Lífið

Hafþór í öðru sæti að loknum fyrri degi og kominn í ísbað

Atli Ísleifsson skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson er í öðru sæti að loknum fyrri deginum af tveimur í úrslitum í keppninni um Sterkasta mann heims sem fram fer í Malasíu.

Brian Shaw er efstur með 29 stig að loknum fyrri degi en Hafþór fylgir fast á hæla Shaw með 26 stig. Zydrunas Savickas er svo næstur með 23,5 stig og Eddie Hall með 23 stig.

Fyrsta grein dagsins var Uxaganga þar sem keppendur kepptu í að bera grindur á öxlunum með sex háskólanemum tuttugu metra vegalengd, alls um 500 kíló. Einar Magnús Ólafíuson og Andri Reyr Vignisson segja keppnina hafa verið æsispennandi. „Brian Shaw var rétt á undan Hafþóri allt fram að fimmtán metrum þegar okkar maður tók á rás og þeystist fram úr honum og sigraði þar af leiðandi með miklum anda í fyrstu grein.“

Þeir félagar segja aðra grein dagsins hafa verið 370 kílóa réttstöðulyfta.  „Réttstöðulyfta er ekki ein sterkasta grein Hafþórs en formið á okkar manni er mjög gott og tók hann 6 gildar lyftur sem skiluðu honum þriðja sæti í þeirri grein og því litu hlutirnir vel út eftir tvær fyrstu greinarnar.“

Síðasta grein dagsins var svo trukkadráttur þar sem draga þurfti 28 tonna trukk 25 metra. Trukkadrátturinn er ein besta grein Hafþórs og dró hann trukkinn rúman 21 metra sem að skilaði honum þriðja sætinu. Enginn keppenda dró trukkinn alla leið og voru það aðeins sentimetrar sem að skildu að í lokin, að sögn þeirra Andra og Einars.

Þeir segja Hafþór Júlíus vera ánægðan með daginn. „Hann er kominn í ísbað og tekur sér góða hvíld til morguns þar sem bíða hans þrjár greinar sem munu skera úr um hver verður sterkasti maður heims.

Sjá má myndband af uxagöngunni hér.

Andri Reyr Vignisson og Einar Magnús Ólafíuson verða augu og eyru Vísis í Kuala Lumpur. Fylgist vel með umfjöllun Vísis um keppnina Sterkasti maður heims 2015.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×