Þétting byggðar í nærveru sálar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. maí 2014 00:01 Reykjavíkurborg hefur með nýju aðalskipulagi markað þá stefnu að þétta byggð í borginni og byggja fremur á lóðum í eldri hverfum en að þenja borgina meira út. Þetta er góð stefna, sem getur stuðlað að því að bæta borgarbraginn, nýta betur fjárfestingu í veitu- og gatnakerfum, gera almenningssamgöngur hagkvæmari og ýta undir fleiri samgöngumáta en einkabílinn. Stefnan er hins vegar ekki alveg einföld í framkvæmd. Ólíkt því þegar hverfi eru byggð frá grunni getur þéttingin haft margvísleg áhrif á lífsgæði og rétt íbúa sem fyrir eru í hverfunum. Undanfarið hafa komið upp tvö dæmi um hvernig á augljóslega ekki að ganga fram við þéttingu byggðar í eldri hverfum. Um miðjan febrúar var íbúum í nágrenni Lýsisreitsins svokallaða í Vesturbænum nóg boðið vegna stöðugra sprenginga fyrir grunni nýs fjölbýlishúss. Sprengt var alveg við lóðamörkin hjá þeim, nokkra metra frá húsveggnum. Verktakinn og borgaryfirvöld héldu því fram að sprengingarnar væru innan viðmiðunarmarka (sem taka kannski mið af því að verið sé að sprengja einhvers staðar úti í móa en ekki í þéttri byggð) og tryggingafélög vildu fyrir vikið ekki bæta augljósan skaða á sumum húsunum. Með öðrum orðum vildi enginn bera ábyrgð á tjóni og óþægindum íbúanna. Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður hverfisráðs Vesturbæjar, sagði þá réttilega hér í blaðinu að borgin yrði að taka föstum tökum hver í borgarkerfinu bæri ábyrgðina. „Þegar fyrir liggur að stefna borgarinnar er að þétta byggð er það brýnt hagsmunamál fyrir íbúa að það sé skýrt hver beri ábyrgðina. Framkvæmdir eiga að ganga betur en svo að íbúar séu óöruggir með rétt sinn,“ sagði Hildur. Í framhaldi af þessu var samþykkt í borgarstjórn, að tillögu sjálfstæðismanna, að setja á fót starfshóp um framkvæmdir á þéttingarsvæðum, til að tryggja að þéttingin yrði í sátt við umhverfið og borgarbúa. Fréttablaðið sagði frá því í gær að á sex vikum hefði borgarstjórnarmeirihlutinn ekkert gert í málinu og enginn hópur verið skipaður. Hins vegar smellti meirihlutinn fram svokallaðri verklýsingu fyrir nýtt hverfisskipulag Vesturbæjarins, þar sem gert er ráð fyrir ýmsum þéttingarmöguleikum, til dæmis að byggja á illa nýttum fjölbýlishúsalóðum. Það er ekki galin hugmynd, en íbúum viðkomandi húsa komu áformin í opna skjöldu. Það er engin furða að fólki bregði þegar lagt er til í plaggi frá borginni að bílskúrinn hjá því verði rifinn og byggð blokk í staðinn. Íbúar gömlu hverfanna ættu oft að sjá sér hag í þéttingu byggðar. En áformin um hana verður að vinna í sátt og samstarfi við íbúana. Ótal spurningar vakna hjá fólki þegar lagt er til að byggja inni í grónum hverfum. Eru skólar og leikskólar í stakk búnir að taka við fleiri börnum? Mun umferð aukast? Mun skyggja á lóðir? Verða nóg bílastæði? Hver bætir hugsanlegar skemmdir eða rask vegna framkvæmda? Þá umræðu þarf að taka strax, ekki skella fram vanhugsuðum hugmyndum sem íbúar líta á sem árás á rétt sinn og hagsmuni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Isavia sóar fjármagni í eigin ímynd Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun Ísland undaskilið alþjóðlegum kolefniskvóta Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Vöruhúsið í Álfabakka - í boði hvers? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Forseti ASÍ á skautum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Sníkjudýr? Efling afhjúpar eðli sitt Aðalgeir Ásvaldsson Skoðun Stórkostlega ungur Kristján Friðbert Friðbertsson Skoðun Forgangsröðum forgangsröðun Gylfi Ólafsson Skoðun Yrkjum lífsgæði í Dölunum Björn Bjarki Þorsteinsson Skoðun
