Íslenski boltinn

Ólafur, þjálfari Vals: Klárum tímabilið á Laugardalsvellinum

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvellinum skrifar
Vísir/Ernir
Þrátt fyrir 0-4 tap fyrir Íslands- og bikarmeisturum Stjörnunnar í kvöld var Ólafur Brynjólfsson, þjálfari Vals, ekki ósáttur með leik síns liðs.

Stjarnan komst í 0-1 á 22. mínútu en á þeirri 40. fengu Valskonur dauðafæri sem ekki nýttist. Í staðinn fóru Stjörnukonur í sókn og juku muninn í 0-2. Ólafur segir þessa mínútu hafa skipt sköpum í kvöld.

"Já, það má alveg segja það," sagði Ólafur sem er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Vals.

"Mér fannst við vera að spila vel og úti á vellinum voru liðin áþekk. En það eru mikil gæði í liði Stjörnunnar og þær klára færi og hálffæri sem við gerðum ekki.

"En ég lít svona meira á frammistöðuna hjá okkur, því mér fannst við spila vel og við byggjum ofan á það."

Serbneski framherjinn Marijia Radojicic lék sinn fyrsta leik fyrir Val í kvöld og átti lipra spretti. Ólafur kvaðst sáttur með hennar frammistöðu.

"Mér fannst hún bara ágæt. Hún er greinilega ekki í eins góðu formi og við vildum en það býr margt í henni og hún er góð í fótbolta," sagði Ólafur en umrædd Marija orðin hálf bensínlaus undir lok leiksins.

Valur er í 4. sæti deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir. Ólafur lítur hýru auga til 3. sætisins en fyrstu tvo eru frátekin fyrir Stjörnuna og Breiðablik.

"Við viljum halda okkur eins ofarlega og hægt er," sagði Ólafur en hann staðfesti að Valur myndi leika þá tvo heimaleiki sem liðið á eftir á Laugardalsvellinum en sem kunnugt er standa framkvæmdir yfir á Vodafone-vellinum.

"Já, við gerum það. Það er rosa gaman að spila hérna en þetta er samt ekkert okkar heimavöllur," sagði Ólafur en upphaflega stóð til að Valsliðið myndi spila á æfingasvæði félagsins á Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×