Lífið

Skutu hrollvekju á fimm dögum á Mýrdalssandi

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Myndin er drungaleg framtíðarsýn sem gerist eftir fall siðmenningar.
Myndin er drungaleg framtíðarsýn sem gerist eftir fall siðmenningar.
„Listrænt er þetta metnaðarfyllsta norska vísindaskáldskaparmynd allra tíma,“ er ritað í bækling alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Bergen um Morgenrøde eða Morgunroða, fyrstu mynd norska leikstjórans Anders Elsrud Hultgreen.

Morgunroði var sýnd fjórum sinnum á RIFF nú á dögunum en myndin var tekin upp á Mýrdalssandi í fyrra. Um er að ræða drungalega vísindaskáldskaparmynd sem gerist eftir fall siðmenningar, en Anders lýsir myndinni sem „post-ragnarök“-mynd en það er skírskotun í svokallaðar „post-apocalypse“-myndir, vísindaskáldskap sem gerist eftir endalok siðmenningar.

„Mér fannst áhugaverðara að nota hugtakið „ragnarök“ þó að myndin lýsi ekki einhverjum ákveðnum stað í framtíðinni. Í myndinni er notast við mikið af táknum gamalla og gleymdra trúarbragða. Það eru vísanir í ásatrú, abrahamísk-trúarbrögð og indverska trúarritið Bhagavad Gita,“ segir Anders.

Myndin fjallar um pílagrím sem hittir dularfullan flæking á ferðalagi um eyðilönd. Þeir ferðast saman í leit að tæru drykkjarvatni. „Ef þú ferðast um eyðisanda í leit að mat og vatni og sérð einhvern sem hefur lifað af ragnarök, þá hefurðu gríðarlegar grunsemdir gagnvart honum og auðvitað gagnvart þessu ógestrisna landslagi.“

Hlutverkin leika Torstein Bjørklund og Ingar Helge Gimle, en hann lék í myndinni Død snø 2 sem var einnig tekin upp hér á landi.

„Myndin gerist í heimi þar sem öll pólitísk og menningarleg landamæri hafa horfið en á sama tíma gæti hún gerst í einhvers konar goðsögulegu rými, sem hvorki er bundið við tíma né stað. Svipað og í mörgum trúarlegum textum þar sem atburðarásin gerist ekki í heiminum eins og við þekkjum hann, heldur á einhvers konar staðleysu.“

Að sögn Anders var myndin tekin upp á fimm dögum með fimm manna tökuliði. Hópnum til halds og trausts var Land Rover-jeppi, sem gerði þeim kleift að keyra yfir ár og sanda.

Anders, sem sá sjálfur um að skrifa handritið, leikstýra, skjóta og klippa myndina, segir að hann sé nú að vinna að því að fá myndina í almennar sýningar í Noregi og á Íslandi. Eftir það stendur til að gefa hana út. „Það tekur bara meiri tíma þegar þú gerir allt sjálfur.“












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.