Reykjavíkurborg hefur með nýju aðalskipulagi markað þá stefnu að þétta byggð í borginni og byggja fremur á lóðum í eldri hverfum en að þenja borgina meira út. Þetta er góð stefna, sem getur stuðlað að því að bæta borgarbraginn, nýta betur fjárfestingu í veitu- og gatnakerfum, gera almenningssamgöngur hagkvæmari og ýta undir fleiri samgöngumáta en einkabílinn. Stefnan er hins vegar ekki alveg einföld í framkvæmd. Ólíkt því þegar hverfi eru byggð frá grunni getur þéttingin haft margvísleg áhrif á lífsgæði og rétt íbúa sem fyrir eru í hverfunum. Undanfarið hafa komið upp tvö dæmi um hvernig á augljóslega ekki að ganga fram við þéttingu byggðar í eldri hverfum. Um miðjan febrúar var íbúum í nágrenni Lýsisreitsins svokallaða í Vesturbænum nóg boðið vegna stöðugra sprenginga fyrir grunni nýs fjölbýlishúss. Sprengt var alveg við lóðamörkin hjá þeim, nokkra metra frá húsveggnum. Verktakinn og borgaryfirvöld héldu því fram að sprengingarnar væru innan viðmiðunarmarka (sem taka kannski mið af því að verið sé að sprengja einhvers staðar úti í móa en ekki í þéttri byggð) og tryggingafélög vildu fyrir vikið ekki bæta augljósan skaða á sumum húsunum. Með öðrum orðum vildi enginn bera ábyrgð á tjóni og óþægindum íbúanna. Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður hverfisráðs Vesturbæjar, sagði þá réttilega hér í blaðinu að borgin yrði að taka föstum tökum hver í borgarkerfinu bæri ábyrgðina. „Þegar fyrir liggur að stefna borgarinnar er að þétta byggð er það brýnt hagsmunamál fyrir íbúa að það sé skýrt hver beri ábyrgðina. Framkvæmdir eiga að ganga betur en svo að íbúar séu óöruggir með rétt sinn,“ sagði Hildur. Í framhaldi af þessu var samþykkt í borgarstjórn, að tillögu sjálfstæðismanna, að setja á fót starfshóp um framkvæmdir á þéttingarsvæðum, til að tryggja að þéttingin yrði í sátt við umhverfið og borgarbúa. Fréttablaðið sagði frá því í gær að á sex vikum hefði borgarstjórnarmeirihlutinn ekkert gert í málinu og enginn hópur verið skipaður. Hins vegar smellti meirihlutinn fram svokallaðri verklýsingu fyrir nýtt hverfisskipulag Vesturbæjarins, þar sem gert er ráð fyrir ýmsum þéttingarmöguleikum, til dæmis að byggja á illa nýttum fjölbýlishúsalóðum. Það er ekki galin hugmynd, en íbúum viðkomandi húsa komu áformin í opna skjöldu. Það er engin furða að fólki bregði þegar lagt er til í plaggi frá borginni að bílskúrinn hjá því verði rifinn og byggð blokk í staðinn. Íbúar gömlu hverfanna ættu oft að sjá sér hag í þéttingu byggðar. En áformin um hana verður að vinna í sátt og samstarfi við íbúana. Ótal spurningar vakna hjá fólki þegar lagt er til að byggja inni í grónum hverfum. Eru skólar og leikskólar í stakk búnir að taka við fleiri börnum? Mun umferð aukast? Mun skyggja á lóðir? Verða nóg bílastæði? Hver bætir hugsanlegar skemmdir eða rask vegna framkvæmda? Þá umræðu þarf að taka strax, ekki skella fram vanhugsuðum hugmyndum sem íbúar líta á sem árás á rétt sinn og hagsmuni.
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun