Lífið

Það versta í tækni 2014: Þú tapaðir

Tölvurefir af öllum toga komust yfir gögn tugmilljóna einstaklinga um allan heim.
Tölvurefir af öllum toga komust yfir gögn tugmilljóna einstaklinga um allan heim.
Í nýsköpun eru mistökin mörg. Hin vísindalega aðferð krefst mistaka og sem slík eru þau göfug. Það þýðir ekki að við getum ekki skemmt okkur yfir þessum mistökum. Hérna eru stærstu flopp ársins í tækniheiminum.





Hlutabréfaverð í Twitter féll um tæp 85 prósent.
10. Hlutabréf Twitter

Verð hlutabréfa Twitter féll um tæp 85% á þessu ári. Hjá venjulegu fyrirtæki væri þetta dauðadómur en ekki í heimi samfélagsmiðla. Notendafjöldi er dýrmætari gjaldeyrir en tekjur. Því miður hefur fjölgun notenda staðið í stað hjá Twitter. Horfurnar? Sé mið tekið af sögunni eru þær jákvæðar. Facebook gekk brösulega á hlutabréfamarkaði í upphafi en er í hæstu hæðum í dag. Hver veit?

9. Snjallúrið

2014 átti að vera ár snjallúrsins. Nokkrar athyglisverðar frumgerðir litu dagsins ljós á síðasta ári – Samsung, LG og Sony kynntu formlega snjallúr til leiks og fyrirtækin héldu áfram að dæla út snjallúrum sem enginn virtist hafa áhuga á. Risarnir hafa ekki náð sér á strik og sprotinn Pebble með úrið Steel er enn vinsælastur. Mögulega getur Apple bjargað þessu með Apple Watch á næsta ári en það er lítið tilefni til bjartsýni.

8. Microsoft Kinect

Þetta hefur verið erfitt ár hjá Microsoft. Stjórnendaskipti og hræðileg byrjun á leikjatölvu-stríðinu við Sony. Hinn uppfærði Kinect-skynjari átti upphaflega að fylgja með Xbox One-leikjatölvunni og dró með sér 12.000 kr. verðmiða. Kinect, sem í raun er stórkostleg græja, var nauðsynlegur fylgihlutur Xbox 360-leikjatölvunnar. Árið 2014 varð ljóst að enginn vildi auga Microsoft í stofunni hjá sér.

Nadella sagði á árinu að konur ættu ekki að sækjast eftir launahækkunum, þetta sagði hann á ráðstefnu kvenna í tölvuiðnaðinum (ekki djók).
7. iOS 8.0.1

Þetta var erfitt ár hjá Apple. Nýtt stýrikerfi iPhone beinlínis drap símana og þeir sem þustu á iTunes til að fá meina sinna bót fengu í staðinn uppfærslu sem gerði illt verra. Apple fór í neyðarham og dró uppfærsluna til baka. Birti aðra og allt féll í ljúfa löð. Fyrirtækið gerði lítið úr vandamálinu, þetta hafði víst bara áhrif á 40 þúsund manns.

6. Tilraunastarfsemi Facebook

Fyrir utan sálfræðilegar tilraunir á notendum sínum þá reyndi Facebook fyrir sér í smáforritum. Fyrirtækið kynnti þrjú öpp til leiks, Rooms, Paper og Slingshot. Ekkert af þessum smáforritum hefur notið vinsælda (Paper er reyndar ansi myndarlegt app). Í hinu stóra samhengi eru forritin smávægileg fjárfesting fyrir Facebook. Mögulega eru þau vitnisburður um listrænt og hugmyndafræðilegt gjaldþrot samfélagsmiðlarisans.

5. „Svona tölum við ekki“ með framkvæmdastjóra Microsoft

Satya Nadella, nýr framkvæmdastjóri Microsoft, hefur gert margt gott fyrir fyrirtækið. Markmið hans er að vinna gegn stöðnun Microsoft. Til að ná því markmiði er mikilvægt að sleppa því að tala niður til kvenna. Nadella sagði á árinu að konur ættu ekki að sækjast eftir launahækkunum, þetta sagði hann á ráðstefnu kvenna í tölvuiðnaðinum (ekki djók). Frekar ættu þær að treysta á kerfið til að sjá um þær (kerfi sem mismunar konum). Nadella ítrekaði síðar að honum hefði skjátlast.

Snjallsími Amazon kostaði álíka mikið og iPhone og var í alla staði frekar lélegt raftæki.
4 Amazon brennur

Netverslunarrisinn kynnti loks snjallsíma til leiks. Hann kostaði álíka mikið og iPhone og var í alla staði frekar lélegt raftæki. Hann stóð sig þó þokkalega vel í að vera framlenging á vefverslun Amazon. Flestir eru sammála um að Amazon hafi ekki gert nóg í að undirstrika eiginleika símans. Stjórnarformaðurinn Jeff Bezos, verandi Jeff Bezos, er staðráðinn í að selja Amazon Fire-snjallsímann. „Fylgist með,“ sagði hann á dögunum.

3 Candy Crush

Sænski tölvuleikjarisinn King, sem á heiðurinn af Candy Crush, átti hræðilegt ár. Fyrir utan það að reyna að fá einkaleyfi á orðinu Candy þá var hlutafjárútboð fyrirtækisins hörmung. Bréfin voru upphaflega seld á verðinu 22,50$ á opnunardegi og stóðu í 19$ í lok dags. Sem sagt, allir töpuðu (verðið er í kringum 17$ í dag). Eins og með Twitter og Facebook þá segir fyrsti dagur á markaði ekki alla söguna.

2 iCloud

Tekjur af sölu iPhone halda áfram að heilla en Apple þurfti engu að síður að takast á við erfið vandamál. Öryggismál iCloud vekja sérstaka athygli. Nektarmyndir af Jennifer Lawrence, Kate Upton og fleirum láku úr skýinu. Apple var harðlega gagnrýnt fyrir öryggismál en fyrirtækið sagði friðhelgi notenda örugga. Á endanum voru skilmálar og stillingar efld.

1 Gögnin þín

Þú áttir erfitt ár í netheimum. Þú kynntist ormum, vírusum og þjófum á borð við Regin, Heartbleed og Shellshock. Tölvurefir af öllum toga komust yfir gögn tugmilljóna einstaklinga um allan heim. Brotist var inn hjá fjölmörgum fyrirtækjum þar sem netvarnir voru af skornum skammti JP Morgan, Home Depot, Snapchat og nú síðast Sony. Það versta við þetta allt er að við neytendur berum sökina. Við framseljum persónuupplýsingar viljug, oft til fyrirtækja sem gæti ekki verið meira sama um netöryggi (lesist: Snapchat).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×