Bílar

Forstjóri Volkswagen segir af sér

Finnur Thorlacius skrifar
Martin Winterkorn sagði af sér..
Martin Winterkorn sagði af sér..
Vandræði Volkswagen ætla engan endi að taka eftir að upp komst um dísilbílasvindl þeirra í Bandaríkjunum. Nýjustu fréttir frá Þýskalandi eru þær að forstjóri Volkswagen, Martin Winterkorn, hafi sagt af sér. Volkswagen hefur strax fundið eftirmann hans í forstjóra Porsche, Matthias Müller.

Einnig hafa verið færðar fréttir af því að það eru ekki einungis þeir 482.000 dísilbílar sem seldir voru í Bandaríkjunum sem voru útbúnir þeim svindlhugbúnaði sem uppgötvaðist í Bandaríkjunum, heldur er hann í 11 milljón bílum Volkswagen víða um heiminn.

Þetta hefur Volkswagen viðurkennt sjálft og vafalaust með því viljað forðast að upp kæmist um svindlið víðar en í Bandaríkjunum. Volkswagen hefur nú þegar sett 6,5 milljarða evra til hliðar til að standa straum af þeim sektum og innköllunum sem vofa nú yfir fyrirtækinu.

Ekki er þó víst að þessi upphæð muni duga Volkswagen þar sem fyrirtækið á yfir höfði sér allt að 18 milljarða dollara refsingu fyrir gjörning sinn vestanhafs. Hlutabréf í Volkswagen hafa fallið um meira en 20% á hlutabréfamarkaði í kjölfar þessa vandræðamáls.  


Tengdar fréttir






×