Körfubolti

Sýndu ekki Keflavíkurhjartað sem ég vildi sjá

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Farinn. Andy Johnston þjálfar Keflavík ekki næsta vetur.
Farinn. Andy Johnston þjálfar Keflavík ekki næsta vetur. Fréttablaðið/Daníel
„Andy vildi ekki vera annað tímabil en ég held það sé bara best að hann svari því sjálfur af hverju það er.,“ segir Falur Harðarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur um bandaríska þjálfarann Andy Johnston sem yfirgaf félagið eftir tímabilið.

Johnston samdi til tveggja ára síðasta sumar en en eins og tíðkast var hann uppsegjanlegur af beggja hálfu eftir fyrra árið.

„Við vorum ekkert búnir að taka ákvörðun okkar megin þar sem hann var fyrri til. Við vorum ennþá að jafna okkur á sjokkinu þegar hann tók þessa ákvörðun.

Sjokkið sem Falur talar um er hörmungin sem Keflavík gekk í gegnum undir lok tímabilsins. Eftir frábæra frammistöðu á fyrri parti tímabils þar sem allt gekk upp hrundi spilamennska bæði kvenna- og karlaliðsins. Það náði svo hámarki í úrslitakeppninni þar sem báðum liðum var sópað út í fyrstu umferð.

„Þetta er eitthvað sem við höfum ekki upplifað áður og var alveg rosalega skrítið því það liðu aðeins nokkrir dagar frá því að við vorum að spila um efsta sætið við KR og þangað til við erum dottnir út, 3-0,“ segir Falur.

Háværir orðrómar voru uppi um að leikmenn Keflavíkur væru orðnir verulega þreyttir á Johnston en Falur vísar því á bug. „Nei, ég upplifði það ekki þannig. Svo er ég ekki hrifinn af orðinu á götunni. Það væri fásinna að segja þetta væri einhver einn hlutur sem gerðist. Það sem gerðist var samspil margra þátta.“

Falur var engu að síður óánægður með karlaliðið og hvernig það lét liðið í sjöunda sæti sópa sér í sumarfrí. „Þetta lið sýndi ekki það Keflavíkurhjarta sem ég og fleiri hefðum viljað sjá,“ segir Falur en leit að nýjum þjálfara er hafin. „Hún er farin í gang en það er ekkert meira en það.“

Eftir það sem gerðist með Johnston, kemur til greina að ráða annan útlending eða mann sem stendur fyrir utan félagið?

„Það hlýtur allt að koma til greina. Allt annað væri vitleysa segi ég. En við erum bara ekki komnir svo langt,“ segir Falur.

Aðspurður að lokum hvort tilraunin með Johnston hafi verið mistök segir Falur svo ekki vera. „Mér finnst það ekki. Maður lærir svo lengi sem maður lifir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×