Að bera harm á torg í táraborg Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 26. ágúst 2015 07:00 Allt fer í hringi. Rúllukragapeysur eru komnar aftur í tísku, neonlitir líka, líklega styttist í að greitt verði í píku, fyrrum sveitarstjóri sem barðist hvað harðast fyrir stóriðju í sveitarfélaginu sem hann stjórnaði er kominn í vinnu hjá fyrirtækinu sem ætlar að reisa stóriðju í sveitarfélaginu sem hann stjórnaði, foreldrar kvarta yfir kostnaði við skólavist sem við annars gumum af að sé ókeypis og bílaeigendur kvarta yfir því að geta ekki lagt bílum sínum hvar sem þeim sýnist án þess að fá sekt. Árviss endurtekning, sumpart, í öðrum tilvikum þarf lengri tími að líða áður en við föllum aftur í hið gamla og kunnuglega far. „Látum oss hengja þá alla,“ hrópaði útfararstjórinn í Rangláta dómaranum, en áttaði sig ekki á því að það var ekki Lukku Láki sem réttað var yfir heldur hann sjálfur og kumpánar hans. „Vald vanans,“ var hans afsökun og ægivald hans getur steypt öllu í sama mót. Og eins og eftir skrifuðu handriti skellum við okkur hvert í viðeigandi hlutverk og tökum þátt í leiknum. Það eina sem breytist er að við þurfum sífellt að grípa til sterkara líkingamáls, öskra hærra, slá meira um okkur. Annars hlustar enginn. Íbúar miðborgarinnar voru teknir í gíslingu, segir Félag íslenskra bifreiðaeigenda um Menningarnótt. Búandi þar kom þetta mér nokkuð á óvart, það er þá versta gíslataka sögunnar. Svo auðvelt var að rjúfa hana að ekki gafst tími til að þróa með sér Sigtunaheilkenni, hvað þá Stokkhólmsheilkenni. Flóttinn mikli úr miðborgargíslingunni fór þannig fram að flóttafólkið settist upp í bíl og keyrði í burtu á meðan vingjarnlegt björgunarsveitarfólk veifaði brosandi. Og auðvitað vita þetta allir sem vita vilja. Þeir sem tjá sig um málið ættu að minnsta kosti að hafa aflað sér þeirra upplýsinga að hægt var að aka úr miðborginni, en umferð í hana bönnuð. Og þarf það virkilega lengur að koma á óvart að ef þú leggur bílnum þínum þar sem þér sýnist eru umtalsverðar líkur á því að þú fáir sekt? En gísling skal það heita, því það er gífuryrði og gífuryrði selja. Þetta heggur í sama knérunn og þeir ótilgreindu kaupmenn sem telja það skilja á milli feigs og ófeigs í rekstri verslunar í miðborginni að þessi örfáu bílastæði við Laugaveg séu brúkleg. Við erum bílaþjóð. Við gerum grín að hugmyndum um léttlestir og sporvagna og stóra strætisvagna á sérakreinum (Bus Rapid Transit). Þetta gengur aldrei, hnussum við og sættum okkur við að bíða í röð á rauðu ljósi á eftir hinum fíflunum og ekki einu sinni hinn nýsjötugi Maggi Eiríks fær okkur til að fara í strætó þrátt fyrir áratuga gamla lýsingu á biðinni. Og svo kvörtum við. Kveinum. Tökum andköf. Nákvæmlega eins og gert er í þessum pistli. Við berum harm okkar á torg í táraborg, þó Megas hafi einmitt sagt okkur að gera það ekki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Allt fer í hringi. Rúllukragapeysur eru komnar aftur í tísku, neonlitir líka, líklega styttist í að greitt verði í píku, fyrrum sveitarstjóri sem barðist hvað harðast fyrir stóriðju í sveitarfélaginu sem hann stjórnaði er kominn í vinnu hjá fyrirtækinu sem ætlar að reisa stóriðju í sveitarfélaginu sem hann stjórnaði, foreldrar kvarta yfir kostnaði við skólavist sem við annars gumum af að sé ókeypis og bílaeigendur kvarta yfir því að geta ekki lagt bílum sínum hvar sem þeim sýnist án þess að fá sekt. Árviss endurtekning, sumpart, í öðrum tilvikum þarf lengri tími að líða áður en við föllum aftur í hið gamla og kunnuglega far. „Látum oss hengja þá alla,“ hrópaði útfararstjórinn í Rangláta dómaranum, en áttaði sig ekki á því að það var ekki Lukku Láki sem réttað var yfir heldur hann sjálfur og kumpánar hans. „Vald vanans,“ var hans afsökun og ægivald hans getur steypt öllu í sama mót. Og eins og eftir skrifuðu handriti skellum við okkur hvert í viðeigandi hlutverk og tökum þátt í leiknum. Það eina sem breytist er að við þurfum sífellt að grípa til sterkara líkingamáls, öskra hærra, slá meira um okkur. Annars hlustar enginn. Íbúar miðborgarinnar voru teknir í gíslingu, segir Félag íslenskra bifreiðaeigenda um Menningarnótt. Búandi þar kom þetta mér nokkuð á óvart, það er þá versta gíslataka sögunnar. Svo auðvelt var að rjúfa hana að ekki gafst tími til að þróa með sér Sigtunaheilkenni, hvað þá Stokkhólmsheilkenni. Flóttinn mikli úr miðborgargíslingunni fór þannig fram að flóttafólkið settist upp í bíl og keyrði í burtu á meðan vingjarnlegt björgunarsveitarfólk veifaði brosandi. Og auðvitað vita þetta allir sem vita vilja. Þeir sem tjá sig um málið ættu að minnsta kosti að hafa aflað sér þeirra upplýsinga að hægt var að aka úr miðborginni, en umferð í hana bönnuð. Og þarf það virkilega lengur að koma á óvart að ef þú leggur bílnum þínum þar sem þér sýnist eru umtalsverðar líkur á því að þú fáir sekt? En gísling skal það heita, því það er gífuryrði og gífuryrði selja. Þetta heggur í sama knérunn og þeir ótilgreindu kaupmenn sem telja það skilja á milli feigs og ófeigs í rekstri verslunar í miðborginni að þessi örfáu bílastæði við Laugaveg séu brúkleg. Við erum bílaþjóð. Við gerum grín að hugmyndum um léttlestir og sporvagna og stóra strætisvagna á sérakreinum (Bus Rapid Transit). Þetta gengur aldrei, hnussum við og sættum okkur við að bíða í röð á rauðu ljósi á eftir hinum fíflunum og ekki einu sinni hinn nýsjötugi Maggi Eiríks fær okkur til að fara í strætó þrátt fyrir áratuga gamla lýsingu á biðinni. Og svo kvörtum við. Kveinum. Tökum andköf. Nákvæmlega eins og gert er í þessum pistli. Við berum harm okkar á torg í táraborg, þó Megas hafi einmitt sagt okkur að gera það ekki.