Lífið

„Þetta var eins og að vera í Hollywood svolítið“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Aðalleikarar kvikmyndarinnar Þrestir, þau Atli Óskar Fjalarson og Rakel Björk Björnsdóttir, segja nokkra frumsýningargesti ekki hafa treyst sér í gleðskap fyrir myndina í gær að lokinni frumsýningu. Þau komu í viðtal til Margrétar Maack í Íslandi í dag í kvöld. Viðtalið má sjá hér að ofan.

„Það eru sum atriði sem eru óþægileg og þá var svolítið fyndið að sjá salinn allan á iði, fólk sökk í sætin og fór að líta hvert á annað. Það var gaman að fylgjast með því,“ sagði Atli Óskar sem var að sjá myndina í fjórða skipti í gær. Hann segist því hafa skemmt sér við að fylgjast með viðbrögðum áhorfenda en kvikmyndin var frumsýnd hér heima í gærkvöldi á kvikmyndahátíðinni RiFF.

„Hún fær mann mikið til að hugsa. Hún situr í manni eftir á hef ég heyrt. Það voru nokkrir sem fóru ekki í frumsýningarpartýið í gær því að þeir voru alveg eftir sig og þurftu bara að fara heim og melta hana svolítið,“ segir Atli. „Já, þurftu bara að jafna sig,“ bætti Rakel Björk við.

Þau fengu mikla athygli á San Sebastian kvikmyndahátíðinni.

„Þetta var eins og að vera í Hollywood svolítið,“ segir Rakel. Hinir ungu leikarar þurftu að veita eiginhandaáritanir og vildu aðdáaendur taka með þeim myndir.

Þrestir fer í almennar sýningar í kvikmyndahúsum hér á landi 16. október næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.