningur Pírata fer eins og ferskur vindur um íslensk stjórnmál. Í einstaka málum, eins og höfundarréttarmálum, er stefna flokksins þó í besta falli óskýr. Og þó að kjósendum hugnist vel kjörnir fulltrúar flokksins núna er allsendis óvíst að stærri sveit falli í kramið þegar þar að kemur. Slíka veikleika geta aðrir nýtt sér. Sjálfstæðisflokkurinn, með Bjarna á formannsstóli, er í kjörstöðu. Til að nýta hana þarf flokkurinn að ná athygli kjósenda. Málefnaleg kosningabarátta um varaformannsembættið væri ein leið til þess. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Kvikmyndagerð á Íslandi: Næstu skref Lilja Dögg Alfreðsdóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Kosið verður um embættið á landsfundi í lok mánaðar. Búist er við að Ólöf Nordal taki við og ekki er ólíklegt að hún hljóti rússneska kosningu. Hanna Birna segir að hún treysti sér ekki í harðan pólitískan slag svo skömmu eftir lekamálið. Fyrirsjáanlegt sé að umræður kringum kosninguna myndu snúast um uppgjör þess og því hafi hún ákveðið að draga sig í hlé. Þótt Hanna Birna hafi einstakt lag á að gera sjálfa sig að fórnarlambi í lekamálinu hefur hún nokkuð til síns máls. En Sjálfstæðisflokkurinn hefði gott af snarpri og málefnalegri kosningabaráttu milli öflugra frambjóðenda. Flokkurinn þarf að réttlæta tilvist sína frekar en áður, þegar nýr og óreyndur stjórnmálaflokkur mælist með ríflega 40% fylgi í könnunum. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Nefna má Syriza í Grikklandi, og framgang Jeremys Corbyn í Bretlandi og Donalds Trump og Bernies Saunders í Bandaríkjunum. Alls staðar þurfa hefðbundnari stjórnmálaöfl að svitna meira fyrir atkvæðum nú en áður. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um fjórðungs fylgi – svipað og flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Sú tíð er liðin að flokkurinn geti talið þriðjung þjóðarinnar til kjarnafylgis, og með samstilltu átaki híft flokkinn í um fjörutíu prósentin. Í því felst enginn áfellisdómur yfir núverandi forystu. Það hafa einfaldlega orðið kynslóðaskipti og nýr raunveruleiki blasir við. Flestum ber saman um að Bjarni Benediktsson standi sig vel, þó að aðstæður séu honum hliðhollar. Með hjálp makríls og erlendra ferðamanna er þjóðarbúið á góðu róli: skuldir lækka, hagvöxtur ríkir og kaupmáttur eykst. Uppgjör gömlu bankanna og vonandi afnám gjaldeyrishafta eru í sjónmáli. Bjarni hefur líka á sér yfirbragð röggsemi og er í margra huga leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Bjarni lét einhverju sinni hafa eftir sér að Píratar væru að mörgu leyti óskrifað blað, þó væri varhugavert að dæma fólk úr leik sem hefði sterkt pólitískt umboð. Þar hitti hann naglann á höfuðið. Málflutningur Pírata fer eins og ferskur vindur um íslensk stjórnmál. Í einstaka málum, eins og höfundarréttarmálum, er stefna flokksins þó í besta falli óskýr. Og þó að kjósendum hugnist vel kjörnir fulltrúar flokksins núna er allsendis óvíst að stærri sveit falli í kramið þegar þar að kemur. Slíka veikleika geta aðrir nýtt sér. Sjálfstæðisflokkurinn, með Bjarna á formannsstóli, er í kjörstöðu. Til að nýta hana þarf flokkurinn að ná athygli kjósenda. Málefnaleg kosningabarátta um varaformannsembættið væri ein leið til þess.