Tónlist

Hjaltalín snýr aftur

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigríður Thorlacius söngkona Hjaltalín hlaut titilinn söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Sigríður Thorlacius söngkona Hjaltalín hlaut titilinn söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Mynd/Florian
„Þetta var töluverður hringur og það gekk rosalega vel,“ segir Sigríður Thorlacius, söngkona Hjaltalín, en sveitin lauk fyrir skömmu tónleikaferðalagi um Evrópu. Sveitin spilaði á by:Larm í Noregi, á fjórum stöðum í Þýskalandi, Lúxemborg, Brussel og Amsterdam. „Við vorum úti í tíu daga og vorum einnig viðstödd Norrænu tónlistarverðlaunin,“ bætir Sigríður við en hún var valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í gærkvöldi.

Þetta er fyrsta stóra tónleikaferðalagið sem sveitin fer í um þrjú ár en hún hefur þó farið út undanfarið í styttri ferðir.

Hún er þessa dagana eina stelpan í sveitinni því Rebekka Björnsdóttir fagottleikari hefur lítið komið fram með sveitinni síðan platan Enter 4 kom út en hún er búsett í New York. „Ég fagna því alltaf þegar ég hitti stelpur á tónleikaferðalögum. Ég þyrfti eiginlega að fara að nálgast fótboltaspjöld og flautu til að hafa hemil á piltunum. Þetta eru góðir og gáfaðir menn og gæti því verið verra,“ segir Sigríður létt í lund.



Högni Egilsson kraftmikill á sviðinu.mynd/florian
Hjaltalín hefur látið lítið á sér bera að undanförnu en meðlimir sveitarinnar eru orðnir þyrstir í að búa til tónlist saman. „Við erum öll þyrst í að gera meira og erum að byrja að vinna að nýju efni. Það gerði okkur gott að bakka aðeins.“

Fram undan eru stærstu tónleikar sem sveitin hefur haldið hér á landi. „Við verðum með tónleika 16. apríl í Eldborg. Þetta verða stærstu tónleikar sem við höfum haldið og við hlökkum mikið til,“ segir Sigríður og bætir við að talsverðar líkur séu á að nýtt efni verði flutt á tónleikunum.

Aðaláhersla tónleikanna verður á efni plötunnar Enter 4 sem hlotið hefur fádæma góðar viðtökur en þó verður farið yfir feril sveitarinnar.

Guðmundur Óskar og Högni prúðbúnir á góðri stundur.mynd/einkasafn
„Við förum aftur út í maí og svo erum við eitthvað að spila í sumar, hér heima og úti,“ segir Sigríður spurð út í frekara tónleikahald.

Nýjasta smáskífulag Hjaltalín, Letter To, er komið í spilun á helstu útvarpsstöðvum landsins en nú er myndband við lagið í vinnslu. Talið er að myndbandið, sem unnið er af Magnúsi Leifssyni verði frumflutt á næstunni.

Miðasala á tónleika Hjaltalín í Eldborg fer fram á Midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.