Fótbolti

Barcelona glutraði niður tveggja marka forystu | Sjáðu glæsimark Neymar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Barcelona tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið gerði jafntefli við Sevilla, 2-2, á útivelli í dag.

Katalóníuliðið byrjaði vel. Lionel Messi kom Barcelona yfir eftir fjórtán mínútna leik og Neymar skoraði frábært mark á 31. mínútu. Ever Banega minnkaði muninn með hörkuskoti og staðan 1-2 í hálfleik.

Tíminn leið og leið. Allt útlit var fyrir það að Barcelona myndi fara með þrjú stigin burt af Estadio Sanchez Pizjuan, en heimamenn voru ekki á sama máli. Kevin Gameiro jafnaði metin sex mínútum fyrir leikslok og lokatölur 2-2.

Barcelona er því með tveggja stiga forystu á Real Madrid á toppnum, en sjö leikir eru eftir af úrvalsdeildinni.

Sevilla hefur ekki tapað á heimavelli á tímabilinu sem er magnaður árangur. Liðið er í fimmta sætinu með 62 stig, jafn mörg og Valencia sem er sæti ofar, en Valencia á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×