Formúla 1

Bílskúrinn: Það helsta frá Monza

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton fagnar á verðlaunapallinum.
Lewis Hamilton fagnar á verðlaunapallinum. Vísir/Getty
Lewis Hamilton kom fyrstur í mark og svo stóð hugsanlega til að dæma hann úr leik. Kimi Raikkonen átti frábæra tímatöku en hvað svo?

Þetta og fleira í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Hamilton að athuga þrýstinginn eftir keppnina?Vísir/Getty
Hamilton hálf loftlaus

0,3 pund á hverja fertommu. Það er kannski ekki mikið. Öryggiskröfur eru síst sveigjanlegu kröfurnar, hefði maður haldið. Lágmarksþrýstingur í afturdekkjum var aukinn fyrir keppnina á Monza eftir að tvö afturdekk hvellsprungu síðustu keppnishelgi á Spa brautinni í Belgíu.

Fjórir fremstu bílarnir á ráslínunni á Monza voru prófaðir. Það voru Mercedes og Ferrari bílarnir. Eitt dekk á hvorum Mercedes bíl var undir lágmarkinu. 0,3 psi hjá Hamilton en 1,1 psi hjá Nico Rosberg.

Hamilton sagði eftir keppnina að 0,3 psi breyttu engu. Aðrir ökumenn á borð við Sebastian Vettel staðfestu að þetta breytti litlu sem engu og væri ekki orsök þess að Hamilton stakk af. Dómarar keppninar tóku málið til rannsóknar en töldu ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Enda var loftþrýstingurinn yfir lágmarki þegar dekkin voru mæld áður en þau fóru á bílinn. Umdeilanleg niðurstaða og ef um öryggisatriði er að ræða er skrýtið að hleypa bílunum af stað í kappaksturinn.

Á móti hefði líka verið skrýtið að koma í veg fyrir þátttöku þeirra á grundvelli mælinga sem hugsanlega voru rangar. Dómararnir voru í hálfgerðri pattstöðu en svo fór sem fór.

Lotus átti ekki góða keppni á Monza.Vísir/Getty
Lotus skammlíft

Lotus liðið hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum. Romain Grosjean, annar ökumanna liðsins komst á verðlaunapall í síðustu keppni. Afrek hans í Belgíu verður seint of lofi borið.

Á Monza um helgina kvað við annan tón. Báðir bílar úr leik á fyrstu tveimur hringjum keppninnar. Pastor Maldonado lenti í samstuði í fyrstu beygju á fyrsta hring. Við það brotnaði fjöðrunarbúnaður í bíl hans og hann þurfti að hætta keppni. Maldonado er þekktur fyrir að vera segull á allt sem heitir vandræði í Formúlu 1. Atvikið sem batt enda á keppni hans á Monza verður seint talið honum einum að kenna.

Grosjean datt úr leik nánast á sama tíma. Nú bíða aðdáendur Lotus liðsins milli vonar og ótta eftir tilkynningu um hvort Renault sé búið að taka yfir. Talið er að Renault hafi mikinn áhuga á því að kaupa allt að 65% hlut í liðinu. Það gæti þá tryggt áframhaldandi þátttöku liðsins í Formúlu 1, þó væntanlega undir nýjum formerkjum.

Kimi Raikkonen orðinn aftastur í þvögunni strax í fyrstu beygju.Vísir/Getty
Raikkonen afturábak á ráslínu

Kimi Raikkonen hefur átt brösóttu gengi að fagna í tímatökum á tímabilinu. Hann var þó með öll tromp á hendi eftir tímatökuna á Monza. Hann var annar á ráslínu og leit vel út. Hann hefur átt frábærar ræsingar það sem af er tímabilinu.

Allt fór úrskeiðis hjá Finnanum í ræsingunni. Bíllinn hrökk ekki í gír og búnaður sem kemur í veg fyrir að bíllinn drepi á sér tók við. Þá þurfti Raikkonen að taka af stað, fullkomlega af sjálfsdáðum. Þegar allt þetta hafði skeð voru aðrir ökumenn komnir á töluvert meiri ferð og flestir farnir fram úr. Raikkonen komst rólega af stað og var á tímabili síðastur.

Raikkonen var einstaklega heppinn að allir fyrir aftan komust framhjá honum án þess að lenda á honum. Við tók afbragðs akstur af hálfu finnska ökumannsins. Hann kom í mark í fimmta sæti.

Efasemdaraddir um gæði Raikkonen sem ökumanns hafa þagnað eftir frammistöðu hans um helgina. 

Daniil Kvyat berst við Sebastian Vettel. Ætli Kvyat verði knúinn af Ferrari vél á næsta ári?Vísir/getty
Red Bull og vélarnar

Red Bull liðið þjáðist greinilega í tímatökunni, Daniil Kvyat var 15. og Daniel Ricciardo 16. Á braut eins og Monza snýst allt um afl. Renault vélarnar skila einfaldlega ekki nægu afli.

Ef marka má slúður um málið, þá hefur Red Bull sagt Renault að liðið ætli að leita á náðir annars vélaframleiðanda fyrir næsta tímabil.

Mercedes þótti líklegur kostur fyrir Red Bull. Nú virðist staðan þó vera þannig að Ferrari komi til með að skaffa Red Bull vélar á næsta ári. Það samband þekkja Formúlu 1 aðdáendur vel. Red Bull bíll með Ferrari vél átti stóran þátt í því að gera Sebastian Vettel að fjórföldum heimsmeistara.

Nico Rosberg þarf sennilega á kraftaverki að halda til að geta orðið heimsmeistari.Vísir/Getty
Getur einhver náð Hamilton?

Eftir að dómarar keppninar staðfestu að Hamilton fengi að halda sigrinum var ljóst að bilið í næsta mann, liðsfélagann Rosberg var orðið 53 stig. En 25 stig fást fyrir hverja unna keppni. Nú þegar sjö keppnir eru eftir er eitt ljóst, allir sem ætla að reyna að ógna Hamilton þurfa að fara að drífa í því.

Hamilton er í mögnuðu formi. Það virðist allt ganga upp, tímatökur, hann hefur náð í 11 af 12 mögulegum ráspólum á árinu og ekki hefur hann á erfitt með að vinna keppnir. Hann hefur unnið sjö af 12 keppnum.

Líklega þarf kraftaverk til að Rosberg eða Vettel eigi möguleika en í Formúlu 1 getur allt gerst. Það skyldi því enginn útiloka ótrúlega endurkomu annars eða beggja, Rosberg og Vettel.


Tengdar fréttir

Lewis Hamilton heldur fyrsta sætinu

Lewis Hamilton kom fyrstur í mark í ítalska kappakstrinum. Mælingar á loftþrýstingi í dekkjum Mercedes bílsins voru taldar tilefni nánari skoðunar eftir keppnina.

Renault tekur yfir Lotus í næstu viku

Renault mun klára að taka yfir Lotus liðið í Formúlu 1 í næstu viku. Franski bílaframleiðandinn verður þá orðinn liðseigandi aftur í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×