Fótbolti

Basel klaufar gegn ísraelsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vísir/Getty
Birkir Bjarnason og félagar hans í Basel fóru illa að ráði sínu þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við Maccabi Tel Aviv í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Leikurinn fór fram á St. Jakob-Park í Basel og voru heimamenn sterkari aðilinn. Þrátt fyrir það komst ísraelska liðið yfir með marki Erans Zehavi á 31. mínútu.

Matías Delgado jafnaði metin í 1-1 úr vítaspyrnu á 39. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Basel-menn virtust vera búnir að tryggja sér sigurinn þegar Breel Embolo kom þeim yfir á 88. mínútu en Zehavi jafnaði metin á 6. mínútu í uppbótartíma með glæsilegum skalla.

Svekkjandi úrslit fyrir Basel sem hefur verið fastagestur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar undanfarin ár.

Birkir lék allan leikinn fyrir svissnesku meistarana í kvöld.

Fjórir aðrir leikir fóru fram í umspilinu í kvöld.

Á Celtic-Park unnu heimamenn 3-2 sigur á Kára Árnasyni og félögum í Malmö.

Valencia vann góðan 3-1 sigur á Monaco á Mestalla. Rodrigo, Daniel Parejo og Sofiane Feghouli skoruðu mörk Spánverjanna sem eru í fínni stöðu fyrir seinni leikinn.

Marlos tryggði Shakhtar 0-1 sigur á Rapid Vienna á útivelli. Það lítur því allt út fyrir að úkraínska liðið verði enn eitt árið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Þá vann Dianmo Zagreb 1-2 sigur á Skenderbeu frá Albaníu á útivelli.

Seinni leikirnir fara fram á þriðjudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×