Íslenski boltinn

KV veltir fyrir sér hvort það vilji fara aftur upp í 1. deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Formaður og þjálfari. Páll Kristjánsson hjá KV.
Formaður og þjálfari. Páll Kristjánsson hjá KV. fréttablaðið/daníel
Páll Kristjánsson, formaður KV, segir að liðið hafi varla áhuga á að taka annað eins tímabil í 1. deild karla og það gerði í sumar. KV féll úr 1. deildinni í haust og segir Páll að sú spurning hafi vaknað hjá sér hvort hann hafi í raun áhuga á því að keppa að því að komast aftur upp úr 2. deildinni.

„Markmiðið er auðvitað að ná árangri en miðað við hvernig sumarið var þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé einhver vilji til þess að fara aftur upp í 1. deildina,“ segir Páll.

KV stóðst ekki kröfur sem KSÍ gerir til liða í 1. deild en fékk undanþágu til að spila í deildinni síðasta sumar. Hins vegar er óvíst hvernig KSÍ tæki á máli KV ef liðið kæmist aftur upp úr 2. deildinni. Þar að auki uppfyllti félagið ekki mannvirkjakröfur sem varð til þess að KV varð að spila heimaleiki sína á gervigrasvellinum í Laugardal.

„Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í öðrum eins ágreiningi við KSÍ og við gerðum og spila okkar heimaleiki í öðrum bæjarhluta með tilheyrandi kostnaði. Það fór því í gegnum hugann af hverju maður er að standa í þessu þegar það stríðir í raun gegn tilgangi félagsins að koma því upp um deild. Við erum ekki í þessu til að berjast um þriðja sætið,“ segir Páll.

Hann tekur þó skýrt fram að það sé enginn uppgjafartónn í forráðamönnum KV. „Við verðum í 2. deildinni og munum taka slaginn. Það stendur alls ekki til að hætta starfseminni,“ segir Páll og bætir við að hann eigi ekki von á að KSÍ mæti sjónarmiðum félagsins í framtíðinni.

„KSÍ hefur borið fyrir sig að svona lagað sé alltaf ákvörðun knattspyrnuhreyfingarinnar og þeir verði að fylgja vilja hennar. En ég er ekki sammála því. Það er ákvörðun stjórnar að veita undanþágur og hún kaus að að taka á þessu á þennan máta. Þeir hjá KSÍ eru örugglega manna fegnastir að við fórum niður.“

KV náði átján stigum á sínu fyrsta tímabili í 1. deildinni og vann til að mynda ÍA á Skipaskaga. Félagið fagnaði tíu ára afmæli sínu fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×