Lífið

Fjallið varð að sætta sig við þriðja sætið: „Kem bara að ári og sæki þetta“

Bjarki Ármannsson skrifar
Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn. Vísir
Hafþór Júlíus Björnsson lenti í þriðja sæti í keppninni um Sterkasta mann heims sem lauk í Kuala Lumpur í dag. Bandaríkjamaðurinn Brian Shaw fór með sigur af hólmi og Litháinn Zydrunas Savickas lenti í öðru sæti.

„Auðvitað fékk þetta á allan hópinn en hingað út vorum við öll komin til að sjá vin okkar, son og félaga sækja titilinn heim,“ segir Einar Magnús Ólafíuson, félagi Hafþórs. Einar og Andri Reyr Vignisson fóru út með þeim stóra til að standa við bakið á honum.

„Það hefði verið kærkomið að lenda á Íslandi með titilinn þann 28. sem er einmitt afmælisdagur Jóns Páls Sigmarssonar heitins.“

Þeir félagar segja þó að allir í hópnum séu stoltir af sínum manni. Hafþór hafi fljótt farið að bera sig vel þrátt fyrir að hafa ekki náð takmarki sínu.

Sjá einnig: Fjallið borðaði 1,7 kíló af kjöti og ostaköku kvöldið fyrir fyrsta keppnisdag

Þrír sterkustu menn heims, okkar maður lengst til hægri.Vísir
„Eins og sannur íþróttamaður sagði hann: Ég kem þá bara að ári og sæki þetta, stærri, hraðari og sterkari, með meiri reynslu en ég hafði í ár,“ segir Andri. „Þetta er þyngsta og erfiðasta keppni sem haldin hefur verið í Sterkasti maður heims fyrr og síðar aðstæðurnar alveg þær erfiðustu.“

Hafþór keppti í þremur greinum í dag: Aflstiga (e. Power stairs), drumbalyftu og Atlassteinum. Í þeirri fyrstu, þar sem keppendur burðast með níðþung lóð upp 55 sentímetra háar tröppur, lenti hann í öðru sæti á eftir Savickas, en aðeins 0,8 sekúndum munaði á þeim tveimur.

Sjá einnig: Kallaður Thor í Kuala Lumpur

Í drumbalyftunni þarf að lyfta drumbi beint upp fyrir haus. Byrjunarþyngdin var 165 kíló og náði Hafþór að lyfta því, sem og þegar bætt var á drumbinn og hann orðinn 180 kíló. Næsta þyngd var svo 195 kíló, sem hefði verið nýtt Íslandsmet. En upp fór ekki drumburinn hjá Hafþóri.

„Þá voru ekki nema 2,5 stig milli þriggja efstu mannanna og Atlassteinarnir eftir,“ segir Einar. „Þetta hefur verið allra besta grein Hafþórs síðustu ár og hann þekktur sem „King of Stones“ eftir síðasta mót í Los Angeles.“

Svo fór þó að hitinn og rakinn í Malasíu sagði til sín og fyrsti og fjórði steininn runnu úr greipum Hafþórs. Það varð til þess að hann náði aðeins þriðja sætinu í þessari grein og því engin von um íslenskan sigur að þessu sinni.

Félagarnir Andri Reyr og Einar Magnús kveðja frá Malasíu og segjast vona að þeim hafi tekist að koma keppninni ágætlega til skila heim á klakann. „Við þökkum öllum sem aðstoðuðu okkur við að gera þetta mögulegt. Við þökkum Nova fyrir þeirra aðkomu, LG símum á Íslandi, Actus, GÁP og auðvitað Vísi fyrir að gera þessu góð skil með okkur.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×