Bílar

Dekk frá Goodyear framleiðir rafmagn

Finnur Thorlacius skrifar
Spennandi nýjungar frá Goodyear.
Spennandi nýjungar frá Goodyear.
Dekk á bílum hitna talsvert við akstur og sú orka hefur hingað til farið til spillis. Það gæti þó verið að breytast því Goodyear er nú að kynna dekk á bílasýningunni í Genf sem endurheimtir þessa orku og hleður rafgeyma bílsins með henni. Þræðir liggja undir barða dekksins sem drekka í sig hitann frá viðnáminu í barðanum.

Önnur uppfinning frá Goodyear er einnig kynnt í Genf. Hana hafa þeir nefnt Triple Tube. Það vitnar til þess að í nýþróuðu dekki frá fyrirtækinu eru þrjár slöngur, tvær á jöðrum dekksins og eitt í miðjunni.

Innbyggð pumpa stjórnar þrýstingnum í hverri slöngu og skynvætt kerfi stjórnar loftþrýstingnum með tilliti til aðstæðna. Þetta er til þess gert að auka öryggi og akstureiginleika bíla og minnka eyðslu í leiðinni.

Ef bíll er á mikilli ferð eykst þrýstingurinn í dekkjunum til að minnka viðnám. Ef bíllinn er á ferð þar sem mikið er um beygjur hleypir kerfið úr ystu slöngunni til að auka getu bílsins til að beygja. Ef blautt er bregst kerfið við með því að auka þrýstinginn í miðjuslöngunni svo hætta minnki á því að bíllinn fljóti upp í bleytu. 






×