Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Valur - Leiknir 3-0 | Draumabyrjun Leiknis í efstu deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leiknismenn fagna í dag.
Leiknismenn fagna í dag. Vísir/Valli
Leiknir úr Breiðholti gat ekki byrjað fyrsta tímabil liðsins í Pepsi-deildinni mikið betur. Nýliðarnir pökkuðu Val saman í fyrstu umferðinni í kvöld, 3-0, og það á Hlíðarenda.

Leiknismenn voru betri aðilinn nánast frá upphafi til enda. Þeir spiluðu agaðri, skynsamari og betri fótbolta og uppskáru verðskulduð þrjú stig fyrir framan fjölda stuðningsmanna sinna sem lögðu leið sína úr Breiðholtinu.

Leiknir skoraði fyrsta markið strax á áttundu mínútu eftir að Valsmenn byrjuðu ögn betur. Kolbeinn Kárason skoraði markið með föstu skoti úr teignum eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar. Valur var í vandræðum með föst leikatriði Leiknis allan leikinn.

Kolbeini leiddist ekkert að skora á móti uppeldisfélagi sínu enda fékk hann aldrei alvöru tækifæri með Val. Hann hljóp að stúkunni Valsmegin og barði á Leiknismerkið á treyjunni fyrir framan sína gömlu stuðningsmenn.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Leiknir annað markið og það fékk liðið á silfurfati. Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, reyndi að hreinsa aukaspyrnu inn á teiginn með bakfallsspyrnu en hitti ekki boltann.

Hann féll fyrir fætur markheppna miðjumannsins Sindra Björnssonar sem skoraði með viðstöðulausu skoti. Þarna var leiknum í raun lokið. Valsmenn bara vissu það ekki sjálfir.

Leiknir vildi hlutina miklu meira á inn á vellinum. Eins og lofað var fyrir mót voru nýliðarnir skipulagðir og spiluðu sterkan varnarleik. Óttar Bjarni Guðmundsson og Halldór Kristinn Halldórsson voru eins og kóngar í ríki sínu í hjarta varnarinnar og hafði Eyjólfur Tómasson lítið að gera í markinu.

Uppleggið hjá nýliðunum var ekkert flókið: Þeir börðust bara fyrir sínu og nýttu færin. Valsmenn fengu að vera meira með boltann en sköpuðu sér varla færi. Patrick Pedersen var einmanna í framlínunni og aðstoðin frá Sigurðu Agli og Andra lítil á köntunum.

Patrick Pedersen og Halldór Kristinn Halldórsson berjast um boltann.vísir/valli
Valsmenn kynntust því sem fleiri lið eiga eftir að kynnast: Hvernig það er að lenda undir gegn Leikni. Þegar liðið kemst yfir stillir það upp í þéttan varnarmúr og beitir öflugum skyndisóknum með fljótum framherjum sínum.

Ein slík bar ávöxt á 71. mínútu þegar Leiknir gekk frá leiknum með þriðja markinu. Varamaðurinn Ólafur Hrannar Kristjánsson fékk boltann á vinstri kantinum og beygði boltann frábærlega inn á teiginn framhjá tveimur varnarmönnum Vals.

Hilmar Árni Halldórsson tók frábært hlaup inn á teiginn og skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild með viðstöðulausu skoti framhjá varnarlausum Ingvari Þór Kale. Ekki frábær frumraun hjá markverðinum á Hlíðarenda, en hann kom frá Víkingi í vetur.

Hilmar Árni spilaði frábærlega í dag. Hann stýrði spili Leiknis inn á miðjunni, losaði um pressu þegar þess þurfti, gaf stoðsendingu, skoraði mark og tók öll föst leikatriðu Leiknis eins og svo oft áður. Verði hann í svona ham í sumar gæti hann hæglega slegið í gegn.

Þetta eru auðvitað bara 90 mínútur, en Óli Jóh og Sigurbjörn hafa ýmislegt að skoða fyrir næsta leik Vals. Sóknarleikur Valsmanna var algjört þrot. Sé þetta það sem koma skal frá Hlíðarendapiltum hafði Ólafur Jóhannesson rétt fyrir sér: Valsliðið er ekki nógu gott til að berjast um Evrópusæti.

Einkunnir:

Valur (4-3-3): Ingvar Þór Kale 3 - Andri Fannar Stefánsson 3, Orri Sigurður Ómarsson 4, Þórður Steinar Hreiðarsson 3, Bjarni Ólafur Eiríkusson 5 - Haukur Páll Sigurðsson 6, Iain Williamson 4 (Baldvin Sturluson 71. -), Einar Karl Ingvarsson 4 (68. Tómas Óli Garðarsson 5) - Andri Adolphsson 3, Sigurður Egill Lárusson 3 (82. Daði Bergsson -), Patrick Pedersen 3.

Leiknir (4-3-3): Eyjólfur Tómasson 7 - Eiríkur Ingi Magnússon 6, Óttar Bjarni Guðmundsson 8, Halldór Kristinn Halldórsson 8, Gestur Ingi Harðarson 6 - Brynjar Hlöðversson 7 (90. Magnús Már Einarsson -), Sindri Björnsson 7, *Hilmar Árni Halldórsson 8 - Kristján Páll Jónsson 6 (Frymezim Veselaj 85. -), Elvar Páll Sigurðsson 6, Kolbeinn Kárason 7 (67. Ólafur Hrannar Kristjánsson 7).

