Lífið

Hljóðheimar hefja göngu sína á Vísi í næstu viku

Þórður Ingi Jónsson skrifar
„Það er verið að fjalla meira um sögurnar á bak við þessar hljómsveitir, ef til vill aðeins minni nördismi í gangi þótt það verði náttúrulega fjallað um einhverjar græjur,“ segir raftónlistarmaðurinn Guðni „Impulze“ Einarsson.

Guðni stýrir hinum vikulega tónlistarþætti Hljóðheimum, sem hefur göngu sína á Vísi næsta miðvikudag. Hann framleiðir þáttinn með myndatökumanninum Sindra Grétarssyni.

„Þetta er samt sem áður beint framhald af síðustu seríum,“ segir Guðni en í fyrravetur stýrði hann þættinum Á bak við borðin ásamt plötusnúðnum Adda Introbeats.

Guðni og Addi heimsóttu stúdíó og grennsluðust fyrir um vinnuferli mismunandi tónlistarmanna. Þættirnir voru í sýningu hér á Vísi og vöktu mikla athygli meðal áhugamanna um tónlist.

„Þetta er svolítið frábrugðið hinni seríunni þar sem var bara verið að fjalla um raftónlistina en þetta er meira blanda. Við erum með popp, rokk, raftónlist og svo heimsækjum við líka hljóðver og fleira,“ segir Guðni.

„Það má segja að þessir þættir séu gerðir fyrir breiðari hóp heldur en fyrri serían.“

Meðal gesta Guðna í þessarri þáttaröð af Hljóðheimum eru Sölvi Blöndal, Reykjavíkurdætur, Valgeir Sigurðsson í Bedroom Community, Óttarr Proppé og Boogie Trouble.

Hljóðheimar hefja göngu sína á Vísi í næstu viku. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá tökunum á þáttaröðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×