Lægra gjald öllum til góðs Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 8. september 2015 07:00 Nokkur óvissa hefur verið á undanförnum mánuðum í rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna kjarasamningagerðar sem stóð yfir stærstan hluta fyrri parts þessa árs og stendur sums staðar enn yfir. Töluverð hækkun hefur orðið á launakostnaði fyrirtækjanna vegna þessara samninga, eðli málsins samkvæmt. Samtök iðnaðarins kölluðu eftir því í Fréttablaðinu í gær að tryggingagjaldið, sem er sérstakt gjald sem launagreiðendur greiða af heildarlaunum launamanna sinna, verði lækkað um eitt prósent. Á staðgreiðsluárinu 2015 er tryggingagjaldshlutfallið 7,49 prósent, en þar af er tryggingagjaldið sjálft 6,04%, atvinnutryggingagjald 1,35%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%). Flatur skattur er þannig lagður á allan launakostnað, óháð stærð, umfangi og gengi rekstrar fyrirtækja. Í samtali við Fréttablaðið í gær sagði Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, að gjald þetta hefði sérstaklega slæm áhrif á lítil fyrirtæki þar sem sérhver ráðning starfsmanns vegur þungt. Þá finni mannauðsfrek fyrirtæki mikið fyrir gjaldinu, sem valdi því að þau vaxi hægar en ella og verðmætasköpunin verður minni. Hann segir ábatann af því að lækka gjaldið vera mikinn. „Það ýtir undir atvinnu, heldur aftur af verðbólgu vegna kjarasamninga og styður við hagvöxt og framleiðniaukningu,“ sagði Almar. Samtök iðnaðarins hafa reiknað það út að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu muni hækka um 5 milljarða á næsta ári vegna kjarasamninga. Tryggingagjaldinu er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði vegna atvinnuleysis. Það er ekki alveg út í hött að launagreiðendur standi að hluta skil á einhverjum kostnaði sem tengist vinnumarkaðnum, eins og til að mynda atvinnuleysisbótum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. En það er rétt sem Almar segir að litlu fyrirtækin finna þungt fyrir þessu gjaldi og þar eru lítil sprotafyrirtæki innifalin. Áætlað er að allt að 70 prósent vinnandi handa á Íslandi starfi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hátt í átta prósenta skattur þýðir að tíu manna fyrirtæki borgar nokkurn veginn andvirði ellefta starfsmannsins í tryggingagjaldið. Það er stór biti fyrir fyrirtæki sem eiga oft allt sitt undir því að ná hratt í fjárfesta, sem vilja líklegast síður að þeirra framlag fari beint í ríkiskassann. Slík útgjöld geta jafnvel skilið milli feigs og ófeigs á byrjunarstigum fyrirtækja. Fyrirtækin vaxa hægar og verðmætasköpunin verður minni og þannig hefur gjaldið í raun öfuga verkan, þar sem tekjurnar verða minni fyrir ríkið. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur sagt að bætt staða ríkissjóðs muni skapa svigrúm fyrir áframhaldandi skattalækkanir og hefur meðal annars nefnt lækkun tryggingagjaldsins sem dæmi. Fjárlögin fyrir árið 2016 verða kynnt í dag þar sem kemur í ljós hvort ráðherrann mun standa við stóru orðin og lækka tryggingagjaldið. Hann hefur hingað til gert vel í að fella niður vörugjöldin, sem atvinnulífið hafði lengi kallað eftir, og því ekki við öðru að búast en að þessu kalli þeirra verði svarað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
Nokkur óvissa hefur verið á undanförnum mánuðum í rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna kjarasamningagerðar sem stóð yfir stærstan hluta fyrri parts þessa árs og stendur sums staðar enn yfir. Töluverð hækkun hefur orðið á launakostnaði fyrirtækjanna vegna þessara samninga, eðli málsins samkvæmt. Samtök iðnaðarins kölluðu eftir því í Fréttablaðinu í gær að tryggingagjaldið, sem er sérstakt gjald sem launagreiðendur greiða af heildarlaunum launamanna sinna, verði lækkað um eitt prósent. Á staðgreiðsluárinu 2015 er tryggingagjaldshlutfallið 7,49 prósent, en þar af er tryggingagjaldið sjálft 6,04%, atvinnutryggingagjald 1,35%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%). Flatur skattur er þannig lagður á allan launakostnað, óháð stærð, umfangi og gengi rekstrar fyrirtækja. Í samtali við Fréttablaðið í gær sagði Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, að gjald þetta hefði sérstaklega slæm áhrif á lítil fyrirtæki þar sem sérhver ráðning starfsmanns vegur þungt. Þá finni mannauðsfrek fyrirtæki mikið fyrir gjaldinu, sem valdi því að þau vaxi hægar en ella og verðmætasköpunin verður minni. Hann segir ábatann af því að lækka gjaldið vera mikinn. „Það ýtir undir atvinnu, heldur aftur af verðbólgu vegna kjarasamninga og styður við hagvöxt og framleiðniaukningu,“ sagði Almar. Samtök iðnaðarins hafa reiknað það út að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu muni hækka um 5 milljarða á næsta ári vegna kjarasamninga. Tryggingagjaldinu er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði vegna atvinnuleysis. Það er ekki alveg út í hött að launagreiðendur standi að hluta skil á einhverjum kostnaði sem tengist vinnumarkaðnum, eins og til að mynda atvinnuleysisbótum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. En það er rétt sem Almar segir að litlu fyrirtækin finna þungt fyrir þessu gjaldi og þar eru lítil sprotafyrirtæki innifalin. Áætlað er að allt að 70 prósent vinnandi handa á Íslandi starfi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hátt í átta prósenta skattur þýðir að tíu manna fyrirtæki borgar nokkurn veginn andvirði ellefta starfsmannsins í tryggingagjaldið. Það er stór biti fyrir fyrirtæki sem eiga oft allt sitt undir því að ná hratt í fjárfesta, sem vilja líklegast síður að þeirra framlag fari beint í ríkiskassann. Slík útgjöld geta jafnvel skilið milli feigs og ófeigs á byrjunarstigum fyrirtækja. Fyrirtækin vaxa hægar og verðmætasköpunin verður minni og þannig hefur gjaldið í raun öfuga verkan, þar sem tekjurnar verða minni fyrir ríkið. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur sagt að bætt staða ríkissjóðs muni skapa svigrúm fyrir áframhaldandi skattalækkanir og hefur meðal annars nefnt lækkun tryggingagjaldsins sem dæmi. Fjárlögin fyrir árið 2016 verða kynnt í dag þar sem kemur í ljós hvort ráðherrann mun standa við stóru orðin og lækka tryggingagjaldið. Hann hefur hingað til gert vel í að fella niður vörugjöldin, sem atvinnulífið hafði lengi kallað eftir, og því ekki við öðru að búast en að þessu kalli þeirra verði svarað.