Íslenski boltinn

Veðmálasíða neyddist til þess að lækka stuðulinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Dalvíkur/Reynis í 2. deild karla síðastliðið sumar. Leikmennirnir á myndinni tengjast fréttinni ekki með beinum hætti.
Úr leik Dalvíkur/Reynis í 2. deild karla síðastliðið sumar. Leikmennirnir á myndinni tengjast fréttinni ekki með beinum hætti. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
Töluvert hærri upphæðir voru lagðar undir á leik Þórs og Dalvíkur/Reynis í Kjarnafæðismótinu þann 13. janúar síðastliðinn en eðlilegt getur talist. Þetta staðfesti Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri hjá Íslenskum getraunum.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að einn leikmanna Dalvíkur/Reynis hafi viðurkennt fyrir formanni knattspyrnudeildar félagsins að hafa veðjað á að Þór myndi vinna að minnsta kosti þriggja marka sigur. Svo fór að Þór vann 7-0 sigur.

Á sínum tíma komu fram ásakanir um að leikmenn Þórs hefðu veðjað á leikinn en því hafa forráðamenn félagsins staðfastlega neitað, sem og leikmennirnir sjálfir. Hins vegar liggur fyrir að óeðlilega var lagt undir á minnst þriggja marka sigur Þórs á erlendri vefsíðu.

„Íslenskar getraunir eru í samtökum veðmálafyrirtækja í Evrópu sem starfrækja eftirlitskerfi, ELMS. Þegar þessar fréttir komu fyrst fram höfðum við samband við þessi samtök og í ljós kom að óeðlilegar háar upphæðir voru lagðar á þetta ákveðna veðmál,“ segir Pétur Hrafn sem hafði þó ekki nákvæmar upplýsingar um upphæðir sem lagðar voru að veði.

„Þær voru þó það háar að viðkomandi veðmálasíða lækkaði stuðulinn á veðmálinu. Alla jafna þarf töluvert mikið til að það sé gert,“ bætir hann við.

KSÍ ítrekar beiðni sína

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að sambandið muni aftur óska eftir upplýsingum frá forráðamönnum Dalvíkur/Reynis um umræddan leik.

„Það kemur mér undarlega fyrir sjónir að KSÍ fái þessar upplýsingar fyrst í gegnum fjölmiðla. Ekki síst þar sem ég óskaði eftir upplýsingum á sínum tíma,“ sagði Þórir og vísaði til umfjöllunar Fréttablaðsins um málið í gær.

Hann segir að KSÍ muni ekki koma með frekari viðbrögð vegna þessa máls fyrr en það hafi fengið svar frá Dalvík/Reyni. Hann ítrekaði þó að viðkomandi leikmanni er óheimilt að veðja á leiki liðs síns en slíkt athæfi er refsivert samkvæmt reglum KSÍ.

Þórir vildi heldur ekki svara hvort þetta tiltekna mál varpaði skugga á íslenska knattspyrnu.

„Um það vil ég ekki dæma að svo stöddu. En það er vissulega ákveðinn blettur á knattspyrnunni ef menn brjóta gegn þeim reglum sem ríkja.“

Áður hefur komið fram að Dalvík/Reynir hafnaði ósk KSÍ um aðstoð við rannsókn þess á umræddum leik eftir að ásakanirnar komu fyrst fram í lok janúar. Þórir segir að þær nýju upplýsingar sem nú hafa komið fram breyti ekki afstöðu hans til neitunar norðanmanna.

Formaðurinn tjáir sig ekki

Fréttablaðið hafði einnig samband við Kristján Ólafsson, formann UMF Svarfdæla, en knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis er starfrækt undir félaginu.

„Stjórnin mun ekki skipta sér af þessu máli að svo stöddu,“ sagði Kristján og vildi ekki svara hvort hann teldi að umræddur leikmaður hafi teflt heiðri félagsins í hættu með því að veðja á tap liðsfélaga sinna.

Fram kom í máli Stefáns Garðars Níelssonar, formanns knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, í gær að viðkomandi leikmaður hafi ekki verið beinn þátttakandi í leiknum né heldur í leikjum liðsins á Íslandsmótinu í sumar. Dalvík/Reynir leikur í 2. deild karla. Hann neitaði að gefa upp nafn leikmannsins.


Tengdar fréttir

Íslenskur leikmaður veðjaði á úrslit eigin liðs

Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í gær að leikmaður félagsins hefur viðurkennt að hafa veðjað á úrslit eigin liðs í janúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×