Fótbolti

Blóðug barátta í markalausum Madrídarslag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Mandzukic fékk högg í andlitið eftir baráttu við Sergio Ramos en ekkert var dæmt.
Mario Mandzukic fékk högg í andlitið eftir baráttu við Sergio Ramos en ekkert var dæmt. Vísir/Getty
Atletico Madrid og Real Madrid gerðu í kvöld markalaust jafntefli í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Real í næstu viku.

Iker Casillas, markvörður Real Madrid, bætti met er hann lék sinn 147. leik í keppninni en hann hafði þó heldur lítið að gera í kvöld þar sem að heimamönnum gekk illa að ógna marki Real.

Jan Oblak, markvörður Atletico, stóð hins vegar í ströngu og varði nokkrum sinnum glæsilega, allra helst frá Gareth Bales eftir að sá velski var sloppinn einn í gegn.

Þrátt fyrir markaleysið var mikill barátta og hiti í leikmönnum. Sergio Ramos var heppinn að sleppa við refsingu eftir að hafa virtist hafa gefið Króatanum Mario Mandzukic olnbogaskot. Króatinn var blóðugur eftir í andlitinu en serbneski dómarinn Milorad Mazic dæmdi ekkert.

Þessi lið mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og hafði þá Real Madrid betur í framlengdum leik. Þetta var svo sjöundi leikur liðanna í vetur í öllum keppnum en aldrei hefur Real náð að hafa betur, til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×