Tónlist

Justin Timberlake, Neil Young og tíu til viðbótar skemmtu Íslendingum

Freyr Bjarnason skrifar
Pikies tónleikar í Laugardalshöll 14. janúar.
Pikies tónleikar í Laugardalshöll 14. janúar.
Fjöldi frægra erlendra tónlistarmanna og hljómsveita steig á svið á Íslandi árið 2014. Fjölmennustu tónleikarnir voru með popparanum Justin Timberlake sem spilaði í Kórnum fyrir framan um sautján þúsund manns.

Pixies

11. júní Laugardalshöll

Þessi gamalkunna rokkhljómsveit sýndi hvað í hana er spunnið á tónleikum sínum í Höllinni. Hver rokkslagarinn á fætur öðrum hljómaði og söngvarinn Black Francis öskraði á áreynslulausan hátt.

Massive Attack

21. júní Laugardalur

Enska hljómsveitin var aðalnúmer tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice sem var haldin í fyrsta sinn í Laugardalnum. Tónleikarnir heppnuðust vel og fólk var með snjallsímana á lofti þegar lagið Teardrops tók að hljóma.

Tom Odell

26. júní Harpa

Hinn 23 ára breski tónlistarmaður og píanósnillingur tróð upp í Eldborgarsalnum í sumar við góðar undirtektir. Honum skaut upp á stjörnuhimininn á síðasti ári þegar hann gaf út plötuna Long Way Down.

Neil Young

7. júlí Laugardalshöll

Kanadíska goðsögnin steig á svið í fyrsta sinn á Íslandi ásamt hljómsveitinni Crazy Horse og voru tónleikarnir hluti af hátíðinni All Tomorow's Parties. Young var í fínu formi og spilaði nokkur af sínum bestu lögum, þar á meðal Heart of Gold.

Portishead

11. júlí Ásbrú

Triphop-hljómsveitin frá Bristol á Englandi stóð svo sannarlega undir væntingum á hátíðinni All Tomorrow's Parties sem var haldin í annað sinn á Ásbrú í sumar. Sannkölluð veisla, bæði fyrir augu og eyru.

Interpol

12. júlí Ásbrú

Þessir tónleikar á ATP-hátíðinni voru þeir fyrstu hjá bandarísku rokksveitinni á Íslandi og tókust einkar vel. Hljómsveitin var dugleg við að spila lög af tveimur fyrstu plötum sínum, sem eru í uppáhaldi hjá flestum aðdáendum hennar.

Bryan Adams

9. og 10. ágúst Harpa

Hjartaknúsarinn kanadíski sýndi allar sínar bestu hliðar á tvennum tónleikum. Adams var á ferðalagi um heiminn ásamt píanóleikara á svokölluðum Bare Bones-túr. Nutu íslensku áhorfendurnir mikillar nálægðar við söngvarann, sem hrósaði hljóminum í Eldborgarsalnum.

Justin Timberlake

24. ágúst Kórinn

Stórtónleikarnir voru hluti af tónleikaferð bandaríska popparans um heiminn. Þeir heppnuðustu einkar vel, enda höfðu þeir verið skipulagðir í þaula. Þessir sautján þúsund manna tónleikar voru sendir út í beinni útsendingu á vefsíðunni Yahoo.

UB40

19. september Harpa

Hljómsveitin var ákaflega vinsæl á níunda áratugnum og í byrjun þess tíunda með lögum á borð við Red Red Wine, I've Got You Babe og I Can't Help Falling in Love. Að sjálfsögðu spilaði hún sín bestu lög í Eldborgarsalnum við góðar undirtektir.

The Knife

8. nóvember Harpa

Þetta voru síðustu tónleikarnir á ferli hins sænska raftónlistardúetts, sem hafði ákveðið að leggja upp laupana að þeim loknum. Mikill fjöldi fólks var samankominn í Silfurbergi til að verða vitni að þessum tímamótum.

Flaming Lips

9. nóvember Vodafonehöllin

Bandaríska hljómsveitin The Flaming Lips spilaði á lokatónleikum Iceland Airwaves-hátíðarinnar. Þetta var í annað sinn sem hún kom hingað því hún spilaði einnig árið 2000 á Airwaves-hátíðinni. Tónleikarnir í Vodafonehöllinni heppnuðust einkar vel og voru mikið sjónarspil.

Slash

6. desember Laugardalshöll

Fyrrverandi gítarleikari bandarísku rokksveitarinnar Guns N'Roses sýndi snilldartilþrif á tónleikunum og spilaði lög á borð við Paradise City og Sweet Child O'Mine. Myles Kennedy sá um sönginn, sem minnti mjög á Axl Rose, söngvara Guns N'Roses.

Vísir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×