Íslenski boltinn

Hollenskur framherji til Leiknis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danny Schreurs þreytir væntanlega frumraun sína með Leikni gegn Stjörnunni 5. ágúst.
Danny Schreurs þreytir væntanlega frumraun sína með Leikni gegn Stjörnunni 5. ágúst. mynd/heimasíða fortuna sittard
Leiknir hefur samið við Hollendinginn Danny Schreurs um að leika með liðinu út tímabilið. Schreurs er 28 ára gamall og var síðast á mála hjá Roda JC Kerkrade í heimalandinu.

„Þetta er leikmaður með fína reynslu sem getur spilað framarlega á vellinum,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, annar þjálfara Leiknis, í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

Að sögn Davíðs er Schreurs ekki hreinræktaður framherji en hann getur leyst allar stöðurnar framarlega á vellinum.

„Þetta er leikmaður sem getur hjálpað okkur í mörgum stöðum og við vorum að leita að svona leikmanni,“ sagði Davíð ennfremur.

„Við fengum ábendingu um hann og erum búnir að liggja yfir myndböndum af honum. Þessi leikmaður er aðeins eldri en flestir okkar leikmanna og kemur með ákveðna reynslu inn í hópinn.“

Schreurs hefur lengst af leikið í næstefstu deild í Hollandi en hans besta tímabil, allavega hvað markaskorun varðar, var tímabilið 2010-11 þegar hann skoraði 16 mörk í 33 deildarleikjum fyrir PEC Zwolle. Hann hefur einnig leikið með Fortuna Sittard, Willem II og MVV Maastricht.

Leiknir sækir ÍA heim í næsta leik sínum í Pepsi-deildinni en Schreurs verður þó ekki með í þeim leik.

„Hann verður ekki með á móti Skaganum því það þarf að klára ákveðin mál. En hann verður klár í næsta leik þar á eftir gegn Stjörnunni,“ sagði Davíð um þennan nýjasta leikmann Leiknis.

Breiðholtsliðið er í 11. og næstneðsta sæti Peps-deildarinnar og hefur ekki unnið sigur síðan í 5. umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×