Dómari: Valgeir Valgeirsson (7). Áhorfendur: 1.824.

Ekkert gekk hjá Óla Jóh og strákunum hans.vísir/Valli
Óli Jóh: Hefðum getað spilað til miðnættis án þess að skora

"Við byrjum leikinn mjög illa og vorum í basli eftir að við fengum á okkur tvö mörk fljótlega í leiknum," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við Vísi eftir tapið í kvöld.

"Menn voru ekkert dekkaðir inn í teig eins og við fórum yfir. Þeir voru með lausa menn og settu tvö mörk."

Valsmenn voru meira með boltann en sköpuðu sér ekki færi. Hlíðarendapiltar komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Leiknis.

"Við vorum ekkert slæmir á boltanum í sjálfu sér en við vorum ekki líklegir til að skora. Við hefðum getað spilað fram á miðnætti án þess að setja mark," sagði Ólafur svekktur.

"Við höfum svo sem verið að skora fullt af mörkum í leikjunum sem við höfum spilað en þetta er áhyggjuefni núna. Við fengum ekki færi í þessum leik og það er áhyggjuefni."

"Leiknisliðið spilaði mjög vel. Það er með stóra og sterka menn í vörninni."

Ólafur var óánægður með hvernig sínir menn komu inn í leikinn, en það réði úrslitum að hans mati.

"Við vorum ekki 100 prósent klárir þegar við komum til leiks og það varð okkur að falli. Það er bara þannig," sagði Ólafur Jóhannesson.

Sindri fagnar marki sínu.vísir/valli
Sindri: Ekki mættir til að vera bara með

"Þetta var geðveikt. Ég er með gæsahúðarhroll út um allt. Þetta er alveg "sick"," sagði Sindri Björnsson, miðjumaður Leiknis og einn af markaskorurum liðsins við Vísi eftir leik.

"Við fórum eftir skipulagi og gerðum það sem þjálfararnir sögðu okkur að gera. Þeir voru búnir að vinna sína heimavinnu og við gerðum bara það sem okkur var sagt."

Stuðningsmenn Leiknis fjölmenntu á völlinn og létu vel í sér heyra í stúkunni.

"Þessi leikur hefði farið 3-0 fyrir Val hefði ekki verið fyrir þessa áhorfendur. Þeir áttu meira en helming í þessu. Við vorum fínir í dag, næstum því jafngóðir og áhorfendur."

Sindri sagði Leiknisliðið aldrei hafa upplifað neinn nýliðaskjálfta á Vodafone-vellinum í dag.

"Í rauninni ekki. Þegar þú ert með þessa menn fyrir aftan þig með allt þetta hjarta; Eyjólf, Halldór, Brynjar, þá ertu ekki að fara fá á þig mörg mörk. Við vorum í góðum málum 2-0 yfir þannig við vorum ekkert hræddir," sagði Sindri.

Leiknismenn hafa talað með sjálfstrausti í aðdraganda mótsins og sagst vera nógu góðir til að halda sér uppi. Var þessi sigur skilaboð um það?

"Já. Það er ágætt að senda tóninn. Við sýndum að við erum ekkert mættir til að taka bara þátt og hafa gaman heldur gera einhverja hluti í þessari deild," sagði Sindri Björnsson.

Freyr Alexandersson byrjar vel með Leiknismenn.vísir/valli
Freyr: Munum gefa öllum liðum leik

„Það er algjör draumur að vinna þrjú núll á Hlíðarenda á móti frábæru liði Vals,“ sagði Freyr Alexandersson en hann var að vonum í skýjunum eftir frábæran sigur Leiknis í jómfrúarleik félagsins í úrvalsdeild.

Á árum áður þjálfaði Freyr kvennalið Vals og vann með liðinu fjölda titla. „Ég var svo ánægður og hlakkaði svo til eftir að það var dregið. Þetta er svo geggjaður völlur og það er svo gaman að spila hérna. Það var svo í draumi líkast að sjá allt erfiðið skila sér. Við vorum til að mynda nýbúnir að æfa föst leikatriði og það skilaði mörkum.“

Leiknismenn komust tveimur mörkum yfir snemma leiks og bættu við forystuna í síðari hálfleiknum. Valsmönnum gekk illa, í raun ekki neitt, að finna glufur á vel skipulögðum varnarmúr gestanna. „Skipulagið hjá okkur var flott og gekk vel upp og strákarnir fá hrós fyrir það. Við þjálfararnir getum teiknað upp hvað sem er en ef leikmennirnir fara ekki eftir því þá er skipulagið einskis nýtt," sagði Freyr.

„Mig dreymdi um þetta, akkúrat þetta, en ég óttaðist að þetta færi á annan veg,“ ansaði Freyr aðspurður um stuðninginn sem Leiknir fékk. Stór hluti stúkunnar var á bandi liðsins og allir sem létu í sér heyra héldu með liðinu. „Við viljum halda þessu áfram og ég vona að fólk hafi skemmt sér vel þó fótboltinn í síðari hálfleik hafi ekki verið sá skemmtilegasti.“

„Leikmennirnir eru í frábæru formi og við munum halda áfram að vera vel undirbúnir fyrir hvern einasta leik. En hvort okkur tekst að vinna alla útileiki þrjú núll, tala nú ekki um á móti stórliðum á borð við Val, það veit ég ekki. En það er klárt mál að við munum gefa öllum liðum erfiðan leik á móti okkur,“ sagði sigurreifur þjálfarinn að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×