Á Íslendingaslóðum Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. maí 2014 07:00 Þjóðsögurnar gömlu byrja gjarnan á því að maður er að elta kindur upp á fjöll og villist, lendir í gjörningaþoku og ráfar um kaldur og hrakinn. Ef hann er óheppinn hittir hann tröll sem annaðhvort sýður hann í potti og étur svo eða gerir hann að kynlífsþræl – nema hvort tveggja sé. Stundum kemst hann til byggða um síðir og „þótti fáskiptinn upp frá því“. Sé sauðamaður hins vegar heppinn í þessum sögum verður á vegi hans mennskur maður – „mikill maður vexti“ búinn í gæru, og segir honum að fylgja sér; leiðir hann síðan út úr þokunni og í dal nokkurn mikinn og búsældarlegan þar sem ganga feitir sauðir og smjör drýpur af hverju strái. Í þessum dal, einhvers staðar lengst inni á hálendi Íslands, er falleg byggð sem samanstendur af fallegu og glöðu fólki sem fagnar byggðamanni, býður honum feitt ket að snæða lyst sína af, vísar honum til sængur í góðu rúmi… Þetta eru útilegumenn og iðulega endar sauðamaður hjá þeim, giftist heimasætunni og á náðuga daga upp frá því. Þetta eru auðvitað hugarórar banhungraðs fólks. Í þessum gömlu sögum endurspeglast hinn gamli draumur íslensks alþýðufólks: að komast burt. Í þeim skilningi eru þessir útilegumenn ekki fólk sem var sent burt – heldur fólkið sem komst burt. Þegar maður kemur í Íslendingabyggðir í Kanada líður manni svolítið eins og sauðamanninum í þjóðsögunum. Maður hefur gengið inn í aðra vídd og hittir þar skyndilega aðra tegund af Íslendingum; afkomendur þeirra sem fóru burt, og komust burt – hurfu inn í aðra vídd, en eru eigi að síður raunverulega til. Þetta eru Kanadamenn en líka Íslendingar. Maður hittir hér afkomendur skálda eins og Stephans G. og Páls Ólafssonar og manni finnst sem maður komist í einhvers konar samband við þessi skáld og þeirra tíma – þeirra Ísland – og maður verður undarlega snortinn, eiginlega stjörnulostinn. Afkomandi Páls reyndist elskuleg kona sem heitir Lois, kölluð Lóa, og gott ef yfir henni var ekki einmitt sama dugnaðarfasið og hjá lóunni hjá Páli. Afkomandi Stephans var dóttursonur hans og nafni sem var afar stoltur af enskri útgáfu ævisögu Stephans eftir Viðar Hreinsson sem hlotið hefur viðurkenningu hér í Kanada. Hann lítur út alveg eins og skáldið gamla og ekki hægt annað en að fara að þylja yfir honum: „Vinur aftansólar sértu /sonur morgunroðans vertu …“ Þetta fólk er að mörgu leyti ólíkt okkur sem komin erum af þeim sem eftir sátu. Það er skrafhreifið á ameríska vísu, ekki blaðskellandi en opið og afar vingjarnlegt; ekki til þumbarabragur á því. Einn heimamaður, ættaður frá Vopnafirði, sagði mér að Vestur-Íslendingar séu alltaf að halda ræður, og ég gat frætt hann á því að þetta myndu vera afkomendur þeirra fjölmörgu Þingeyinga sem fóru vestur um haf. Sami maður lýsti fyrir mér þeim trega sem greip hann eitt sinn þegar hann heyrði íslenskar flugfreyjur tala saman um eitthvað skemmtilegt, svona eins og íslenskar konur geta orðið skemmtilegar, og hann fékk einhvers konar hugljómun. Hann heyrði hversu fallegt málið var, hann heyrði músíkina í hljómfalli þess og hversu ljóðrænt og lifandi það myndi vera og hversu ánægjulegt væri að tala það; og hann fylltist trega yfir því að foreldrar hans skyldu aldrei hafa kennt honum íslensku því að hann skynjaði málið á einhvern máta í heilastöðvunum; hann fann eitthvað bærast inni í sér þegar hann hlustaði á málið. Ég hef hitt margt roskið fólk hér í Winnipeg sem hefur svipaða sögu að segja; foreldrar þess – önnur kynslóðin – miðlaði ekki málinu. Það er lífsins gangur. Treginn er aldrei alveg