Menning

Bregðast við ástandinu í Palestínu með ljóðum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Eiríkur Örn: "Mér fannst ég allavega þurfa að gera eitthvað pínulítið og mig grunaði að fleirum væri þannig innanbrjósts, sem reyndist alveg rétt.“
Eiríkur Örn: "Mér fannst ég allavega þurfa að gera eitthvað pínulítið og mig grunaði að fleirum væri þannig innanbrjósts, sem reyndist alveg rétt.“ Vísir/GVA
„Þessi bók varð til í öngum sínum,“ segir Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur og ritstjóri vefritsins Starafugls, um tilurð rafbókarinnar Viljaverk í Palestínu sem kom út í vikunni. „Það eru allir í öngum sínum yfir ástandinu í Palestínu og fullir af vanmáttartilfinningu yfir því að geta ekki gert neitt. Mér fannst ég allavega þurfa að gera eitthvað pínulítið og mig grunaði að fleirum væri þannig innanbrjósts, sem reyndist alveg rétt.“



Eiríkur Örn valdi sjálfur skáldin sem eiga ljóð í bókinni og segir viðbrögðin hafa verið með eindæmum góð. „Sum ljóðanna í bókinni urðu reyndar til löngu fyrr og nokkur þeirra hafa birst áður en flest þeirra eru þó ort fyrir þessa bók. Áskorunin sem skáldin fengu fyrir viku var að bregðast með einhverjum hætti við frægu ljóði Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu. Tekið var fram að þau mættu sjálf túlka hvað fælist í „viðbragði“ – að það þyrfti ekki nauðsynlega að vera nýr texti og gæti þess vegna verið þýðing á hundgömlu kvæði, ef það passaði.“



Bókin er birt á vefsíðu Starafugls á þrenns konar rafrænu formi og öllum opin án endurgjalds. Eiríkur er mikill talsmaður þess að aðgangur að bókmenntum á rafrænu formi sé ókeypis, er það af hugsjón? „Bæði og. Ljóðlist er að mörgu leyti frekar illseljanleg. Bandaríska ljóðskáldið James Sherry reiknaði það út að auð pappírsörk hefði ákveðið peningagildi en um leið og þú prentaðir ljóð á hana þá færirðu að tapa. Ég lít þannig á að þú þurfir ekki að prenta bók til þess að hún verði til og í vissum tilfellum sé betra að sleppa því. Eins og í þessu tilfelli þegar maður vill geta brugðist hratt og örugglega við eru pappírinn og prentsmiðjan of mikill flöskuháls. Það var hægt að gera þessa bók á einni viku með hjálp alls þessa góða fólks, en ef við hefðum prentað hana hefði það tekið að minnsta kosti mánuð í viðbót.“



Eiríkur stofnaði menningarvefritið Starafugl í vor til þess að auka menningarumfjöllun. „Mér fannst eitthvað vanta. Það eru ekki lengur neinir menningarkálfar í dagblöðunum og mér finnst menningunni ekki gert nógu hátt undir höfði í fjölmiðlum. Enn sem komið er eru öll skrif á Starafugli unnin í sjálfboðavinnu og sama gildir um bókina, Viljaverk í Palestínu, það gáfu allir sem að henni komu vinnu sína. Ég vil hins vegar benda þeim sem eru aflögufærir og vilja þakka fyrir sig á neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína, en allar upplýsingar um hvernig hægt er að leggja fram fé í söfnunina er að finna í aðfaraorðum bókarinnar á starafugl.is.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.