Íslenski boltinn

Fer ekkert fram úr mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Elís skoraði tvö gegn Keflavík og lagði upp eitt. Hann hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum með liði Víkings.
Aron Elís skoraði tvö gegn Keflavík og lagði upp eitt. Hann hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum með liði Víkings. fréttablaðið/vilhelm
Hinn nítján ára Aron Elís Þrándarson átti enn einn stórleikinn fyrir nýliða Víkinga og skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Keflavík auk þess að leggja upp þriðja mark sinna manna. Víkingur er því í fjórða sæti deildarinnar þegar mótið er hálfnað með jafn mörg stig og Íslandsmeistarar KR.

„Við ætluðum að stimpla okkur inn í toppbaráttuna með þessum sigri og mér fannst við eiga sigurinn skilið,“ sagði Aron Elís í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Við reiknuðum allt eins með því fyrir mótið að vera á þessum slóðum, þó svo að það komi kannski á óvart að við séum jafnir KR að stigum. Við ætlum að halda okkur á þessu reiki í deildinni en það þýðir þá að við verðum að spila áfram eins og menn.“

Aron segir að það hafi verið markmið liðsins fyrir tímabilið að festa sig í sessi í efstu deild. „Við höfum enn ekki náð því markmiði enda getur leiðin verið hröð niður á við ef við töpum nokkrum leikjum í röð. Nú eigum við næst leik gegn Fjölni og við stefnum að því að halda okkar striki.“

Eins og blaut tuska í andlitið

Víkingur tapaði fyrir Fjölni í fyrstu umferð tímabilsins í vor, 3-0, en bæði lið eru nýliðar. „Ég sat uppi í stúku í þeim leik og það var erfitt að horfa upp á það tap. Það var eins og að fá blauta tusku í andlitið og ég held að menn hafi rifið sig í gang eftir það tap. Síðan þá hefur leiðin aðeins legið upp á við,“ segir kappinn.

Aron Elís hefur skarað fram úr í sterku liði Víkinga en hann segir að fleiri eigi hrós skilið en bara hann. „Við eigum fullt af leikmönnum sem hafa stigið upp og sannað sig í efstu deild. Margir hverjir voru óþekktir fyrir tímabilið en við höfum sýnt að við eigum fullt erindi í þessa deild.“

Fjölmiðlar og sparkspekingar hafa keppst við að hlaða Aron Elís lofi og Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, hvatti knattspyrnuáhugamenn til að fjölmenna á völlinn til að sjá drenginn spila. Hann segir þó ekki erfitt að halda sér á jörðinni.

„Mér líður bara mjög vel. Ég fer ekkert fram úr mér þó svo að það gangi vel,“ segir Aron Elís sem hefur vakið áhuga fjölmargra erlendra félaga að sögn umboðsmanns hans.

„Það er þó ekkert fast í hendi og á meðan svo er held ég mínu striki með Víkingum. Stefnan hjá mér er að komast út,“ segir Aron en viðurkennir að það væri erfitt að fara frá Víkingum á þessum tímapunkti.

„Ég tel að ég muni klára tímabilið hér heima nema eitthvað óvænt komi upp. Auðvitað óska ég þess að það gerist í framtíðinni og að ég komist í atvinnumennsku en það eru samt mjög spennandi tímar fram undan hér heima – staða okkar í deildinni er sterk og við erum komnir í undanúrslit bikarkeppninnar. Það væri erfitt að ganga frá því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×