fjarri þrátt fyrir glaðværð og vingjarnlegt viðmót. Margar myndir eiga eftir að sitja í manni alla tíð: Fullur salur af Vestur-Íslendingum sem sitja í djúpri andakt og hlusta á Draumalandið eftir Sigfús Einarsson og Jón Trausta flutt af tenórsöngvara, sem reyndar er ekki af íslensku bergi brotinn en flutningurinn er innilegur og framburðinn lýtalaus. Sum raula lágt með, og líka í Svanurinn minn syngur eftir Kaldalóns og Höllu. Þetta er íslenskur tregi. Hjá manni vaknar óljós tilfinning fyrir einhverju gömlu andspænis þessu fólki þrátt fyrir enskuna og kanadískt yfirbragð. Það hefur fengið í arf – og ávaxtað – menningu sem ríkti á Íslandi fyrir aldamótin 1900 og síðan runnið saman við viðhorf og aðferðir annarra þjóða í þeim mikla þjóðarpotti sem hér er. Við fengum þennan arf líka en hann rann saman við eitthvað allt annað hjá okkur. Það er eitthvað kunnuglegt við þetta fólk án þess að maður komi því beinlínis fyrir sig; einhver strengur í því sem maður skynjar að kunni að eiga sér samhljóm í manni sjálfum. Í hugarheimi þessa fólks er svæði helgað Íslandi – hugmyndinni um Ísland – þjóðrækninni sem manni beri að halda í heiðri – og þetta íslenska svæði er á vissan máta óumbreytanlegt og kyrrstætt. Þetta fólk hefur ákveðna mynd af landinu og þjóðinni, íslensku fjöllunum og dölunum – þar átti hún amma heima og þar eru helgistaðir í augum margra. Við sem erum komin af þeim sem urðu eftir – við erum öðruvísi, við erum brynjaðri um sumt, sérstaklega Reykjavíkurfólkið sem er kaldranalegra og kaldhæðnara, jafnvel beiskara í garð landsins okkar og hins íslenska veruleika sem fyrir okkur er síbreytilegur og hverfull og endalaus þrasuppspretta. Fyrir mann sem kemur úr slíku umhverfi er mikil og holl reynsla að finna fölskvalausa og djúpa og einlæga ást á því sem íslenskt er. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Þjóðsögurnar gömlu byrja gjarnan á því að maður er að elta kindur upp á fjöll og villist, lendir í gjörningaþoku og ráfar um kaldur og hrakinn. Ef hann er óheppinn hittir hann tröll sem annaðhvort sýður hann í potti og étur svo eða gerir hann að kynlífsþræl – nema hvort tveggja sé. Stundum kemst hann til byggða um síðir og „þótti fáskiptinn upp frá því“. Sé sauðamaður hins vegar heppinn í þessum sögum verður á vegi hans mennskur maður – „mikill maður vexti“ búinn í gæru, og segir honum að fylgja sér; leiðir hann síðan út úr þokunni og í dal nokkurn mikinn og búsældarlegan þar sem ganga feitir sauðir og smjör drýpur af hverju strái. Í þessum dal, einhvers staðar lengst inni á hálendi Íslands, er falleg byggð sem samanstendur af fallegu og glöðu fólki sem fagnar byggðamanni, býður honum feitt ket að snæða lyst sína af, vísar honum til sængur í góðu rúmi… Þetta eru útilegumenn og iðulega endar sauðamaður hjá þeim, giftist heimasætunni og á náðuga daga upp frá því. Þetta eru auðvitað hugarórar banhungraðs fólks. Í þessum gömlu sögum endurspeglast hinn gamli draumur íslensks alþýðufólks: að komast burt. Í þeim skilningi eru þessir útilegumenn ekki fólk sem var sent burt – heldur fólkið sem komst burt. Þegar maður kemur í Íslendingabyggðir í Kanada líður manni svolítið eins og sauðamanninum í þjóðsögunum. Maður hefur gengið inn í aðra vídd og hittir þar skyndilega aðra tegund af Íslendingum; afkomendur þeirra sem fóru burt, og komust burt – hurfu inn í aðra vídd, en eru eigi að síður raunverulega til. Þetta eru Kanadamenn en líka Íslendingar. Maður hittir hér afkomendur skálda eins og Stephans G. og Páls Ólafssonar og manni finnst sem maður komist í einhvers konar samband við þessi