Íslenski boltinn

Þorvaldur kastaði upp í klefanum og kemst ekki í sumarbústað til konunnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þorvaldur Árnason alveg að fara að kasta upp á leið til búningsklefa í hálfleik í vesturbænum í kvöld.
Þorvaldur Árnason alveg að fara að kasta upp á leið til búningsklefa í hálfleik í vesturbænum í kvöld. vísir/stefán
Þorvaldur Árnason, milliríkjadómari, gat ekki dæmt seinni hálfleikinn í viðureign KR og Breiðabliks í 13. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld.

Þorvaldur fékk boltann í höfuðið eftir spyrnu Atla Sigurjónssonar, miðjumanns Breiðabliks, í fyrri hálfleiknum og féll til jarðar. Dómarinn kláraði fyrri hálfleikinn en kastaði upp á leiðinni til búningsklefa og hélt svo áfram þar.

„Hann ældi allt út í klefanum, greyið strákurinn. Svo talaði hann bara tóma vitleysu - meira en venjulega,“ sagði Þóroddur Hjaltalín, fjórði dómari leiksins og góðvinur Þorvaldar, léttur við Vísi rétt áðan.

„Þorvaldur er sennilega með heilahristing og líklegt að hann verði á sjúkrahúsi yfir nótt. Þetta leit bara ekki nógu vel út. Skotið hjá Atla var ekki fast en mikið svakalega hefur hann hitt Þorvald illa,“ bætir Þóroddur við.

Þorvaldur fær boltann í höfuðið


Þóroddur var mættur í Vesturbæinn til að horfa á leikinn en endaði sem fjórði dómari þegar Smári Stefánsson, aðstoðardómari 2, meiddist. Erlendur Eiríksson, sem átti að vera fjórði dómari, fór þá á línuna.

Erlendur þurfti svo að dæma seinni hálfleikinn þegar Þorvaldur meiddist og kom Jóhann Gunnar Guðmundsson til leiks í seinni hálfleik á línuna.

„Það er magnað hvað það þarf marga dómara til að dæma einn leik,“ sagði Þóroddur og hló dátt.

Sem fyrr segir eru Þorvaldur og Þóroddur góðir vinir og voru þeir á leið norður í land í sumarbústað þar sem konurnar þeirra eru búnar að koma sér fyrir.

„Við vorum á leið í sumarfrí saman en það verður eitthvað að bíða. Ég keyri bara einn norður núna,“ sagði Þóroddur Hjaltalín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×