Íslenski boltinn

Þróttarar rúlluðu yfir Eyjamenn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gregg Ryder tók við Þrótti haustið 2013.
Gregg Ryder tók við Þrótti haustið 2013. vísir/daníel
Óvænt úrslit urðu í Lengjubikarnum í fótbolta í gær þegar tvö Pepsi-deildar félög töpuðu fyrir 1. deildar liðum.

Þróttur R. gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir ÍBV í Egilshöllinni með fimm mörkum gegn engu. Eyjamenn, sem unnu BÍ/Bolungarvík 5-0 í síðasta leik sínum, áttu ekki roð við Þrótturum sem leika undir stjórn hins enska Gregg Ryder.

Alexander Veigar Þórarinsson skoraði tvö af mörkum Þróttar og þeir Grétar Atli Grétarsson, Viktor Jónsson (víti) og Vilhjálmur Pálmason skoruðu eitt mark hver.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan en þau koma frá SportTV.

Eftir sigurinn er Þróttur í 4. sæti riðils 1 með sjö stig eftir fimm leiki. Eyjamenn eru hins vegar í 6. sæti með sex stig eftir fimm leiki.

Þá vann Grótta 2-0 sigur á Fjölni í Egilshöllinni. Viktor Smári Segatta skoraði bæði mörk Gróttu sem eru nýliðar í 1. deildinni í sumar.

Grótta vann þarna sinn fyrsta sigur í Lengjubikarnum í ár en Seltirningar eru í 6. sæti riðils 2 með fimm stig eftir fjóra leiki.

Fjölnismenn eru í sætinu fyrir ofan með sex stig eftir fimm leiki. Grafarvogsliðið vann tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en hefur síðan þá tapað þremur leikjum í röð.

Fimm leikir fara fram í A-deild Lengjubikarsins í dag. Þeir eru sem hér segir:

ÍA - Keflavík

Fjarðabyggð - Valur

BÍ/Bolungarvík - Víkingur Ó.

Leiknir - Selfoss

Þór - Grindavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×