skáld og þeirra tíma – þeirra Ísland – og maður verður undarlega snortinn, eiginlega stjörnulostinn. Afkomandi Páls reyndist elskuleg kona sem heitir Lois, kölluð Lóa, og gott ef yfir henni var ekki einmitt sama dugnaðarfasið og hjá lóunni hjá Páli. Afkomandi Stephans var dóttursonur hans og nafni sem var afar stoltur af enskri útgáfu ævisögu Stephans eftir Viðar Hreinsson sem hlotið hefur viðurkenningu hér í Kanada. Hann lítur út alveg eins og skáldið gamla og ekki hægt annað en að fara að þylja yfir honum: „Vinur aftansólar sértu /sonur morgunroðans vertu …“ Þetta fólk er að mörgu leyti ólíkt okkur sem komin erum af þeim sem eftir sátu. Það er skrafhreifið á ameríska vísu, ekki blaðskellandi en opið og afar vingjarnlegt; ekki til þumbarabragur á því. Einn heimamaður, ættaður frá Vopnafirði, sagði mér að Vestur-Íslendingar séu alltaf að halda ræður, og ég gat frætt hann á því að þetta myndu vera afkomendur þeirra fjölmörgu Þingeyinga sem fóru vestur um haf. Sami maður lýsti fyrir mér þeim trega sem greip hann eitt sinn þegar hann heyrði íslenskar flugfreyjur tala saman um eitthvað skemmtilegt, svona eins og íslenskar konur geta orðið skemmtilegar, og hann fékk einhvers konar hugljómun. Hann heyrði hversu fallegt málið var, hann heyrði músíkina í hljómfalli þess og hversu ljóðrænt og lifandi það myndi vera og hversu ánægjulegt væri að tala það; og hann fylltist trega yfir því að foreldrar hans skyldu aldrei hafa kennt honum íslensku því að hann skynjaði málið á einhvern máta í heilastöðvunum; hann fann eitthvað bærast inni í sér þegar hann hlustaði á málið. Ég hef hitt margt roskið fólk hér í Winnipeg sem hefur svipaða sögu að segja; foreldrar þess – önnur kynslóðin – miðlaði ekki málinu. Það er lífsins gangur. Treginn er aldrei alveg fjarri þrátt fyrir glaðværð og vingjarnlegt viðmót. Margar myndir eiga eftir að sitja í manni alla tíð: Fullur salur af Vestur-Íslendingum sem sitja í djúpri andakt og hlusta á Draumalandið eftir Sigfús Einarsson og Jón Trausta flutt af tenórsöngvara, sem reyndar er ekki af íslensku bergi brotinn en flutningurinn er innilegur og framburðinn lýtalaus. Sum raula lágt með, og líka í Svanurinn minn syngur eftir Kaldalóns og Höllu. Þetta er íslenskur tregi. Hjá manni vaknar óljós tilfinning fyrir einhverju gömlu andspænis þessu fólki þrátt fyrir enskuna og kanadískt yfirbragð. Það hefur fengið í arf – og ávaxtað – menningu sem ríkti á Íslandi fyrir aldamótin 1900 og síðan runnið saman við viðhorf og aðferðir annarra þjóða í þeim mikla þjóðarpotti sem hér er. Við fengum þennan arf líka en hann rann saman við eitthvað allt annað hjá okkur. Það er eitthvað kunnuglegt við þetta fólk án þess að maður komi því beinlínis fyrir sig; einhver strengur í því sem maður skynjar að kunni að eiga sér samhljóm í manni sjálfum. Í hugarheimi þessa fólks er svæði helgað Íslandi – hugmyndinni um Ísland – þjóðrækninni sem manni beri að halda í heiðri – og þetta íslenska svæði er á vissan máta óumbreytanlegt og kyrrstætt. Þetta fólk hefur ákveðna mynd af landinu og þjóðinni, íslensku fjöllunum og dölunum – þar átti hún amma heima og þar eru helgistaðir í augum margra. Við sem erum komin af þeim sem urðu eftir – við erum öðruvísi, við erum brynjaðri um sumt, sérstaklega Reykjavíkurfólkið sem er kaldranalegra og kaldhæðnara, jafnvel beiskara í garð landsins okkar og hins íslenska veruleika sem fyrir okkur er síbreytilegur og hverfull og endalaus þrasuppspretta. Fyrir mann sem kemur úr slíku umhverfi er mikil og holl reynsla að finna fölskvalausa og djúpa og einlæga ást á því sem íslenskt er.