Íslenski boltinn

Sonur Rúna Júl ætlar að velta sitjandi stjórn Keflavíkur úr sessi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Keflvíkingar fá annaðhvort nýjan formann (Baldur Guðmundsson fyrir ofan) eða halda sitjandi formanni (Þorsteinn Magnússon að neðan) á aðalfundi í kvöld.
Keflvíkingar fá annaðhvort nýjan formann (Baldur Guðmundsson fyrir ofan) eða halda sitjandi formanni (Þorsteinn Magnússon að neðan) á aðalfundi í kvöld. vísir/daníel/facebook/keflavik.is
Stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur berst fyrir lífi sínu á aðalfundi deildarinnar í kvöld, en hún mun fá mótframboð í fyrsta sinn síðan hún tók við árið 2008.

Baldur Þórir Guðmundsson, sonur Guðmundar Rúnars Júlíussonar, fótbolta- og rokkgoðsagnar, ætlar upp á móti Þorsteini Magnússyni í formannsframboð og taka með sér nýja menn í stjórnina.

„Eftir fjölda áskoranna sem borist hafa síðustu ár þá ákvað ég um helgina að skila inn framboði til formanns knattspyrnudeildar Keflavíkur,“ segir Baldur í yfirlýsingu á stuðningsmannasíðu Keflavíkur á Facebook.

„Þrýstingur á að taka þessa ákvörðun hefur aukist síðustu misseri en myndast hefur hópur manna með nýjar hugmyndir sem vilja leggja hönd á plóg í störfum knattspyrnudeildarinnar.“

„Að gefnu tilefni skal tekið fram að þessi áhugi okkar okkar sem vilja fá sæti við borðið og starfa í þágu deildarinnar er með engu móti atlaga að sitjandi stjórn. Þvert á móti viljum við létta á mönnum sem setið hafa lengi og koma í staðinn með nýtt ferskt blóð inn í starfið.“

Núverandi stjórn hefur engan áhuga á að víkja frá störfum og hafa stjórnarmenn skrifað pistla í Víkurfréttir í vikunni og minnt á sín góðu störf fyrir félagið. Í pistli sem formaðurinn skrifaði í gær segir hann rekstur deildarinnar aldrei hafa verið stöðugari.

„Árið 2008 var nýr formaður sem tók við keflinu hjá Knattspyrnudeildinni í Keflavík. Hafði þá verið leitað að nýjum formanni um nokkurt skeið en verkefnið var gríðarlega krefjandi. Eftir að hafa setið sem formaður unglingaráðs og varaformaður knattspyrnudeildarinnar nokkrum árum áður, var undirritaður beðinn um að taka að sér þetta krefjandi verkefni,“ segir hann og bætir við meðal annars:

„Núverandi stjórn mun leggja af störfum einn daginn, en sá dagur er ekki runninn upp. Undirritaður hefur  mikinn hug á að hefja sitt 20. stjórnarár hjá knattspyrnudeildinni og hef ég og mín fjölskylda lagt mikið á okkur fyrir Keflavík. Starf okkar síðustu ár hefur verið til fyrirmyndar. Rekstur og öll umgjörð er eins og best verður á kosið eftir þrotlausa vinnu.“

Þorsteinn sinnir starfi framkvæmdastjóra samhliða því að vera formaður deildarinnar, en samkvæmt heimldum Vísis ætlar ný stjórn að breyta því fyrirkomulagi. Formaður og framkvæmdastjóri eiga ekki að vera sami maðurinn.

Einar Helgi Aðalbjörnsson, ritari núverandi stjórnar, skrifaði pistil í Víkurfréttir í fyrradag þar sem hann segir vinnuna í kringum starfið svo mikið að hann hafi þurft að leggja önnur áhugamál til hliðar.

„Það er mjög gefandi að taka þátt í svona starfi en maður verður að átta sig á að meðfram svona starfi er ekki tími fyrir annað hobbý, ég lét t.d golfkylfunar í bílskúrinn,“ segir Einar Helgi, en hann er sammála sitjandi formanni um að ekki sé kominn tími á nýtt blóð.

„Auðvitað kemur að því að aðrir og nýir aðilar taki við stjórnartaumunum  en ég tel að það þurfi samt visst uppeldi og reynslu áður. Ég hefði kosið með tilliti til knattspyrnunnar hér í Keflavík að menn hefðu komið inn í starf deildarinnar til að sjá og læra út á hvað þetta gengur. Þetta lærist ekki á hálftíma,“ segir Einar Helgi.

Uppfært 15.25: Í athugasemdakerfinu hér að neðan gerir Baldur athugasemd við fyrirsögn fréttarinnar og segist ekki ætla „ryðja burt stjórninni.“

„Hef eingöngu áhuga á að bætast í liðið sem formaður og taka 1-2 nýja með mér til að fríska upp á góða stjórn. Lykilatriðið er að aðskilja hlutverk formanns og framkvæmdastjóra,“ segir hann og bætir við: „Það þarf enginn að leggja niður störf í þágu knattspyrnunnar í Keflavík þó ég komi inn á völlinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×