Gagnrýni

Í leit að stöðugleika

Sigríður Jónsdóttir skrifar
4:48 Psychosis

Þjóðleikhúsið – Kúlan

Höfundur: Sarah Kane

Edda production í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Aldrei óstelandi, Icelandair, Eimskip og Vodafone

Framleiðandi: Edda Björg Eyjólfsdóttir

Leikari: Edda Björg Eyjólfsdóttir

Leikstjórn: Friðrik Friðriksson

Tónlist: Magnús Örn Magnússon og Stefán Már Magnússon

Leikmynd: Stígur Steinþórsson

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Hermann Karl Björnsson

Þýðing: Sigurlaug „Didda“Jónsdóttir

Dramatúrg: Stefán Hallur Stefánsson



Konan sem stendur á sviðinu er ónefnd. Hún er blýföst í hyldýpi þunglyndis og berst við að finna ljósið í myrkrinu. Á rétt rúmum klukkutíma er áhorfendum boðið að stíga inn í hugarástand óstjórnlegrar geðtruflunar, baráttu upp á líf eða dauða.

Frumsýningardagur 4:48 Psych­osis á fimmtudaginn síðastliðinn var einnig Dagur sjálfsvígsforvarna, kannski ágætlega við hæfi. Forsaga leikskáldsins sem tók sitt eigið líf er flókin, áhugaverð og sorgleg allt í senn en Sarah Kane má ekki vera skilgreind einungis út frá endalokum sínum. Verk hennar verður að skoða út frá öðrum sjónarhornum því Kane var stórbrotið leikskáld, þótt hún væri sjálf brotin.

Kúlan er sérlega spennandi sviðsrými sem Þjóðleikhúsið mætti nýta betur en sýningin smellpassar þarna inn. Sviðsetning Friðriks Friðrikssonar er stundum nær gjörningi frekar en leiksýningu sem er athyglisverð nálgun. Edda Björg Eyjólfsdóttir stendur einangruð á fjölunum en ekki ein því tónlistarmennirnir Magnús Örn Magnússon og Stefán Már Magnússon eru staðsettir í vinstra horni sviðsins. Stígur Steinþórsson hannar sviðsmyndina af kostgæfni en hún er stílhrein; einungis tvö sjónvörp mynda kjarna hennar.

Gríðarleg ábyrgð hvílir á herðum Eddu Bjargar og hlutverkið er gífurlega krefjandi. Hún sýnir mikið þor að takast á við þetta óendanlega svartnætti og á hrós skilið fyrir hugrekkið. En frammistaða hennar var ekki alltaf samstíga grófleika textans, allavega nær hún ekki nægilega föstum tökum á hlutverkinu. Bestu augnablikin eiga sér stað þegar Edda Björg sleppir algjörlega fram af sér beislinu og opnar innra líf þessarar konu upp á gátt. En stundum verður leikur hennar örlítið eintóna sem dregur kraftinn úr textanum.

Einn af fáu leikmununum sem hún notast við er myndavél en upptökunni er varpað á bakvegg sviðsins. Þannig komast áhorfendur eins líkamlega nálægt Eddu Björgu eins og hægt er en þetta hefur fjarlæg áhrif á sama tíma. Aftenging verður á vissum augnablikum óþægileg. Ekki í þeim skilningi að áhorfandinn fái innsýn í riðlaða veröld aðalpersónunnar heldur myndast fjarlægð við efnið. Stundum er myndavélanotkunin einstaklega vel heppnuð en á öðrum tímapunktum dofna áherslurnar eða hverfa inn í tækjabúnaðinn.

Einn stóran galla má þó finna á sýningunni og leikstjórn Friðriks: Tónlistaratriðin þar sem Edda Björg syngur með bandinu eiga alls ekki heima í sýningunni. Lagasmíðar PJ Harvey eru magnaðar en ákvörðunin um að skeyta þeim inn texta Kane á þennan hátt er undarleg í besta falli og jaðrar við viðvaningshátt. Edda Björg er fær söngkona en atriðin valda truflun í framvindunni sem nokkurn tíma tekur að komast yfir í þau tvö skipti sem tónlistaratriðin eiga sér stað.

Á yfirborðinu virðist texti Kane kannski vera einfaldur en blekkingin liggur í ljóðrænu valdi hennar á endurtekningu, takti og orðavali. Þýðing Diddu er áhrifamikil þó hún misstígi sig í einstaka tilfellum en yfirhöfuð er þarna vel að verki staðið.

Sýningin, með Eddu Björgu í fararbroddi, á eflaust eftir að eflast með fleiri sýningardögum þegar þrenningin á sviðinu finnur takt sem þeytir tilfinningunum lengra og dýpra en á þessum tímapunkti nær hún ekki takmarki sínu. 

Niðurstaða: Misjöfn sýning en inniheldur samt sem áður ­glimrandi augnablik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×