Íslenski boltinn

Leitaði að Skagaleiknum á leikjaplaninu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Kristjánsson er í hópi stofnenda KV og á það á ferilskránni að hafa unnið ÍA á Akranesi.
Páll Kristjánsson er í hópi stofnenda KV og á það á ferilskránni að hafa unnið ÍA á Akranesi. Vísir/Daníel
„Þetta er sá leikur sem maður leitaði fyrst eftir þegar leikjadagskráin var gefin út,“ sagði Páll Kristjánsson, formaður og annar þjálfara KV sem vann frækinn 1-0 sigur á Akranesi í 1. deild karla í fyrrakvöld.

Saga ÍA er glæsileg en liðið hefur átján sinnum orðið Íslandsmeistari. KV var hins vegar stofnað fyrir áratug af nokkrum KR-ingum sem vildu halda áfram að spila fótbolta eftir að hafa klárað 2. flokk en komust ekki í meistaraflokk KR. Páll var í þeim hópi.

„Þá fór maður á æfingar hjá hinum og þessum liðum en alltaf var það eitthvað sem togaði mann aftur í Vesturbæinn. Maður vildi bara spila fótbolta á sínum heimavelli,“ segir Páll en í september 2004 stofnaði hann KV ásamt tíu vinum sínum.

Síðan þá hefur uppgangurinn verið mikill og í haust var hápunktinum náð þegar liðið vann sér sæti í 1. deildinni. Um svipað leyti féll ÍA úr Pepsi-deildinni og því ljóst að þessi lið myndu mætast í deildarleik.

„Ég og við allir höfðum margoft komið upp á Skaga sem stuðningsmenn KR. Oft kom maður hundfúll til baka, hvort sem er með Akraborginni eða í gegnum göngin. Við vorum því afar spenntir fyrir þessum leik,“ lýsir Páll.

Sigurinn var ekki síður kærkominn fyrir KV sem hefur verið í botnbaráttu framan af tímabili. Stigin þrjú eru því liðinu afar dýrmæt og segir Páll að verkefni liðsins sé ljóst.

„Fyrst og fremst að festa okkur í sessi í 1. deildinni og eftir það horfum við fram á veginn,“ segir hann en Páll hugsar ekki lengra fram í tímann en eitt tímabil í einu. „Við stefnum þó eins hátt og við getum,“ segir Páll.

KV er vitaskuld nátengt KR en flestir leikmenn liðsins eru uppaldir í síðarnefnda liðinu. Þessi lið hafa enn ekki mæst í mótsleik en Páll segir að það verði í grunninn eins og hver annar leikur.

„Það verður leikur tveggja liða og þá stend ég auðvitað með mínum mönnum í KV. Annars er ég KR-ingur og það mun ekkert breytast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×