Tónlist

Ástralir elska Ásgeir Trausta

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ásgeir Trausti hefur heillað marga.
Ásgeir Trausti hefur heillað marga.
Ásgeir Trausti hefur heillað ástralska áhorfendur og gagnrýnendur upp úr skónum. Útvarpsstöðin Triple J efndi til kosningu yfir bestu lög ársins 2014. Þar lenti Ásgeir Trausti í tíunda sæti með lagið King and Cross.

Alls tóku tvær milljónir hlustenda þessarar ríkisreknu útvarpsstöðvar þátt í kosningunni.

Ásgeir hefur einnig hlotið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína á tónleikum í Ástralíu. Á vefnum The Au Review er Ásgeir sagður dularfullur hæflileikamaður sem er unun að sjá á tónleikum.

Sydney Morning Herald gefur Ásgeiri þrjár og hálfa af fimm stjörnum fyrir frammistöðu sína á tónleikum í Sydney Opera House.

Vefurinn Music Feeds fjallar einnig um Ásgeir á sviði. Þar er frammistaðan hans lofuð í hástert og er sagt frá því að áhorfendur hefðu verið gjörsamlega heillaðir.

Á vefnum Art Felicis segir að frammistaða Ásgeirs í Sydney Opera House hafi verið mögnuð. Hann hafi veitt gestum sýningu sem hafi verið fullkomin fyrir þessa glæsilegu tónleikahöll. Gagnrýnandi miðilsins segist hafa vitað af Ásgeiri lengi að hann hafi búist við miklu; en íslenski listamaðurinn hafi toppað allar væntingar.

Á vefnum Howland Echoes er Ásgeir sagður svo hæfileikaríkur að tungumálið sem hann syngi á skipti ekki máli. Hann er sagður hógvær og að hann sýni hugrekki með því að þora að hafa útgáfur sumra laga minimalískar.

Í síðustu viku sagði Vísir frá því að Ásgeir hefði verið til umfjöllunar hjá vefsíðu bandaríska tímaritsins Billboard.

Á hverjum föstudegi fjallar hún um nýja og áhugaverða tónlistarmenn sem eru líklegir til að komast langt á Billboard-vinsældarlistann og komst Íslendingurinn í þennan eftirsótta hóp.

Á síðunni segir að nýjasta smáskífulag Ásgeirs, King and Cross, sé „sumarleg blanda af þjóðlagatónlist og elektróník sem fólk sé byrjað að tengja við í Bandaríkjunum“. Lagið er sem stendur í þrítugasta sæti á Adult Alternative-lista Billboard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.